Kormák / Hvöt oss hrelliði, Elliði

Leikskýrsla á ksí.is | Umfjöllun í Feyki (vantar) | Umfjöllun í Húna (vantar)

Kormákur Hvöt – Elliði 1-3

Fyrsti heimaleikur okkar fór fram á gervigrasinu á Sauðárkróki í dag. Þó ekki í sól og sumaryl, en frekar sunnan hvassviðri og rigningu. Elliðamenn úr Árbænum voru andstæðingarnir og skemmst er frá því að segja að þeir fóru með stigin þrjú suður yfir heiði, eftir 1-3 sigur. Við máttum sjá eftir fyrirliðanum í sturtu strax í fyrri hálfleik og var það ekki til að auðvelda róðurinn.

Við gerðum 2 breytingar á byrjunarliðinu frá tapleiknum í Garði. Út fóru Gústi og Aco þjálfari. Inn komu Alberto Montilla og Orri Ara. Þetta þýddi enn frekari hrókeringar í vörninni, Papa fór í hægri bakvörð, Hlynur og Alberto í miðverði og Siggi í vinstri. Á miðju voru Lazar, Goran og Ingvi. Á köntum voru Orri og Kristinn og Ismael frammi. Á bekkinn voru m.a. mættir aftur Mateo, Viktor og Acai.

Eins og áður segir var veður ekki upp á marga fiska og líklega hafa okkar menn ekki heyrt í flautunni því fyrsta markð kom eftir aðeins 27 sekúndur. Elliðar brunuðu fram og bleikir stóðu enn eins og keilur og náðu engum takti áður en skot þeirra reið af. Duric í markinu var þó greinilega sá eini með lífsmarki, því hann náði að verja boltann, en þó ekki nógu langt og náðu Elliðamenn að fylgja vel á eftir og netmöskvar þandir.

Fullkomlega afleit byrjun og algjörlega í takt við veðrið. Votir og veðurbarðir áhorfendur í stúkunni hristu hausinn.

Við fórum að reyna að ná upp einhverju spili, en það gekk brösulega framan af. Þó komst Ismael í upplagt marktækifæri strax á 3ju mínútu, en inn vildi boltinn ekki.

Við áttum oft á tíðum erfitt með langar sendingar inn fyrir, höfðum ekki alltaf svar við hraðanum hjá þeim. Það uppskar nokkrar miður vel tímasettar tæklingar og gul spjöld á 3 af 4 varnarmönnum okkar, eftir ekki nema 24 mínútna leik. Elliðamönnum leið reyndar vel í grasinu, vældu mikið og veltu sér marga hringi. „Dómari, dómari, þetta er rautt“ er greinilega eitthvað sem er kennt frá unga aldri í Árbænum.

Á 24. mínútu kemur ein langa sendingin inn fyrir og Moreno lendir í eltingarleik við sprækan Elliða og telur þann kost vænstan að stjaka aðeins við honum rétt eftir að þeir ná inn fyrir vítateigslínuna. Niður fer Elliðinn og víti dæmt. Líkast til alveg réttur dómur og lítið við því að segja. Duric gerði sig breiðan í markinu og freistaði þess að verja enn eitt vítið, því af þeim er nóg. Það hafðist ekki í þetta sinn og annað mark Árbæinga staðreynd.

Við förum loks að ná upp spili og komumst betur inn í leikinn. Finnum oft Ismael upp í vinstra hornið, en verst að hann hefði þurft að geta gefið á sjálfan sig, þar sem við náðum ekki alveg að ógna nógu vel á markið. En mun betra að sjá liðið. Orri, Ismael og Ingvi héldu boltanum oft á tíðum mjög vel og við náðum að hreyfa boltann hratt fram á við. Kristinn tengdi líka vel við sóknina oft á tíðum.

Þegar tæpar 40 mínútur voru liðnar af leiknum, fengum við aukaspyrnu við vítateigshornið vinstra megin. Þar stígur fram Lazar Cordasic og tekur aukaspyrnuna. Hann sveigir hann inn að marki, gegn sunnangarranum, og inn fer tuðran framhjá fjölmörgum leikmönnum sem stóðu í teignum. Verðskuldað mark og bleikir búnir að vinna sig allverulega inn í leikinn aftur.

Stuttu síðar geysumst við aftur fram og Ismael fær annað færi. Þeir ná að koma boltanum í horn. Lazar tekur þá spyrnu líka og boltinn fer inn í miðjan pakkann. Þar verður mikill darraðadans og niður fara leikmenn, m.a. fyrirliði vor. Boltinn endar í horni hinumegin. Einn Elliðinn rífur í Sigga, sem tekur því ekki sérstaklega vel. Eftir smá ýtingar og orðaskipti ákvað dómarinn að lyfta gula spjaldinu á báða leikmenn, Siggi farinn í sturtu. Ekkert hægt að segja við þessum dómi, atvik sem leiðir yfirleitt af sér þessa niðurstöðu.

1-2 í hálfleik og ennþá möguleiki í stöðunni, eftir fínar 15-20 mínútur í lok seinni. En róðurinn þó erfiður, 10 gegn 11.

Það er jafnt á liðum í byrjun seinni, en við förum svo að sækja aftur á þá, einum færri. Goran finnur oft á tíðum pláss úti á hægri vængnum og Papa kemur oft á tíðum hátt og ber boltann vel upp völlinn. Þeir ná þar vel saman, ásamt Ismael.

Við lendum þó aðeins í því að fá á okkur hraðar sóknir, en ekkert sem við náum ekki að stöðva.

Það vantar oft aðeins herslumuninn hjá okkur, komumst upp að vítateig andstæðinganna og reynum að þræða boltann þar í gegnum sterkan varnarmúr Elliða, en náum ekki að gera of mikið úr því.

Það er svo eins og oft þegar lið ná ekki að klára dæmið og liggja lengi á andstæðingnum. Þeir ná loks í gegn okkar megin og þrátt fyrir 2 góðar vörslur frá Duric, þá náum við ekki að koma boltanum frá og þeir skora á endanum. Staðan orðin 1-3 þegar um 20 mínútur eru eftir.

Lazar og Ingvi fara út, búnir að vinna vel fyrir liðið og farnir að þreytast. Inn koma Viktor á miðju og Gústi út til vinstri. Við höldum áfram að reyna að koma boltanum upp hægra megin og gengur það áfram ágætlega. Goran lendir í tvígang í samstuði og fær ekkert fyrir sinn snúð. Hann fer að lokum útaf og Hlib Horan tekur hans stöðu hægra megin. Mateo Climent kemur svo inn fyrir Orra á 90.

Leiknum lauk með 1-3 tapi, vond úrslit í leik sem við hefðum viljað fá 3 stig úr fyrirfram. Spilamennskan á köflum ágæt, en áttum í erfiðleikum með þá á break-inu.

Það þýðir lítið að dvelja við þessi úrslit of lengi, nóg af leikjum framundan og fullt af stigum eftir í pokanum, enda mótið rétt nýbyrjað.

Nokkrir punktar

  • Við þreytumst ekkert á því að biðja um færri spjöld og enn færri víti
  • Við þurfum að ná stöðugleika í vörninni, höfum þurft að rótera of mikið þar framan af tímabili
  • Mjög gott að sjá Alberto og Mateo koma aftur inn í liðið, sjá punktinn hér á undan
  • Orri og Kristinn létu finna vel fyrir sér í leiknum, meira svona
  • Við erum strax farnir að taka út leikbönn, verðum án fyrirliðans í næsta leik, það er lítið vel

Leave a Reply