
Í dag féllu síðustu lauf knattspyrnuhaustsins þegar Besta deild karla rann sitt skeið. Sigurvegarar ljósir og fallistar staðfestir. Okkar deild og flestar í kring kláruðust fyrir 42 dögum, svo nú er hægt að skoða heildarmynd Íslandsmótsins, vonir væntingar og þrár.
Eins og áður hefur verið sett fram hér þá náði Kormákur Hvöt hreint stórkostlegum árangri í sumar. Lang minnsta félagið í 2. deildinni skaut klúbbum með herskara yngri flokka, móðurfélaga, styrktaraðila, baklands og aðstöðu ref fyrir rass og endaði í 4. sæti. Fyrir mót voru Húnvetningar listaðir upp sem fallbyssufóður, en í huga Aðdáendasíðunnar er það fyrst og fremst því að þakka að hver einasti leikmaður liðsins sem lék með því á erfiðu fyrsta ári í deildinni í fyrra hafi tekið skref fram á við í sumar. Sýndu sannarlega hvað í þeim býr. Höldum þessum kjarna og næsta ár er glimmer.
Samtals leika 48 lið í fjórum efstu deildum Íslandsmóts. Fyrir neðan þær koma riðlamót og utandeildir, sem eru utan mengis þessa pistils. Ef spá fyrir mót er skoðuð kemur ýmislegt í ljós.
Áhugalausir um tölfræði og teygjanleg mörk hennar hætti að lesa hér.

SPÁR & RAUNVERAN
Fjórum liðum var eðlilega spáð sigri í þessum fjórum deildum. Ekkert þeirra stóðst þær væntingar; Breiðblik, Fylkir, Grótta og Augnablik. Fylkir fær þar að auki þá þyrnikórónu að vera það lið landsins sem olli mestum vonbrigðum og hótaði á tíma að fara niður um deild en ekki upp.
Spár eru í eðli sínu partýleikur. Þeir sem spá hafa lítið fyrir framan sig annað en vetrarmót sem gefa enga mynd af því sem koma skal. Enda má sjá að liðin sem tóku mesta mínusinn í spáuppgjörum þau sem unnu eða stóðu sig vel þar. Fylkir fór í úrslit einhvers móts og Höttur/Huginn unnu annað. Svo ekki mikið meir.
Partýið hjá þeim sem fóru fram úr væntingum var hjá liðum sem byrja rólega. Fáir bjuggust við miklu frá Ægi, Kormáki Hvöt og Völsungi sem dæmi, en þessi lið voru í alls konar ævintýrum á undirbúningstímabilinu. Öll komu þau á óvart þegar raunveruleikinn kikkaði inn. Um Völsung hefur verið mikið rætt og ritað eftir að þeir áttu að lenda í 12. sæti sinnar deildar, en enduðu fimm sætum ofar. Ægir unnu 2. deild eftir að hafa verið spáð í 9. sæti, en rakjettur spámála voru Kormákur Hvöt sem áttu að verða fallbyssufóður sumarsins og var spáð LANG neðst í deildinni, en enduðu í 4. sæti. Átta sætum betur eftir marga stórgóða leikkafla sumarsins. Erum við búin að klappa okkur, þjálfara, leikmönnum og stjórn nægilega vel á bakið eftir sumarið? Svarið er nei – þetta afrek verðskuldar klapp í allan vetur.
NORÐURLAND
Knattspyrnusumarið á Norðurlandi var almennt gott. Þar tóra enn átta lið í fjórum efstu deildum, tvö verða í efstu deild á næsta ári, eitt í B-deild og í okkar 2. deild þrjú. Afgangurinn er í fjórðu efstu deild.

lang skæðasti sóknarmaður
Bæði Þór frá Akureyri og Magni frá Grenivík fóru upp um deildir og er það vel. Samband Þórs og Kormáks Hvatar hefur verið með eindæmum gott síðustu ár og vonumst við eftir að sjá unga Eyfirðinga horfa yfir heiðar (fengum einn frá KA seinni part sumars) og sjá kostina við það að leika á besta grasvelli Norðurlands á næsta ári. Reyndar eru þeir bara þrír eftir, þar sem afgangurinn hefur kosið að leika á plasti, en hvað sem Grenvíkingar segja þá er okkar betri. Ræðum ekki um Ólafsfjarðarvöll, sem hefur ítrekað komist í fótboltafréttir fyrir að líkjast meira nýrækt en knattspyrnufleti.
Fjögur bestu knattspyrnulið Norðurlands komu öll á óvart, KA endaði sæti ofar en spáð var, Þór fjórum sætum, Völsungur fimm og Kormákur Hvöt átta sætum. Þar að auki sigraði sjötta besta lið Norðurlands, Magni frá Grenivík, sína deild og var þremur syllum ofar en spekúlantar spáðu. Önnur lið voru undir væntingum fyrir mót og enduðu neðar en þeim var spáð.
FRAMHALDIÐ
Á næsta ári leika 12 lið í 2. deildinni. Upp úr henni fóru Ægir og Grótta, sem við náðum 9 stigum af 12 mögulegum gegn. Niður í þeirra stað koma Selfoss og Fjölnir. Niður fóru Víðir og Höttur Huginn, sem við náðum 7 stigum af 12 mögulegum gegn, og í þeirra stað koma vinir okkar í Hvíta Riddaranum og Magna frá Grenivík.

valinn leikmaður ársins 2025
Í deildinni verða því sjö lið af stór-Höfuðborgarsvæðinu, eitt að austan, eitt að vestan og svo þrjú að norðan. Ef þau eru flokkuð á annan ás, þá eru þrjú svokölluð dótturfélög sem eiga sér stærra lið í sama bæjarfélagi með greiðan aðgang að yngri leikmönnum sem eru góðir en vantar leiktíma. Hvíti Riddarinn hefur Aftureldingu, Kári hefur ÍA og KFG hefur Stjörnuna. Að auki eru öll hin liðin þannig í sveit sett að vera innan atvinnusóknarsvæðis mun stærri liða og hafa sótt sér þangað liðsstyrki undanfarin ár, ef frá eru talin jaðarfélögin KFA og Víkingur Ólafsvík og svo við Húnvetningar.
Ef leikmenn liðins sumars eru teknir og flattir út á fjöl og þeir sem spiluðu 85% leikja sinna liða skoðaðir, þá má sjá að fyrir Kormák Hvöt voru aðeins fjórir sem náðu því marki. Kristinn Bjarni, Sigurður Pétur og Sigurður Bjarni eru þar, auk hins geðþekka Svía Simon í markinu. Alltaf klárir og áræðanlegir. Þrír af fjórum uppaldir heimamenn.
Ef önnur landsbyggðarlið eru skoðuð þá má sjá að Dalvík/Reynir er með níu leikmenn sem náðu 85% múrnum. Fjórir af þeim koma frá KA eða Þór, þrír erlendir leikmenn og svo tveir heimastrákar, sem er vel.
Grenvíkingar, sem koma upp úr 3. deild, léku fram heilum 10 mönnum sem náðu 85% leikjanna. Hver einn og einasti þeirra eiga sínu fyrstu skráðu leiki með KA eða Þór.
KFA eru lið samsett úr einu atvinnusóknarsvæði, en hafa teflt fram mjög mörgum góðum heimamönnum og eru að gera eitthvað rétt. Þeir eiga líka tvo góða gervigrasvelli, þar af annan með þaki yfir, sem hlýtur að vera að skila sér út á völlinn.
Víkingar frá Ólafsvík hafa sótt sér góðan liðsstyrk frá til dæmis Akranesi og erlendis frá, en átta af 11 leikmönnum sem ná upp í 85% mörkin eru þaðan.
| Lið: | Samtals fjöldi: | Uppaldir: | Atvinnusvæði: | Aðrir innlendir: | Erlendir: |
| Þróttur V | 12 | 0 | 9 | 2 | 1 |
| Víkingur Ó | 11 | 3 | 0 | 5 | 3 |
| Dalvík Reynir | 9 | 2 | 4 | 0 | 3 |
| Ægir | 9 | 1 | 5 | 0 | 3 |
| Kári | 8 | 6 | 0 | 2 | 0 |
| Höttur Huginn | 8 | 4 | 0 | 0 | 4 |
| Grótta | 7 | 2 | 4 | 0 | 1 |
| KFA | 7 | 4 | 0 | 1 | 2 |
| Víðir | 7 | 0 | 1 | 0 | 6 |
| KFG | 6 | 3 | 2 | 0 | 1 |
| Haukar | 5 | 3 | 2 | 0 | 0 |
| Kormákur Hvöt | 4 | 3 | 0 | 0 | 1 |
Áður en froðan tekur að falla, þá er rétt að benda á að þetta er ekki last, heldur raunveruleikinn í dag og vel gert hjá Vogum, Svarfdælingum, Grýtubekkingum og öðrum að tosa menn í fótbolta frá nærliggjandi stórliðum. Margur hefur látið minni vegalengd stoppa sig. Einhvern veginn verður að manna liðin og það liggur mjög beint við að þeir sem komast ekki að hjá stórum liðum leiti í jaðrana. Frá Akureyri á Dalvík eru 43,6 kílómetrar og 38,4 frá höfuðstað norðurlands yfir á Grenivík. Þetta er svipað og frá Borðeyri á Hvammstanga.

óhúnaþingdski leikmaðurinn sem kláraði mótið með okkur
Gögn eru gögn og eiga í dag of stóran hluta í umræðu um fótbolta að mati Aðdáendasíðunnar. Það sem þó er hægt að taka út úr þessu er að Kormákur Hvöt átti of fáa leikmenn sem náðu að spila 85% eða meira af leikjum liðsins, fæsta allra liða í deildinni. Of fáa erlenda leikmenn sem héldust heilir og óbannaðir í þessum hópi. Availability is the best ability er oft sagt ytra.
Engir leikmenn frá atvinnusóknarsvæði liðsins (sem innifelur engin hærra skrifuð lið en okkar) eða Íslandi yfir höfuð náðu þessum 85% þröskuldi. Ekkert lið átti þó hærra hlutfall uppaldra leikmanna í þessum 85% hópi, þrír af fjórum, sem er algerlega eitthvað til að byggja á.
Leiktímabilið 2026 hefst eftir sirka akkúrat hálft ár. En það hefst samt núna með því að byggja undir þennan frábæra árangur ársins 2025. Þar koma að borðinu bakhjarlar, stjórn, leikmenn og við aðdáendur. Sem betur fer er búið að festa Dominic Furness sem þjálfara áðan, því hann er fullkominn fyrir okkar lið. Púslin eru á borðinu og það þarf bara að byrja að raða þeim á rétta staði. Kormákur Hvöt endar árið sem fjórða besta knattspyrnulið Norðurlands og 28. besta lið Íslands. En hvað næst?
Aðdáendasíðan þakkar fyrir viðburðaríkt ár, skemmtilegt og umdeilt á köflum. Skál fyrir næsta.
