
Lokapistill sumarsins á það til að vera í lengri kantinum, svo lesendur eru hvattir til að hella sér upp á kaffi, koma sér vel fyrir og hafa tækin í hleðslu ætli þeir á annað borð að lesa hann.
Árið 2025 var 13. keppnistímabil liðsins í Íslandsmóti og náðist besti árangurinn á þeim tíma nú í ár. Enn státar liðið af því að vera eina liðið með stöðuga þáttöku á Íslandsmóti (við höfum miðað við 10 ára þátttöku) sem hefur aldrei fallið um deild. Lesist aftur: aldrei fallið. Eftir að hafa farið upp um tvær deildir á nú fjórum árum hefur mynstrið verið nokkuð hreint. Við förum upp og berjumst í bökkum árið á eftir. Næsta ár eftir það förum við aftur upp í næstu deild. Svona höfum við tekið tröppurnar og vorum ekkert merkilega langt frá því að gera það aftur í ár.
Ef horft er í spegil raunveruleikans þá telur Aðdáendasíða Kormáks liðið okkar ekki eiga nokkurt einasta erindi í Lengjudeildina, sem væri næsta uppferð. Því er fjórða sætið í ár verulega mikið fram úr nokkrum væntingum sem væri hægt að setja niður. Engan hefði einu sinni dreymt að setja töluna fjóra í lokað umslag fyrir mót sem myndi hverfa í lok þess. Árangurinn í sumar, með þetta starfsumhverfi, er einfaldlega fáránlega gott.
Baklandið
Þrennt þarf til að ná þessum árangri. Þú þarft að hafa stjórn sem setur tóninn. Leggur nótt við dag að finna peninga hjá styrktaraðilum eða sjálfum sér. Þvo ruslatunnur, finna húsnæði, finna vinnu fyrir leikmenn og jafnvel selja úr sér líffæri.
Þú þarft að hafa leikmenn sem eru til í slaginn. Heimamenn sem eru til í þetta og gefa sig alla í verkefnið og svo bæta við aðkomumönnum. Okkar aðkomumenn eru erlendir, þar sem gamla tuggan um að sparkmenn af suðurhveli Íslands hafa það ekki í sér að mæta norður. Fimmtán til tuttugu sálir er það sem þarf.
Svo þarf einhver að þjálfa. Sá þarf að vera eins og segir í ljóðinu;
Löngum var ég læknir minn,
lögfræðingur, prestur,
smiður, kóngur, kennarinn,
kerra, plógur, hestur.
Í grunninn þá þarf þjálfara sem er tilbúinn að standa einn í stafni, án aðstoðarmanna og græja allt sem þarf að græja.
Kormákur Hvöt 2025 hafði þetta allt. Heimamenn tóku allir skref upp frá í fyrra, aðkomumenn sem hafa verið með okkur áður líka og þeir nýju stóðu sína vakt. Þjálfarinn var svo himnasending ársins. Dominic Furness er án nokkurs vafa þjálfari ársins í 2. deild karla.
Kormákur Hvöt endaði í 4. sæti í 2. deild, sem gerir liðið að 28. besta liði Íslands. Fjórða besta liði Norðurlands á eftir KA, Þór og Völsungi. Miðað við spár átti liðið að vera farið niður í lok júlí eða byrjun ágúst, en um það sama leiti vorum við að slátra öllum þeim sem við mættum. Þar á meðal báðum liðunum sem fóru upp úr deildinni. Ekkert lið á Norðurlandi endaði ofar þeim væntingum sem gerðar voru til þess fyrir mót, eða átta sætum ofar en skríbentar töldu. Næst mest á óvart komu Völsungar (5 sæti) og Þór (4 sæti).
Reyndar var þetta talsvert jákvætt knattspyrnusumar nyrðra. Þór fóru upp úr sinni og Magni líka. KA eru að stefna að þriðja forsetabikarnum í röð í neðri helming efstu deildar þegar þetta er skrifað. Reyndar er það svo að bara þrjú lið af þessum átta sem eru eftir á Norðurlandi ollu vonbrigðum og enduðu neðar en spár gerðu ráð fyrir; Fjallbyggðungar, Skagfirðingar og Svarfdælingar. Gangi þeim öllum betur á næsta ári og vonum við að þeir nái vopnum sínum og standist væntingar.
Tímabilið
Tímabilið okkar byrjar á Mjólkurbikarnum. Á undan honum er leikið í Lengjubikar, en það mót er fátt meira en upphafið Kjarnafæðismót þar sem verið er að dusta af sér köngulóarvefi vetrarins og koma sér í form. Eftirminnilegur er þó leikur í því móti í ár þar sem fjórir aðkomumenn höfðu lent á landinu nóttina fyrir leik og var hent beint inná. Einn var svo vansvefta að hann sólaði hvern á fætur öðrum í sínum eigin teig og gaf stoðsendingu á mótherjann. Fall er fararheill.
Mjólkurbikarinn hófst á leik gegn liði frá Norðurlandi eins og vanalega. Hægt er að óska eftir því við KSÍ að fá að spila syðra, en það var ekki gert nú, svo mótastjóri þurfti að handvelja mótherjann úr Norðurlands-skálinni. Þetta er svo furðulegt fyrirkomulag að hólfaskipta bikarkeppninni svona og láta liðin spila aftur og aftur og aftur við sömu liðin. Og af hverju mega bestu liðin ekki koma inn fyrr en í 3. umferð? Eru þau eitthvað sérstaklega upptekin um þetta ársbil eða eru þeir með svo svakalega litla leikmannahópa að því verður ekki komið við?
Hvað um það, Magni var það í þetta sinn og komust þeir áfram eftir að hafa blekkt dómarann á mínútu 89 og svindlað sér víti til jöfnunar. Í framlengingu voru bleikliðar sprungnir og Magni áfram. Aðdáendasíðan kann að meta Magna og þolir að tapa á móti þeim. Við náðum líka hefndum síðar það sumarið.
Íslandsmótið byrjaði á svo miklu kjaftshöggi að þeir svæsnustu hugsuðu hvort draga ætti bara liðið úr mótinu. KFA komnir yfir eftir fimm mínútur og þó að íhlaupamaðurinn síungi Akil DeFreitas hefði jafnað skömmu síðar þá fengum við sjö slummur í fésið á móti og leikurinn endaði 8-1. Ekki hjálpaði að maðurinn sem átti að leiða framlínuna í sumar fékk rautt spjald fyrir óásættanlegt brot í fyrri hálfleik, en nokkrum vikum áður hafði hann fengið rautt í Lengjubikar í leik sem endaði með sama skori. Talandi um merki um það sem koma skyldi hjá honum. Lykilmenn gáfust upp í þessum leik og brekka framundan.
Brekkuspretturinn kom strax í næsta leik, þegar Grótta kom í heimsókn á Blönduós. Leikurinn sá var fyrsti leikur á náttúrugrasi á norðan við mitt Ísland á árinu, endar eru feyknafá lið eftir sem spila enn á slíku. Aðeins þrjú af átta liðum á Norðurlandi leika enn á slíku. Stórliði Gróttu var spáð upp úr deildinni fyrir mót, svo hér voru það deildarinnar versta og besta að mætast. Þennan leik unnum við 2-0 og margir ráku upp stór augu. Sigurinn aldrei spurning og Seltirningar önugir í leik og eftir, enda áttu þeir kannski von á að heimsókn á Blönduós yrði ekki mikið meira en pylsustopp. Samt náðum við að fá tvö rauð spjöld – annað rétt og hitt fékk Goran fyrir að hvæsa á dómarann. Mótiv sumarsins sannarlega.
Þorlákshöfn hefur sjaldan gefið okkur mikið innan vallar og ekki varð breyting á því þetta árið. Kristinn Bjarni skoraði í leik þar sem aðal umræðuefni aðdáenda var ný sláttuvél heimamanna, alsjálfvirkur róboti sem klippti grasið svo snöggt að það minnti meira á tennisvöll en knattspyrnu.
Káramenn voru teknir á sínu reglubundna ipponi í Húnaþingi, þar sem Goran sýndi sín sex skilningarvit og nappaði boltanum af framliggjandi markmanni þeirra og skoraði vel utan teigs í 1-0 sigri, áður en hann endurtók sigurmarkleikinn í Ólafsvík helgina eftir. Kormákur Hvöt allt í einu í 4. sæti deildarinnar og kannski ekki jafn miklar grásleppur og menn vildu af láta? Reyndar eru þessar dómdagsspár rannsóknarefni út af fyrir sig.
Ein skilgreining á heimsku er að endurtaka mistök endurtekið og ætla aðrar niðurstöður, en það má segja up spámál íslenskra fjölmiðla. Setjum þetta fram hér á prenti: Kormákur Hvöt í Lengjubikarnum er ekki það sama og Kormákur Hvöt í Íslandsmóti. Prentið þetta út fyrir vorið 2026 fjölmiðlamenn.
Dreymna aðdáendur sjáu Dalvíkingar um að kippa niður á jörðina með 0-1 sigri á Blönduósi, sem hlutlausum þótti heldur ósanngjarn. Dæmum ekki um það, þar sem leikurinn fór fram í miðri viku og fréttaritarar vant við látnir. Misstum samt ekki af mörgum í sumar. Haukar tóku sín þrjú Ásvallastig af okkur í leiknum á eftir, en kúrsinn var aftur jafnaður heima gegn Víði í leiknum á eftir og liðið ekki fengið rautt spjald fjóra leiki í röð! Vorum við að sjá vatnaskil í hópnum og að menn væru farnir að hlusta á vísidómsorð Dominic Furness?
Næsta stopp Vogavöllur þar sem appelsínugulir heimamenn lánuðu okkur sokkana sína af því að okkar voru eins og þeirra. Fleira lánuðu þeir okkur ekki, en skoruðu þess í stað ólöglegt sigurmark í uppbótartíma. Brotið var á Khalok, langskot liðaðist inn og sá brotlegi beit höfuðið af skömminni með því að plassera sig í andlit Khaloks og öskra á hann. Til að mynda sér rými ýtti hann manninum frá sér, en sá svaraði með því að kasta sér í annars fallegan grasvöllinn og halda um andlit sér. Dómarinn, sem sneri baki í málið brást við með því að gefa okkar manni rautt eftir ráðgjöf frá línuverði sem stóð 50 metrum frá. KSÍ hækkaði rána í tveggja leikja bann þrátt fyrir að fá sendar myndbandsupptökur af málinu.
Kormákur Hvöt voru komnir til baka og andstæðingum rétt uppskrift að því hvernig væri best að sigra liðið. Ögra, leika, endurtaka.
Fyrir næsta deildarleik rúlluðum við á Grenivík til að spila í fyrsta sinn í fotbolti.net bikarnum. Magna unnum við á velli þar sem við eigum góðar minningar eftir uppfararsumarið 2013, en völlurinn þá var eins og Wembley miðað við völlinn nú sem minnti frekar á heimreið á eyðibýli. Sigurður Pétur skoraði mark sumarsins í sigri, þegar hann negldi honum í bláhornið fræga af mjög löngu færi.
Næsta stopp var frystikistan í Garðabæ, þar sem KFG unnu 2-1. Alltaf jafn leiðinlegt að spila þarna og þá sérstaklega vegna áhorfendanna þar, sem er þeir lang fúlustu í deildinni. Neðsti punktur ársins var svo næsti leikur á eftir, þegar fallkandídatar Hattar & Hugins komu í síðasta leik fyrri umferðar á Blönduós og unnu 0-3. Þarna var orðið ljóst eftir þrjá tapleiki að eitthvað þyrfti að hrista upp í hakkinu. Leikmönnum var boðinn starfslokasamningur sem þeir þáðu og aðrir fengnir í staðinn. Reyndist það hið mesta happagjörð og leit liðið varla til baka eftir þetta.
Bestu menn um þessar mundir voru Sigurður Pétur Stefánsson sem spilaði eins og engill. Hljóp hálfmaraþon í hverjum leik og virtist klár í annað eins í leikslok. Khalok var að spila gríðarlega vel í nýrri stöðu, en hann var fenginn inn sem vinstri bakvörður eftir hafa spilað kantinn hingað til. Domi kom Aðdáendasíðunni á óvart, enda spilaði hann í E-deild árið á undan en leiklestur hans er framúrskarandi og fáir sem unnu af honum skallabolta þetta árið. Sannarlega velkominn aftur heim. Það var einnig lýðnum ljóst að Goran kom til leiks í fantaformi og var að spila gríðarlega vel.
Eftir þrjá tapleiki í röð var kannski ekkert það skársta í boði að fara á Seltjarnarnes. En hey, við unnum þá heima og því ekki úti líka? Sem var nákvæmlega það sem við gerðum í fyrsta leik eftir mannabreytingar. Jaheem Burke, sem var á leiðinni heim í flugvél, átti sinn langbesta leik um sumarið og kvaddi með marki. Siggi Pétur var STÓRKOSTLEGUR í þessum leik og leit út fyrir að eiga heima tveimur deildum ofar. Þessi leikur sló tóninn fyrir það sem koma skyldi, þegar við unnum fimm leiki í röð.
Næst var það Árbær í .net bikarnum þar sem Kristinn Bjarni skoraði sigurmarkið í uppbótartíma úr víti eftir að uppáhalds dómari félagsins hafði vissulega dæmt víti þegar markmaður Árbæjar hafði kýlt Sigurð Bjarna í fésið innan vítateigs, en ákvað að það væri ekki rauðs spjalds virði. Alveg hreint magnaðir tilburðir það. Eftir þennan leik urðu þónokkrir eftirmálar, þar sem varamannaskýli Kormáks Hvatar var grýtt af æstum múg heimamanna, dómaragreyið fékk ekki svítu fyrir leik og prentarinn var bleklaus svo ekki var hægt að prenta út leikskýrslu eins og árið væri 1993. Stormar í vatnsglösum einkenna oft íslenskan fótbolta og þarna var svo sannarlega um einn slíkan að ræða.
Svo gaman var að vera ekki á ranga endi refsivandar KSÍ að Kormákur Hvöt hélt upp á það með 5-1 rassskellingu á KFA í næstu umferð. Hefnd frá í upphafsleik tímabilsins næstum náð, en þarna voru Austfirðingar að ákveða sig hvort þeir ætluðu að vera með í toppslagnum en fengu tennurnar slegnar úr sér á fallegum degi við Húnaflóa. Frábær leikur sem var valinn sá besti í sumar á lokahófi Kormáks Hvatar.
Efsta lið deildarinnar, Ægir, voru næstir. Þeir höfðu verið á eldi og skorað mikið í leikjunum á undan, en voru ósáttir við sveitamennskuna á Hvammstanga. Stundum vinnast leikir áður en þeir byrja og það var þarna. Liðsstjórum fannst búningsaðstaðan of eitthvað. Þjálfarinn vildi frekar spila í Austursýslunni og varamönnum fannst of bjart. Fyrir leik var blásið í hið árlega FanZone sem heppnaðist stórkostlega og leikmenn svöruðu á vellinum. Undir dynjandi stuðningi áhorfenda landaðist með sigurmarki Kristins Bjarna Andrasonar á þeirri 84. sjö m
Í Akraneshöllinni eigum við langa sögu. Bæði var þetta lengi okkar “heimavöllur” í Lengjubikar, þar sem engin eru mannvirkin í Húnaþingum, og svo höfum við att hörðu kappi við Káramenn í þessu húsi. Kappið var ekkert sérstaklega hart þennan daginn, en sigurinn vannst 3-2 þar sem Goran og Khalok léku sér að heimamönnum sem skoruðu sárabótarmark í uppbótartíma. Þarna voru komnir nýjir menn inn, Fede Russo í hafsentinn og Bocar Djumo í sóknarstöðu. Sérstaklega voru aðdáendur fljótir að taka ástfóstri við Fede, sem heillaði alla með framgangi sínum, viðhorfi og góðum frammistöðum á vellinum.
Ýmir voru teknir létt í .net bikarnum áður en skellur kom gegn Víkingi frá Ólafsvík 0-2 heima, en næst fengu Dalvíkingar Arsenal-á-tíunda-áratugnum meðferð þegar Bocar Djumo skoraði snemma leiks í Svarfaðardal og svo var læst og þremur stigum í Húnaþing landað. Þarna voru 17 umferðir af 22 búnar og Kormákur Hvöt var bara þremur stigum frá uppferð. Var þetta í alvörunni að fara að gerast? KormHvöt í Pepsídeild var sungið á pöllunum þegar við vorum í 4. deildinni um árið. Vorum við að fara að taka skref í þá átt?
Svarið var nei, eftir að Haukar nöppuðu stigi á okkar heimavelli við tókum stig úti á móti Víði. Kannski sem betur fer. Þróttur unnu okkur á Blönduósi 0-2 í afar flötum leik áður en við hefndum fyrir tap í Garðabæ með 3-1 sigri á KFG á Blönduósi. Kristinn Bjarni var þarna orðinn alfa og omega í sóknarleiknum. Skoraði tvö og svo bætti hann við þremur í viðbót í síðasta leik tímabilsins gegn föllnum Hattar & Huginsmönnum eystra.
Liðið svo sannarlega á flugi fyrir leik tímabilsins; undanúrslit fotbolti.net bikarins gegn Tindastóli á Sauðárkróki.
Þess leiks verður sennilega einna helst minnst fyrir óknattspyrnutengt havarí. Tindastóll skoraði úr þremur föstum leikatriðum, Kormákur Hvöt klúðraði nokkrum opnum færum, en klúðruðu þó mest fyrir sjálfum sér með því að láta mómentið fara með sig. Einn fékk rautt fyrir meint olnbogaflug, annar fyrir ryskingar og sá þriðji fyrir djöfulgang í leikslok. Þá var Dominic Furness vísað af velli þegar línuvörður óskaði við dómara eftir því að annar færi sína leið, en dómarinn kaus að leiða það hjá sér og senda hinn dagfarsprúða Breta í sturtu. Eftir tapleikinn gegn nágrönnunum fóru fréttaritarar Aðdáendasíðu Kormáks með himinskautum af pirringi og stuðuðu réttlætisriddara lyklaborðins um allt land. En úrslitin breyttust ekki við það og þar með lauk keppnistímabilinu 2025.
Eftirspil
Þegar tímabilið í heild sinni er skoðað mega allir sem að liðinu standa rifna úr stolti. Árangurinn var ekkert minna en stórkostlegur. Spekingar gáfu okkur núll möguleika á nokkru, en við tókum okkar eigin lukku. Óþægilegir fyrir alla og sjaldnast örvinglaðir á velli.
Leikmaður ársins var valinn Goran Potkozarac, sem skoraði sjö mörk og gaf félögum sínum 12 stoðsendingar. Frábært tímabil hjá serbneska seiðkarlinu. Besti ungi leikmaðurinn var valinn Kristinn Bjarni Andrason sem skoraði 13 mörk og sýndi að hann er tilbúinn að taka við keflinu sem sóknarmaður númer eitt. Sigurður Bjarni Aadnegard lék sinn 200. leik fyrir liðið á tímabilinu, sem er stórt afrek þar sem Kormákur Hvöt er lið sem spilaði sirka 12 leiki á leiktíð fyrir ekkert svo mörgum árum síðan.
Takk fyrir árið 2025 – það var með þeim eftirminnilegri!