Á bleikum náttkjólum

Í dag fóru Húnvetningar í reisu til Reykjavíkur og gott betur, því gáð var í Garðabæ. Þar biðu okkar heimamenn í KFG. Í fyrri leik liðanna unnum við sanngjarnan seiglusigur fyrir norðan, þar sem Acai fyrirliði mannhöndlaði varnarmann þeirra yfir línuna og 1-0 varð.

Í dag var öldin önnur. Lið Kormáks Hvatar mætti örlítið laskað til leik. Goran meiddur og Acai einnig. Úr byrjunarliðinu frá í síðasta leik vantaði einnig hálf-laskaðan Jón Gísla sem sat á bekknum og Viktor Inga. Það voru því fjórar breytingar á byrjunarliðinu og hreyfingar á mönnum í flestum stöðum.

Alejandro var á sínum stað í markinu, en í hægri bak var kominn Siggi Aadnegard. Papa færði sig í miðvörð með Sergio og Mateo á sínum stað í vinstri bak.

Á miðjunni kom Ingvi inn og á hægri kantinn fór Anton Mikaelsson. Siggi Pétur og Emy einnig á miðju og Artur á vinstri kanti. Ismael frammi að vanda.

Margar breytingar og margt í mörgu. Fyrri hálfleikur bar þess merki að menn voru ekki kannski á sínum vanalegu stöðum. Enn breyttist það þegar Papa varð frá að víkja vegna meiðsla og Siggi Aadnegard tók hafsentinn. Er einhver staða í liðinu sem hann hefur ekki spilað? Inn kom hinn alltaf áræðanlegi Gústi í hægri bak.

Stutt saga fyrri hálfleiksins gæti heitið eitthvað eins og „Geispað í Garðabæ“ eða „Moðsuða á miðjum degi“. Þá sögu nennum við varla að skrifa. Okkar lið sat og varðist, þeirra lið sýndi einhverja heimspekilega fótboltatakta sem snérust um að lúðra boltanum frá hægri til vinstri og fram og til baka, en fara aldrei inn í teig. Hundleiðinlegur fyrri hálfleikur, þar sem Kormákur Hvöt náði ekki upp neinu sem getur talist spil. Allar sendingar voru of stuttar, of langt á stjórn- eða bakborða. Engu líkara en að okkar menn væru komnir í náttkjólana og hygðu á náðagang. Á bleikum náttkjólum, þó að í dag hefði verið spilað í svörtu.

Ekki voru það hressir áhangendur sem gengu til hálfleiks. Ekki er hægt að segja að þeir hafi fengið sé te, þar sem akkúrat ekkert var í boði og luktar dyr í veitingasölunni. Og engir boltasækjar. Skömm.

Í byrjun seinni hálfleiks skoruðu KFG menn upp úr innkasti, þar sem argir Húnvetningar voru ósammála túlkun dómarans um hugsanlegt brot rétt á undan. Veltum okkur ekki upp úr því. Skotið var utan teigs og hinn stutti, en fimi markmaður okkar náði ekki til boltans. Kannski ef hann væri með hendur eins og Ingi Bjarna þá hefði hann náð þessu, en þær er hann ekki með.

Fréttaritarar Aðdáendasíðunnar voru þarna heldur stúrnir, enda ekkert sem benti til þess að nokkuð myndi falla til Húnaflóa úr þessu. Það reyndist heldur betur ekki raunin.

Við þetta mark var eins og Kormákur Hvöt vaknaði. Mateo reyndar ekki, enda fór hann meiddur af velli og Anton Tryggvason kom hans í stað. Átti góðan leik, þrátt fyrir eineltistilburði dómarans varðandi ógild innköst. Lífsins elexír rann um æðar fyrrum daufs aðkomuliðs. Artur Balicki fór þar fremstur í flokki, þar sem hann vann boltann trekk í trekk og skilaði honum vel af sér. Var krúsíal í sóknaruppbyggingu liðsins. Ingi Rafn var eins og maður andsetinn í baráttunni og vann þær flestar, Emy Nikpalj kom sterkari inn og Siggi Pétur hélt áfram að stýra miðjunni. Siggi Aadnegard skrúfaði upp orkuna með góðum talanda, tæklingum og tærum hreinsunum. Reif líka aðeins kjaft við andstæðinginn og komst í hausinn á þeim á hárréttum tíma.

Eftir tæpan klukkutíma kom svo jöfnunarmarkið, þegar frábær aukaspyrna frá Emy sveif inn á teiginn og þar var hinn silkimjúki skallamaður Artur Balicki réttur maður á réttum stað, stýrði knettinum ljúflega í marknetið og staðan 1-1. Markið má sjá hér.

Leikurinn var okkar. Áfram nú. Kormákur Hvöt voru mikið kraftmeiri en KFG, en áfram spiluðu þeir Silfurskeiðungar lipra bolta. Ekkert varð þó úr því spili, þar sem ný varnarlína okkar tók á móti öllu sem barst og Alejandr oí markinu sá um rest. Helst var það að miður orðprúðir áhangendur heimamanna, íklæddir golffötum og sveiptir silkislæðum, gæfu leiknum lit. Orðaflumurinn var slíkur að húsmæður í nágrenninu drógu börn sinn inn og gluggatjöldin fyrir. Þeir eru sjálfsagt ekki vanir því í Garðabænum að fá ekki allt sem þeir vilja.

Færi seinni hálfleiks voru tvö og hálft til að tala um. Gott ef öll þeirra komu ekki eftir frábærar aukaspyrnur Emy Nikpalj. Í tveimur þeirra átti Ismael að gera mikið betur og bara skora, svo við tölum hér hreina íslensku. Sérlega var seinna skallafæri hans sárt, en þegar það poppaði upp voru komnar 94 mínútur á klukkuna og flaut dómarans gall beint á eftir. Hið þriðja sem hér verður talið er það bara þar sem Ingvi Rafn átti svo innilega skilið að setjann, en bakfallsspyrna hans fór vel yfir.

Þegar þessi leikur er soðinn niður og settur á dósir má segja að fyrir leik hefðum við tekið þetta stig. Liðin sem við erum að berjast við eru ekki að taka inn stig og hér tökum við eitt slíkt. Nú er munurinn frá okkur niður í fallsæti orðinn sjö stig þegar þetta er ritað. Á miðvikudaginn næsta er stórleikur þar sem Ægir kemur í heimsókn á Blönduós. Sigur þar, og við erum næsta hólpnir. Ekki sigur og þá ekki. Liðið er meiðslum hrjáð þessa dagana, en í dag komu góðir menn inn og gerðu mjög vel. Gústi Friðjóns í hægri bak, Anton Tryggva í vinstri bak og Haukur Ingi sem kom inn í lokabardagann og stóð sig mjög vel. Gott er að búa að breiðum hópi manna sem gefa sig alla í verkefnið nú á lokasprettinum.

Áfram gakk!

Leave a Reply