Lóan er á leiðinni og verður komin vonandi í maí.
Annað sem kemur þá er Íslandsmót karla, en Kormákur Hvöt leikur þar í 2. deild annað árið í röð sumarið 2025. Margt hefur verið rætt og ritað um það afrek okkar liðs að vera eina liðið í efstu þremur deildum, með einhverja vitræna þáttöku, sem aldrei hefur fallið um deild, svo margs er að hlakka í sumar.
Á suma staði hlakka aðdáendur meira til að fara en aðra. Sum lið eru okkur erfið og hafa aldrei gefið eftir stig, á meðan önnur lið erum við með í hauslás. Hægt er að sjá yfirlit allra leikja á Aðdáendasíðunni á Feis.
Skemmtilegasti útivöllur:
- Haukar – með eindæmum skemmtilegt fólk og glatt. Veitingar góðar. Veðrið svipað og heima (alltaf rok) og þarna eigum við harma að hefna frá í fyrra.
- Vogar – sóttum óvænt 3 stig með buzzer marki á 90. mínútu í fyrra. #minningar
- Garður – alvöru landsbyggðarstemning á fallegu grasi.
Leiðinlegustu útivellir:
- KFG – aldrei veitingar, aldrei stemning, alltaf kalt.
- Kári – fáránlega neikvæðir áhorfendur, lágt til lofts í kaldri höll og lýsingin eins og úr grútarlömpum
- KFA – okkur leiðist að spila í knattspyrnuhöllum. Svo er líka svo djöfull langt þangað.
MAÍ:
Við hefjum leik snemma í maí í hlýjunni Í Fjarðabyggðahöllinni á Reyðarfirði, þó að leikurinn sé skráður á SÚN vellinum á Eskifirði. Líkurnar á að grasið þar verði tilbúið á þessum árstíma eru álíka miklar og að Donald Trump kaupi Grænland, svo við bókum þennan inni. Þarna sóttum við ekkert á síðasta ári á sannfærandi hátt, svo nú er lag að koma á óvart.
Mótanefnd KSÍ sýnir vallaraðstæðum í Húnaþingi jafnan ekki nokkurn skilning, svo þann 10. maí er búið að setja leik á Blönduósi. Þar mæta í heimsókn fallnir Gróttumenn, sem voru fyrir ekki neitt svakalega löngu í efstu deild. Þeir munu væntanlega ekki vera fullir tilhlökkunar að mæta norður í vorkuldann, svo við bíðum bara eftir að Borgþór færi okkur stífa norðanátt hvar svo sem þessi leikur fer fram. Þó að Grótta flokkist ekki undir knattspyrnustórveldi þá eru þeir mikil útungunarstöð efnilegra leikmanna og við aldrei við þá kappi att. Hlökkum til þessa leiks.
JÚNÍ:
Fjallbyggðungar féllu á eftirminnilegan hátt í fyrra og Völsungar álpuðust upp, svo eini Norðurlandsslagur sumarsins er við Dalvík/Reyni sem féllu niður um deild sumarið 2024. Í júní eiga þeir að koma til okkar, en skynsöm öfl myndu svissa á leikjum við þá og byrja í kjafti Svarfaðardals.
Aðrir leikir í júní eru heimsókn til Hauka, sem Aðdáendasíðan spáir uppferð í sumar. Þangað fórum við í mígandi rigningu í fyrra og töpuðum sannfærandi í einum af okkar slökustu leikjum sumarsins (og þeir hittu á einn sinn besta).
Við tökum á móti nýliðum Víðis, sem eru að leika sitt síðasta tímabil undir eigin flaggi áður en þeir sameinast Reyni. Leikir við þá eru alltaf hörkufætingur, svo gott stöff. Einnig þá setjum við hring utan um heimsókn á Vogana, þar sem við unnum einn okkar besta og óvæntasta sigur í fyrra.
JÚLÍ:
2025 gefur okkur leik á Húnavöku, eftir að víxl á helgum, vangeta KSÍ og varmennisháttur andstæðinga læsti dagatalinu í fyrra. Í ár fáum við KFA í heimsókn og ætti það að vera mikið húllumhæ. Enn meira húllumhæi búumst við við á Elds í Húnaþingi-leiknum þegar Ægismenn koma á Hvammstanga. Leikir við þá eru stál í stál, mikil saga þarna á milli. Stuðið á Eldsleiknum í fyrra var líka eitthvað annað og með ólíkindum að ekki hafi verið fjallað um það í héraðsritinu Húna.
Í lok júní leikum við í hinni þrotuðu Akranes“höll“ við Kára. Á þessum velli, við þetta lið lékum við eftirminnilegan leik fyrir tveimur árum eins og frægt varð. Drottin gefi okkur að KSÍ álpist ekki til að senda sama dómara til leiks og þá.
ÁGÚST:
Þegar sumri fer að halla leggjast línur. Í fyrra héldum við okkur koma fyrir horn, en var svo fyrirmunað að ná nokkru stigi í ágúst og september á meðan hælbítar eltu. Þetta slapp til.
Víkingur Ó, Dalvík/Reynir og Haukar bíða okkar þarna, svo verum þolinmóð aftur í ágúst. Þó eru stig að fá gegn liðum eins og Víði og Þrótti okkar í Vogum.
SEPTEMBER:
Í sepemberber eru aðeins tveir leikir, en tímabilið hefur ekki klárast jafn snemma og í ár síðan við vorum í 4. deild.
Líklegt er að síðasti heimaleikurinn sé á réttarhelgi 6. september, svo KFG-menn fá að kynnast alvöru dreifbýlisstemningu og mannmergð. Síðasti leikurinn er svo á Egilsstöðum þann 13. september.
Næst á dagskrá er ótímabær spá fyrir næsta sumar. Stay tuned og byrjið að hafa til vallarfötin því það styttist í fyrstu leiki!