Hin mesta prýði, er Kormákur Hvöt vann Víði

Kormákur Hvöt – Víðir 3-2

Leikskýrsla á ksi.is

Komið var að leiknum sem margur heimamaðurinn hafði beðið eftir, sjálfur Húnavökuleikurinn. Og ekki síður vegna þess að Kormákur Hvöt átti harma að hefna eftir fyrri leikinn, sem tapaðist nokkuð örugglega á vordögum.

Fyrr í vikunni höfðu spekingar Ástríðunnar valið fjóra af okkar mönnum í lið fyrri umferðar, þá Uros í markinu, varnarmanninn Papa, miðjuakkerið Lazar og hinn göldrótta Goran. Allir voru þeir í byrjunarliðinu í dag, Uros á sínum stað, Papa hægra megin, Acai og Hlynur Rikk í miðvörðum og Alberto kom inn í vinstri bak eftir nokkurra leikja „frí“. Á miðjunni voru téður Lazar og Jose, með Benna og Goran á köntum. Frammi voru Ingvi og Ismael.

Eitthvað hafði gleymst að panta góða veðrið á Húnavökuna og leikurinn því spilaður í norðan roki og 6 stigum. Það hafði þó engin áhrif á áhorfendur, sem fjölmenntu í stúkuna og hinir sem gleymdu KRAFT-gallanum heima, þeir mynduðu skjaldborg utan um völlinn með bílum sínum. Nokkuð örugglega fjölsóttasti leikur tímabilsins hér nyrðra og réttilega svo.

Fyrri hálfleikur

Gestirnir byrjuðu af meiri krafti í leiknum og náðu upp betra spili með vindinn í bakið. Af fyrstu 10 mínútunum að dæma hefði mátt halda að leikmenn okkar hafi fjölmennt á Pallaballið kvöldið áður, því þeir voru einfaldlega ekki mættir til leiks.

Það var því eins og við manninn mælt, úr sínu fyrsta færi skoruðu Víðismenn, sending inn í teiginn og bæði vörn og Uros eitthvað sofandi, klafsskalli sem Uros ver í varnarmann og inn skoppar boltinn.

7′ MARK – 1-0 – Helgi Þór Jónsson.

Ekki beint sú byrjun sem aðdáendur í stúkunni höfðu óskað eftir. Sló aðeins þögn á mannskapinn en það átti ekki eftir að vara lengi. Við förum að sækja á þá og aðeins nokkrum mínútum seinna finnum við Papa úti á hægri vængnum (eins og svo oft), hann leikur á einn og smellir svo í einn vinstrifótar rétt fyrir utan teig, beint í skeytin og inn. Eitt flottasta mark tímabilsins án nokkurs vafa.

14′ MARK – 1-1 – Papa Diounkou Tecagne.

Papa setti þennan bara skeytin inn!

Það má segja að þetta hafi vakið heimamenn eftir daufar fyrstu 10 mínúturnar og átti hér að láta hné fylgja kviði. Ismael kemst tvisvar í mjög góða stöðu, en fyrst kemst varnarmaður inn í síðustu stundu en hið síðara var hvorki ákvarðanataka né sending nógu góð.

Víðismenn eiga þó einnig sína spretti, bera boltann hratt upp og eru hættulegir. Acai gerir oft á tíðum mjög vel að stíga hátt upp og komast inn í sendingar og í þeim tilfellum sem boltinn berst inn í teiginn, þá er Hlynur Rikk mættur til að hreinsa upp.

Undir lok fyrri hálfleiks kemst Ismael í mjög góða stöðu og í þetta sinn sér hann hlaup Gorans og sendir glæsilega sendingu inn fyrir, Goran í dauðafæri en markmaður ver skot hans virkilega vel út við stöng.

Í hálfleik er staðan 1-1. Tvö góð lið í jöfnum leik.

Seinni hálfleikur

Ekki þurfti að bíða lengi eftir færum í seinni hálfleik. Við geysumst fram í sókn, Ingvi og Goran í eltingarleik við varnarmann sem hittir ekki boltann og Ingvi skyndilega kominn einn á móti markmanni. Fyrra skot hans er varið, en hann nær frákastinu og klárar auðveldlega í seinna skiptið.

49′ MARK – 2-1 – Ingvi Rafn Ingvarsson.

Marki Ingva var vel fagnað

Eitthvað virtist fagn heimamanna fara illa í gestina og þurfti smá fundarhöld á miðjum vellinum áður en hægt var að hefja leik að nýju. Við sækjum áfram og Benni fær dauðafæri, reynir sendingu fyrir á Goran en varnarmaður bjargar á síðustu stundu.

Víðismenn fá þá gott færi en skalla framhjá. Við förum í sókn og Ingvi með frábæra stungusendingu inn fyrir á Goran, sem er kominn í dauðafæri en nær ekki skoti fyrr en færið er orðið þröngt og markmaður Víðis ver. Stuttu síðar fær Ismael gott færi en skýtur framhjá. Víðir fara þá í sókn, ná sendingu fyrir og aftur eitthvað klafs sem endar með því að boltinn lekur inn í markið. Mjög slysalegt mark og á vondum tíma, þar sem við höfum aldeilis fengið tækifærin til að gera út um þennan leik.

’61 MARK – 2-2 – Paolo Gratton.

Heimamenn eru þó greinilega harðákveðnir að láta þetta ekki hafa áhrif á sig og halda áfram að leita að sigurmarki. Náum flottri sendingu inn fyrir á Benna, sem skorar, en er dæmdur rangstæður. Hér dæmdi dómarinn áður en línuvörðurinn lyfti flagginu og Benni fær gult fyrir að halda leik áfram eftir flaut. Þetta var síðasta snerting Benna í leiknum, því inn á kemur Atli með því sama.

Stuttu síðar er frábær stungusending frá Lazar inn á Goran sem endar einn á móti markmanni og vippar yfir hann, en boltinn fer í stöngina og endar að lokum í höndum fegins markmanns Víðis. Algjört dauðafæri og Víðismenn stálheppnir.

Kristinn kemur inn fyrir Ingva og hann er ekki búinn að vera lengi inn á þegar hann fær boltann úti á hægri kantinum, sendir frábæra sendingu fyrir og beint á Atla sem slúttar glæsilega í hornið af stuttu færi. Frábært mark hjá ungu strákunum okkar.

’73 MARK – 3-2 – Atli Þór Sindrason.

Atli og Kristinn kláruðu þennan leik fyrir Kormák Hvöt

Þetta mark var fyllilega verðskuldað þar sem við vorum búnir að vera mikið mun betri þessar mínúturnar. Við setjumst aðeins eftir þetta, en fáum 1-2 færi í viðbót, en Víðismenn gera hvað þeir geta til að jafna metin enn á ný. Síðustu 10 mínúturnar og í uppbótartíma sækja þeir hart að okkar marki og markmaður þeirra mætir í tvígang í horn. Við náum þó að bægja hættunni frá og siglum þessum mikilvæga sigri heim. Lokastaðan 3-2 í hörkuleik tveggja góðra liða.

Punktar

  • Papa með eitt flottasta mark sumarsins, algjört gull af marki. Var að vanda með áætlunarferðir upp hægri vænginn og coveraði hann nánast eins síns liðs
  • Þótt liðið hafi fengið á sig tvö mörk í dag, þá verður að gefa miðvarðaparinu sérstakt hrós. Acai hefur komið virkilega sterkur inn í liðið aftur og les leikinn frábærlega. Hlynur Rikk fær oft ekki það hrós sem hann á skilið, vinnur ófáa skallaboltana og hreinsar allt í burtu sem til hans kemur. Þetta var jafnframt 200. leikur hans á ferlinum, þar af 165 undir merkjum Kormáks Hvatar (179 í leikjum allra aðildarfélaga).
  • Einstaklega ánægjulegt að sjá sigurmarkið skorað af 2 yngstu mönnum liðsins (í dag). Árið 2006 eru þeir Kristinn og Atli fæddir, en hafa báðir fest sig í sessi hjá liðinu. Algjörlega frábært mark og framtíðin er þeirra.

Við tyllum okkur aftur upp í annað sætið eftir þennan sæta sigur, 5 stigum á eftir Reyni og einu á undan Víði. Næstu tveir leikir eru einnig á heimavelli, sá fyrri gegn ÍH eftir rúma viku og sá seinni gegn KFS á Eldi í Húnaþingi eftir nákvæmlega 2 vikur. Sækjum sex stig í þessum leikjum og þá eru allir vegir færir.

Áfram Kormákur Hvöt!

Leave a Reply