Augnablik – Kormákur Hvöt 2-1
Fallegur dagur í Kópavoginum á laugardag þegar Augnablik og Kormákur Hvöt mættust. 20 stiga hiti og sól og því tilvaið að skella sér INN í Fífuna til að leikmenn fengju nú ekki sólsting.
Nokkrar breytingar voru á okkar liði, út fóru Nico, Siggi og Ismael og í stað þeirra komu inn Acai, Goran og Ingvi. Í vörninni voru fyrir framan Uros, þeir Papa, Acai, Hlynur og Mateo. Á miðju voru Jose, Lazar og Benni. á köntum voru svo Kristinn og Goran með Ingva fremstan uppi á topp.
Fyrir leikinn var lið okkar í öðru sæti en heimamenn í því fjórða og því ljóst að hér var um sex stiga leik að ræða í toppbaráttunni. Fyrirfram erfiður leikur gegn spræku liði Augnabliks.
Fyrri hálfleikur
Fyrsta alvöru færið lét ekki bíða lengi eftir sér. Strax á 6. mínútu fékk Ingvi algjört dauðafæri, fékk boltann inn í vítateig, lék á einn, lék á tvo, fann svo örugglega einn enn til að leika á áður en hann skaut á markið, en það var varið. Hér hefði líklegra verið heppilegra að þrusa bara í fyrsta en hann eflaust jafnhissa með allt þetta pláss sem hann fékk þarna skyndilega.
Við eigum aðra ágætis sókn skömmu síðar, spilum upp hægri kantinn eins og við gerðum reyndar oft í þessum leik, endar hjá Goran sem svingar honum fyrir á Kristin, en varnarmaður kemst fyrir skot hans.
Það hægist aðeins á og liðin skiptast á að reyna að finna glufur en lítið gengur, ágætis spil en menn komast inn í sendingar áður en nokkur hætta skapast. Eftir u.þ.b. 20 mínútna leik fær Ingvi annað kjörið tækifæri en aftur varið.
Við höldum áfram að sækja, án þess þó að komast alla leið í gegn, fljótir upp að vítateig en þar er oft lokað á eða lokasendingin ekki að rata á réttan mann.
Þegar líða tekur á hálfleikinn fara Augnabliksmenn að sækja í sig veðrið og eiga nokkrar álitlegar sóknir. Ein þeirra skilaði sendingu í gegn og þar kemur Uros með frábært úthlaup og nær boltanum við vítateigslínu, sekúndu á undan sóknarmanninum. Þeir halda svo áfram að sækja á okkur og með 2-3 aðrar álitlegar sóknir en vörnin stóð þær af sér.
Kormákur Hvöt fer þá að gera sig líklega aftur og ýta grænum aftar á völlinn.
MARK! 1-0. Á 42. mínútu gleyma menn sér heldur betur í vörn Kormáks Hvatar. Stungusending á milli miðvarðanna og þar kemur einn grænliði á harðaspretti og skyndilega kominn einn í gegn. Setur hann auðveldlega framhjá Urosi í markinu. Ódýrt mark og þvert gegn gangi leiksins.
Við erum sem betur fer ekkert að hengja haus of lengi yfir þessu og reynum að sækja jöfnunarmark, fáum meðal annars tvö ágætis skallafæri í lok fyrri hálfleiks, en náum ekki að nýta okkur það.
Seinni hálfleikur
Atli kemur inn fyrir Kristin í hálfleik og tekur stöðu hans úti á hægri vængnum. Við höldum svo bara áfram þar sem frá var horfið í lok seinni, sækjum áfram á þá, staðráðnir í að kvitta fyrir þetta mark. Atli mjög sprækur og er að valda usla. Jose með skot eftir sendingu frá Benna.
MARK! – 2-0. Á 55. mínútu tekur Augnablik horn, velja að senda boltann stutt á vítateigshornið og þar fær einn heimamaðurinn nægan tíma til að athafna sig og sendir glæsilegan vinstrifótarbolta í hornið fjær. Óverjandi fyrir Uros í markinu.
Enn höldum við áfram að sækja á þá, en vantar oftar en ekki lokasendinguna eða að klára með góðu skoti. Á því verður þó breyting þegar Atli kemst inn í teig og á 2 virkilega góð skot, en markmaðurinn ver vel. Goran fær svo gott færi sömuleiðis, sem og Benni. Hættuleg sóknarlota Kormáks Hvatar sem hefði hæglega geta skilað marki en markmaðurinn vel á verði.
Við gerum breytingar og fáum Sigga og Ingiberg Kort inn fyrir Benna og Hlyn Rikk.
Þrátt fyrir áframhaldandi sóknarþunga okkar, þá erum við ekki að ná að brjóta þá á bak aftur.
MARK! – 2-1. Á 79. mínútu tekst það þó, aðeins mínútu eftir að einn grænna lét reka sig út af eftir kjaftbrúk við dómarann, þá kemur sending út á Atla sem kemur honum inn á Ingva sem skorar með skalla af stuttu færi.
Þegar hér er komið erum við komnir í góða stöðu til að sækja einhver stig úr þessum leik. Augnabliksmenn virðast hættir að vilja spila fótbolta á þessum tímapunkti og leggjast reglulega í grasið, eftir oft mjög litla snertingu. Þeir ná þó einni góðri sókn þar sem Uros brá sér í gervi Gumma Hrafnkels og náði að bægja hættunni frá.
Við reynum hvað við getum að sækja stigið en í staðinn nældi Ingibergur sér í rautt kort.
Niðurstaðan 2-1 tap gegn vel spilandi liði heimamanna. Það er þó mat okkar að við höfum átt meira skilið út úr þessum leik, verið almennt sterkari í leiknum, en vantað að binda enda á sóknirnar. Það gerðu hinsvegar heimamenn og nýttu færin sín vel. Markmenn beggja liða sýndu einnig góð tilþrif.
Nú þegar tímabilið er hálfnað erum við í 4. sæti með 20 stig, 5 stigum á eftir toppliði Reynis. Búnir að spila 4 heimaleiki en 7 útileiki. Næstu þrír leikir eru Víðir í Húnavökuleiknum, ÍH þann 23. og KFS á Eldi í Húnaþingi. Hér viljum við fá góða leiki og marga áhorfendur. Áfram Kormákur Hvöt!