Víðir úr garði – Kormákur Hvöt 3-0
Á Íslandi getur rignt, en svo er sérstakt hugtak sem ætti að ná yfir veðrið í Garði á Suðurnesjum. Í slíkum hamförum spiluðu heimamenn í Víði gegn aðkomendum í Kormáki Hvöt á þungum Nesfisksvellinum og sigruðu fyrrnefndir 3-0. Þessi pistill er ekki um erfiðan völl, erfitt veður eða dómara sem var álíka laginn við sitt fag og Hannes Hólmsteinn í að sjá báðar hliðar mála. Pistillinn er um hvað gerist næst.
Víðir vann, dómarinn dæmdi á okkur víti (í fimmta sinn í röð sem við fáum svoleiðis á í leik) og við áttum í raun ekkert færi sem við munum eftir. Samt voru Víðir ekkert 3-0 betri en við, þó vissulega hafi þeir átt sigurinn skilinn.
Í fótbolta skilur oft lítið á milli feigs og ófeigs. Í þessum leik var það breiddin sem fór með okkur. Frá síðasta leik var ekki að sjá þá Orra Arason og hafsentinn stæðilega Alberto Moreno, sem er meiddur. Inn í liðið komu þeir Gústi og Aco þjálfari, sem báðir stóðu sig vel.
Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik. Þeir sóttu, við vörðumst. Papa og Hlynur múruðu fyrir og ekki þótti Rikkaranum leiðinlegt að kasta sér í tæklingar í holdvotu grasinu. Hann eldist eins og góður landi og verður Kormáki Hvöt dýrmætur í sumar. Aco hélt flestu í skefjum í vinstri bak og Siggi hélt áfram að stoppa í götin sem við erum með í varnarlínunni.
Múrinn hélst fram að mínútu 40, þegar Víðir skoruðu mark eftir augljóst leikbrot þeirra, ekki því fyrsta eða síðasta í leiknum sem dómarinn hafði lítinn áhuga á að skoða. En ekkert væl. Sárt var þetta samt, eftir svona múrverk fram að því.
Sóknarlega var nánast ekkert að frétta. Varnarmenn Víðis eru engir smá helvítis trukkar með fullt af leikjum fyrir Njarð- og Keflavík í efri hringjum íslenskrar knattspyrnu. Ingvi fékk ekkert breik og Ismael var einangraður uppi á topp. Kristinn Bjarni og Gústi á köntunum náðu ekki að tengja við þá, þar sem Víðismenn pinnuðu bleikliða hátt uppi á velli.
Lazar gékk ekki heill til skógar á þungum velli og varð frá að hverfa í hálfleik. Goran reyndi hvað hann gat og var sennilega maður leiksins. Besta móment leiksins var þegar Uros varði víti (númer tvö sem við fengum á okkur í leiknum).
Áfram er haldið. Það sem Aðdáendasíða Kormáks vill sjá fyrir næsta leik eru nokkrir hlutir. Hér eru þeir:
- Getum við í guðanna bænum hætt að fá á okkur víti? Við vitum að sum þeirra eru ekki sanngjörn, en bara plís ekki fleiri víti.
- Gul spjöld. Stopp. Í þessum leik sýndist okkur tvö þeirra vera fyrir munnsöfnuð við dómara og það þriðja fyrir að flækjast fyrir markmanni í útsparki. Allt óþarfi. Já, aftur, dómararnir í D deild eru ekki á FIFA listanum, en hættum þessu. Við erum komnir með tvo af mikilvægari leikmönnunum í námunda við fyrsta leikbann eftir tvær umferðir.
- Mönnum hópinn og bekkinn. Við eigum fleiri sparkfæra leikmenn en 16. Við þurfum alla á dekk, sérstaklega þegar vantar tvo af fjórum í varnarlínuna vegna meiðsla. Leyfum Aco þjálfara að leggja skóna á hilluna, hann er orðinn 42 ára for crying out loud 🙂
Aðdáendasíðan er snarbrött fyrir næsta leik. Við eigum Elliða fyrir norðan og við ætlum að vinna Elliða fyrir norðan. Ekkert helvítis múður og inn með boltann. Upp með móralinn og gleymum þessari vatnaveröld á Reykjanesi. Við fáum ekki stigin úr þessu, svo það er áfram í næsta poka.
Áfram Kormákur Hvöt!!!