Blóðgjafar er þörf

Akkúrat núna er leiktímabilið 2025 hálfnað. Við höfum fengið að sjá allskonar í sumar, frá liði sem er til alls líklegt í báðar áttir.

Við getum spilað eins og englar, en en líka eins og vængstýfðar álkur. Engin höfum við gert jafntefli, en sigrað fjórum sinnum í 11 leikjum. Það leiðir af sér að sjö leikjum höfum við tapað.

Sigrarnir hafa komið á móti Gróttu, Kára, Víkingi Ó og Víði. Þrjú af þessum liðum áttu að vera að berjast við að fara upp, svo kannski eru þetta óvæntir sigrar. Töpin hafa komið á móti rest. Sum sannfærandi, önnur alls ekki sanngjörn.

Fyrsti leikur tímabilsins var á móti KFA á Reyðarfirði. Honum viljum við gleyma, enda versta tap liðsins í mörg ár. Ægir úti var jafn andlaust og grasið þar var þurrt. Þróttur Vogum úti ósanngjarnt og í boði getulauss dómara, KFG úti leikur sem átti alltaf að vinnast. Svona má áfram telja.

En hvað nú? Við erum 11 leiki eftir og erum á nákvæmlega sama stað og í fyrra, með nákvæmlega jafn mörg stig. Sama vandamál við markaskorun er í gangi, en ef magalendingin fyrir Austan í maí er tekið útfyrir þá erum við með nánast sama markamun.

Við höllum okkur að sagnfræðinni. Hún segir okkur að síðustu fimm leiktíðir hefur ekkert lið hefur fallið eftir að hafa verið komin í þetta mörg stig á þessum tímapunkti í þessari deild. Síðustu fjögur ár hefur okkar lið setið í fallsæti samtals í þrjár umferðir og ekki þreytumst við á að benda á að við höfum aldrei í sögu félagsins fallið. Ekkert annað lið á Íslandi getur státað af því.

En af hverju eru fréttaritarar því svona stúrnir?

Jú sennilega er það af því að við erum með mikið betra lið en að við ættum að vera að tala um fallbaráttuna.

Við erum með frábæran þjálfara sem heldur uppi aga og vill spila skemmtilegan fótbolta. Liðið hefur sýnt okkur ofan í konfektkassann nokkrum sinnum, svo við viljum meira. Við erum með góða vörn, sem státar af einna flestum hreinum lökum í deildinni. Einstaklingshæfileikarnir á miðjunni eru gríðarlegir og hraðari kantmenn höfum við ekki séð.

En það eru blessuð mörkin sem telja. Af þeim hefur botnlið Víðis bara skorað minna. Við höfum skorað 11 mörk í 11 leikjum. Okkur vantar sárlega hreinan framherja, leikmann nr. 9 sem helst stendur á marklínu andstæðinganna heilu og hálfu leikina og mokar tuðrunni í netið annað slagið. Tveir markahæstu leikmenn deildarinnar eru sú týpa. Okkur vantar hana.

Leikmenn sem hafa skarað fram úr í okkar liði í sumar eru nokkrir. Goran hefur verið frábær, Acai spilar betur með hverri leikíð og Sigurður Pétur er búinn að vera frábær. Fullmannaðir erum við geggjaðir, en við erum eiginlega fullmannaðir.

Það er ekki góðs merki að fréttaritarar þurfi að signa sig eftir leiki og þakka æðri máttarvöldum ef við kláruðum leiki með 11 menn á velli. Rauð spjöld og leikbönn hafa verið ljóður á okkar ráði í sumar. Það er nánast alltaf einhver í banni og svo núna er að bætast við meiðslafaraldur.

Við ritarar erum þó brattir. Ef Ismael er að ná sér af meiðslum þá gæti það orðið viðbótin sem okkur vantaði. Einhver sem Matheus getur tekið sína eitruðu gegnumsendingar á og kantmennirnir spilað upp á. Bæjarhátíðir banka upp á og einhverstaðar þykjumst við hafa séð að Kormákur Hvöt hafi ekki tapað á Eldi í Húnaþingi í sjö ár!

Það eru aðeins þrjú stig upp í efri hluta deildarinnar og þar teljum við okkur eiga heima. Hvergi annarstaðar. Burt með barlóm og blús, inná með gleðina og þau gæði sem búa í þessu liði!

Blóðgjöfin sem liðið þarf kemur frá því sjálfu. Sýnið ykkar réttu andlit og Kormákur Hvöt verður í fínum málum.

Leave a Reply