En áfram skröltir hann þó

Til þess að bíll gangi nokkuð snuðrulaust þurfa lykilhlutar hans að vera í lagi. Ef kertin eru blaut, þá kviknar illa í bensíni. Ef möfflerinn er götóttur, þá er hætta á að aflið skili sér ekki að fullu. Ef tímareimin slitnar, þá fer allt í skrúfuna.

Það er sama með fótboltalið. Ef leikmaður dettur út, þá þarf nýr að koma inn eða annar að færa sig. Slíkt getur komið miklu róti á leikskipulag og verið almennt til vansa. Best væri ef meiðsli og leikbönn væru ekki til, en það er náttúrulega óskhyggja.

Bifreiðin Kormákur Hvöt var hikstandi fyrir leikinn gegn KFG í dag. Í vinstri bakverði var hinn bannfærði Khalok hvergi sjáanlegur. Silkihúfurnar í KSÍ mátu það sem svo að hann væri hættulegur knattspyrnusamfélaginu úr sínum fílabeinsturni. Goran var einnig á hliðarlínunni, hafandi fengið enn eitt gula spjaldið í sumar um daginn. Eins vel og hann er búinn að spila í sumar, þar sem hann hefur verið framúrskarandi, þá eru spjöldin einn helsti ljóður á hans ráði.

Meiðsli eru talsverð. Í dag var Sergio á hliðarlínunni vegna slíkra, þar sem fyrir lágu þeir Helistano miðjumaður og framherjinn Ismael. Sá síðarnefndi hefur reyndar bara spilað um klukkutíma af fótbolta á þessu Íslandsmóti, svo fréttaritarar eru næstum búnir að gleyma að hann er leikmaður Kormáks Hvatar. Þannig vantaði fimm byrjunarliðsmenn í liðið í dag, máttarstólpa í vörn, miðju og sókn.

Að leiknum. KFG sátu rétt fyrir neðan okkur í stigatöflunni, en hafa undanfarið verið á upprisu. Hún hélt úrslitalega áfram í dag, en ekki var það sanngjarnt. Tvö mörk skoruðu þeir, eitt skoruðum við. Þeir voru betri í fyrri hálfleik, en við í seinni. Sérstaklega síðustu 20 mínúturnar, þar sem við áttum leikinn, en náðum ekki að skora. Dauðafæri fengum við þrjú til að gera það, en inn fór hann ekki.

Það sem situr eftir að leik loknum er sjúkralistinn. Til viðbótar við þessa þrjá sem þegar hafa komið fram bættust máttarstólpar á börurnar. Acai fór meiddur á kálfa, Matheus á sama stað og Domi virtist vera farinn í nára. Til viðbótar þurfti þjálfarinn Dominic, sem neiddist til að spila þennan leik vegna eklu, að fara meiddur útaf. Miðað við gönguhraða þessara leikmanna í leikslok, þá hefðu þeir tapað kapphlaupinu við bæði hérann og skjaldbökuna og ansi ólíklegt að sjá þá í bleiku í næsta leik. Þá fer fram síðasti leikur fyrri umferðar Íslandsmótsins þegar Höttur/Huginn koma í heimsókn á Blönduós. Lykilleikur þar á ferð.

Þeir sem komu inn í dag stóðu sig helvíti vel. Betra er að hafa heilan mann en hálfan. Siggi Aadnegard átti frábæran leik í miðverði, Haukur Ingi stóð sig vel í vinstri bak, Ingvi kom inn með alla sína reynslu og Hlib Horan skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið. Með þessum herramönnum kom meiri kraftur en hjá löskuðum byrjunarliðsmönnum.

Bifreiðin Kormákur Hvöt gengur á þremur sílindrum þessa dagana. Pústið er teipað og rúðuþurrkurnar virka ekki. Bensínljósið kviknað. Sex menn meiddir og einn í banni í næsta leik. Þá þarf bara að hætta að hugsa um það og gefa allt í botn. Þó að það sé brekka, þá þarf bara að nota tilhlaupið og dúndra á þetta.

Aðdáendasíðan hvetur Húnvetninga til að umvefja leikmenn liðsins hlýju, gefa þeim lýsi og gera að sárum þeirra í vikunni sem er að hefjast. Nú þarf að sýna karakter og ná fram úrslitum með öllum klækjum og kostum. Héraðsbúar skulu lúta í gras!

Leave a Reply