Leikskýrslan á ksi.is | Umfjöllun í Feyki
Loks kom að því að okkar menn í Kormákur Hvöt spiluðu heimaleik á heimavelli þetta tímabilið, er Haukar frá Hafnarfirði sóttu heim Blönduósvöll í gær, laugardag. Völlurinn er ekki kominn í sitt besta stand, sem er ekki óeðlilegt á þessum tíma en þó orðinn spilhæfur sem er vel. Veðrið var með ágætasta móti, hitastigið nálægt stofuhita en blés nokkuð að sunnan og léku okkar menn undan vindi í fyrri hálfleik. Liðunum tveimur var fyrir mót spáð af þjálfurum liðanna í deildinni, á sitthvorn endann í stigatöflunni frægu, Haukum við toppinn en okkur langneðsta sætinu. En miðað við þróun leiksins er ljóst að menn hafa ekki leitað í spákistu Baba Vanga, enda okkar menn betri í leiknum og sköpuðum miklu betri færi.
Fyrstu 25 mín voru nokkuð jafnar, við meira með boltann án þess að skapa mikið, vindurinn torveldaði sendingar en loks kom góð sending af hægri kanti á Artur sem skaut boltanum yfir úr góðu færi. Rétt seinna átti Papa sendingu af kantinum sem sveif í fang markvarðarins sem á einhvern furðulegan hátt flumbraði boltanum inn og staðan orðin 1-0.
Okkar menn hresstust til muna og tóku öll völd á leiknum, á 35.mín gerði Jón Gísli vel og lét vaða af 35 metra færi sem markvörðurinn varði vel í horn. Úr horninu fékk Artur algjört dauðafæri en skallaði boltann yfir. Áfram héldu okkar menn að sækja án þess að skapa hættuleg færi, Haukarnir vörðust af skynsemi og án þess að gefa á sér færi.
Sá seinni hófst og var ekki margra mínútu gamall þegar Jorge á góða rispu og finnur Jón Gísla í góðu færi en skotið framhjá. Nú tók við kafli þar sem bæði lið sýndu fína spiltakta og nokkur harka færðist í leikinn en ágætur dómari lét ekki platast þótt menn féllu með tilþrifum eins og leyniskytta væri í brekkunni að skjóta á mannskapinn. Á 62.mín kom umdeildasta atvik leiksins en okkar menn brutu af sér og dómarinn dæmdi að virtist réttilega aukaspyrnu en eftir nokkuð japl, jaml og fuður, breytir dómarinn ákvörðun sinni og bendir á vítapunktinn eftir samtal við aðstoðardómara, heimamönnum og stúkudómurum til mikillar furðu og lítillar ánægju. Haukar skora úr spyrnunni, þeirra fyrstu á markið, og staðan 1-1.
Áfram hélt barningurinn, Kristinn sem kom inn í hálfleik fyrir Atla, gerði vel er hann komst framhjá tveimur og gaf fyrir þar sem Artur kom askvaðandi en var einni skóstærð frá því að reka tánna í boltann og inn. Seinna áttu okkar menn aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og skemmtileg útfærsla sendi Goran í dauðafæri en markvörðurinn varði eins og Gummi Hrafnkels á góðum degi.
Síðustu 10 mín sóttu Haukar meira og fengu nokkur horn sem flest enduðu í hrömmum Uros, sem átti fram að þessu ákaflega náðugan dag. Rétt í lokin fengum við svo dauðafæri úr skyndisókn er Kristinn gerði vel og átti góða stungusendingu á Jorge sem var einn á móti markmanni sem varði skot hans rétt framhjá. Lokaniðurstaða svekkjandi jafntefli, eitthvað sem við hefðu sjálfsagt tekið fyrir leik.
Það var margt jákvætt hægt að taka úr þessum leik, ef liðið spilar svona þá er það alveg á pari við bestu lið deildarinnar. Flestir voru að skila sínu, Acai frábær í miðverðinum og vann öll návígi, Mateo og Goran unnu sig vel inn í leikinn, bræðurnir Siggi og Jón börðust vel og sýndu flotta takta. Kristinn kom inn með baráttu og mjög jákvætt að fá hann til baka úr meiðslunum.
Ágæt mæting og stemming á leiknum og nú liggur þetta bara beina leið upp á við.