Á fallegum vordegi á Dalvík tóku Kormákur Hvöt á móti Reyni frá Sandgerði í sínum fyrsta heimaleik þetta árið. Heimavellir liðsins, Blönduósvöllur og Sjávarborgarvöllurinn á Hvammstanga, eru að vitaskuld óleikfærir í fyrstu vorvikunum, en ekki var vilji til að hliðra til með það hjá hinu háæruverðuga Knattspyrnusambandi Íslands.
Því var leikurinn settur á gervigrasvöll Skagafjarðar, en þegar sá völlur varð vætu að bráð þurfti að leita enn lengra. Þessi fyrsti heimaleikur fór því fram á næsta tiltæka velli, sem Dalvíkingar voru svo góðir að lána okkur.
Mikið var undir. Liðunum tveimur var spáð í óæðri enda stigatöflunnar af spámönnum, svo leikir þeirra á milli eru extra mikilvægir. Ekki var annað að sjá en að hugur væri í mannskapnum, stigin þrjú skyldu bleik. Í lið Kormáks Hvatar sneru aftur þeir Goran, sem sat í upphafi móts á sakamannabekk fyrir tvígult í síðasta leik síðasta árs, og svo Uros kominn í markið eftir sitt langa bann – sem gárungar hafa kallað „eftirköstin af Uroshima“, eins og Bubbi Morthens söng um árið – þegar hann gékk berserksgang undir lok síðasta leikárs eftir leik á móti einmitt Reyni frá Sandgerði.
Út frá síðasta leik fóru Gústi og þeir Siggi Aadnegard og Kristinn Bjarni sem báðir glíma við eymsl.
Eins og alltaf þessa dagana, þá fór leikurinn af stað eins og fyrsta sókn í handboltaleik. Liðin leika boltanum fram og aftur blindgötuna á sínum eigin leikhelmingi og fátt um sóknartilburði. Þetta er kannski nútímafótbolti. Gott og vel.
Papa fékk gult á mínútu 7 fyrir eitthvað sem enginn man. Hér gætu fylgt eftir margar setningar um dómgæsluna, en látum það vera. Nægjum að segja að það boðar aldrei gott þegar dómarinn lítur á sjálfan sig sem aðalmálið í leik og mátti heyra bæði lið emja undan skilningsleysi hans á leiknum. Eftir gula spjaldið á upphafsmínútum fylgdu átta í viðbót, fimm af þeim okkar. Minnum á að fjögur slík leiða til banns.
Reynismenn skora á 20. mínútu eftir kæruleysi í boltameðferð okkar manna á eigin helmingi. Ef menn ætla að spila á milli djúpt á vellinum, þá þarf að fara með boltann eins og fjöregg og passa með þrítryggingu að ekkert komi fyrir það. Það var ekki gert þarna, of losaraleg sending rataði í fætur sandgerðsks sóknarmanns og létt spil leiddi þá í gegn. Lítið sem Uros, Acai eða Sergio gátu gert.
Fram að þessu höfðum við ekki gert mikið sem gætu kallast sóknartilburðir. Það breyttist á 29. mínútu þegar liprasta sókn okkar leit dagsljós. Goran sýndi galdramennsku þegar hann tók við bolta við miðjulínu hægra megin og twerkaði sig í gegnum vörn Reynis eins og hann væri staddur í stórsvigskeppni í Böggvisstaðafjalli. Þegar Goran er með þennan háttinn á getur enginn stöðvað hann. Þegar búið var að finna alar glufur í vörn Reynis sendi hann nett á Atla Þór sem beið í hárréttri stöðu og lagði boltann með mikilli yfirvegun í fjærhorn marksins. Sanngjarnt jafnt og nóttin var ung.
Fyrir þetta og eftir hélt áfram það trend sem við höfum séð í fyrstu tveimur leikjum Íslandsmótsins; það má dúndra í Atla Þór Sindrason eins og menn vilja, en dæmt er á það í sirka áttunda hvert sinn. Kannski af því að hann er minni en flest þau varnartröll sem á hann er sett, það verða dómarar landsins að eiga við sig, en það væri fínt ef þetta færi að hætta.
Eitt slíkt tilvik kom eftir 40 mínútna leik eða svo, þegar hann var sparkaður niður í vítateig Reynis. Svo hátt small í takkaskónum að húsráðendur á kirkjubænum Tjörn í Svarfaðardal hlupu út í klukkuturn og lögðu handklæði á bjölluna til að stoppa bergmálið. Með hreinum ólíkindum að ekki skuli hafa verið dæmt þetta hreina og beina leikbrot.
Til að bíta höfuðið af skömminni þá fóru Reynismenn upp í sókn þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma fyrri hálfleiks, framherji þeirra henti sér niður slíkum með gólum og grenjum að annað eins ku ekki hafa heyrst á Dalvíkurvelli. Völlurinn nýsópaður og án aðskotahluta, svo ekki verður annað af ráðið en að viðkomandi hafi hlotið ítarlega leiklistarkennslu á einhverjum vettvangi. Þeir sem í beinni sjónlínu voru sáu að sá þespíski krækti hönd sinni um varnarmanns-hönd Kormáks Hvatar og henti sér svo niður. Skömm að.
Úr aukaspyrnunni gerðu þeir gríðar vel og skoruðu beint. Listavel gert.
Seinni hálfleikur fór að mestu í tafir. Reynir yfir og reyndu að espa auð-espkt lið heimamanna upp. Ekki voru miklir sóknartilburðir í boði, þó svo að lið Kormáks Hvatar sé stappfullt af hæfileikum. Þetta er bara eins og í fyrra, menn þurfa að spila sig saman og eru ekki búnir að því. Þetta mun koma ef allir halda haus og leyfa verkefninu að þroskast á sinn veg.
Aftur fengu Reynismenn aukaspyrnu rétt fyrir utan teig, en ekki sáu fréttaritarar hvort það var rétt eða rangt. Aftur var það sami framherji sem féll og aftur var það með slíkum harmi að mesta furða þótti að allir væru útlimirnir enn fastir við hann þegar upp var staðið. Úr aukaspyrnunnni skoraði annar Reynismaður og 1-3 orðið. Nægur tími til aðgerða, rúmar 30 mínútur á klukku.
Á þeim hálftíma sem eftir lifði reyndu Kormáks Hvatar-menn að sækja, en það gekk lítt. Hálffæri, hangs á bolta og læst vörn Rosmhvalsnesinga hélt út. Leikurinn endaði með 1-3 tapi og uppnámi leikmanna í lokin.
Óttist eigi. Stigin munu koma. Margir eru að spila vel, en það vantar meiri hraða, fljótari sendingar og beittari sókn. Vörnin er góð og verður betri. Uros er ryðgaður eftir allt bannið, en við þekkjum hans gæði frá í fyrra. Hinir fjórir fræknu fyrir framan hann eru að spila sig saman, Acai er búinn að vera góður í fyrstu tveimur, Sergio er algert varnarskrímsl og gæða bakvarðanna eru lýðnum ljós.. Mörkin sem við fengum á okkur voru eftir sendingamistök og óþarfar aukaspyrnur sem voru gefnar á óþarflega vondum stöðum.
Miðjan er full af hæfileikum, þar voru líka þrír menn að spila saman í fyrsta sinn. Artur er einangraður fremst og okkar ungu heimöldu kantmenn munu finna sendingarnar á hann.
Næsti leikur er gegn KF, sem eru eins og við stigalausir. Sá leikur er þegar þetta er skrifað planlagður á Ólafsfirði, en við látum myndina hér fyrir neðan tala – en hún var tekin á helginni í Ólafsfirði. Líklegra er að Fjallbyggðingar færi leikinn á okkar heimavöll þennan daginn – Dalvík.
Þar óskar Aðdáendasíðan eftir því að mannskapurinn fjölmenni. Leikurinn er klukkan 19:15 á föstudegi, sem er hin fullkomna tímasetning. Hægt að fara í bjórböðin á Árskógssandi og allskonar.
Við ÆTLUM að fá þrjú stig þarna. Ef það gengur eftir þá byrjum við mótið nákvæmlega eins og í fyrra. Einn sigur og tvö töp eftir þrjá leiki. Við munum öll hvernig það tímabil fór – er það ekki?