Í Fellabæ var búið að lofa brakandi, en ekki stóðst það alveg. Í upphafi leiks gnauðaði á móti okkur svo ekki var margt um sóknartilburði frá gestunum. Ekki vorum við heldur að gera merkilega hluti til að brjóta þá keðju, sendingar ómarkvissar og uppspil heldur hægt.
Eftir um 10 mínútna leik fóru Héraðsbúar að herða þumlaskrúfurnar og léku sér í gegn, en Uros mátti við margnum í tvígang. Þarna var okkar besti maður Sergino í vörninni, sem var eins og brimbrjótur alls sem á hann sigldi. Áfram voru Hattar/Huginsmenn með yfirhöndina og skoruðu eftir að enn misstum við boltann á viðkvæmum stað og létt var leikið í gegnum okkar vörn. Full létt að mati síðuhaldara, en þarna myndaðist gjá milli þings og þjóðar vinstra megin í vörninni.
1-0 fyrir gestgjafana og þeir mun betri. Bleikir allt of langt frá sínum mönnum, þungar lappir og allt hálf andlaust.
Aðeins fórum við að færa okkur upp á skaftið, en því fylgir stundum að losnar um aftarlega. Eftir tæplega 40 mínútna leik, þegar við vorum nýbúnir að fá okkar fyrstu aukaspyrnu í leiknum, sendu þeir einfaldan og fallegan bolta inn fyrir vörnina hægra megin, en til allrar hamingju small tuðran í stönginni. Svo fékk Goran gult.
En loks fór að komast litur á sóknartilburði bleikra. Hættuleg sókn endaði með klafsi sem Austanmenn komu frá, en Mateo gerði vel í að halda boltanum á lífi, kom honum út á kant til Kristins Bjarna sem setti hann á Papa sem stóð auður á markteignum og gerði engin mistök með kollspyrnu og þar með orðinn markahæstur leikmanna Kormáks Hvatar með tvö mörk þetta sumarið. Allt jafnt og skammt til hálfleiks. Verulega gott, þar sem bara virtist bæta í vindinn.
Rétt undir lok fyrri hálfleiks stungu HattarHuginsmenn boltanum í gegn og fátt annað hefði átt að dæmast þar en rangstaða. Það ar hinsvegar eki svo, en ekkert þurfti að óttast þar sem Uros át sóknarmanninn eins og kúffullan disk af Sarma, sem er þjóðarréttur Serbíu. Síðasta sókn leiksins var svo okkar, þegar horn kom upp úr góðum fintum Gorans, Sergio var gersamlega rifinn niður í teignum, en afgangurinn af engri dómgæslu barst til Arturs sem hitti boltann ekki almennilega á markteignum og hann rúllaði í hendur markmannins. Boltinn, það er að segja, en ekki Artur. Það er spá Aðdáendasíðunnar að þegar tómatsósuáhrifin góðkunnu í markaskorun munu renna af Artur, þá muni hann raða inn mörkum. Honum hafa þó verið verulega krosslagðir fætur fyrir framan mark andstæðinganna það sem af er knattspyrnusumri.
Seinni hálfleikurinn fór af stað svipað og sá fyrri endaði, þar sem okkar menn voru ívið líflegri. Goran átti góðan bolta á Jón Gísla, sem brunaði inn í teig og setti ljúfan bolta á Atla á markteignum. Hugsanlega var sá bolti um tommu of aftarlega því ekki náðist skot á markið. Lofaði góðu.
Fátt gerðist næstu 20 mínúturnar, þar til Mateo lenti í kröppum dansi þegar sóknarmaður Hattar Hugins féll við á leið einn innfyrir. Mateo hljóp á hann, en dómarinn mat sem svo að ekki hefði verið vilji okkar mans að klippa hinn niður. Sennilega var rétt að sýna honum aðeins gult, þó svo að bleikmenn hefðu sjálfsagt verið æfir ef þetta hefði verið hinum megin. Hans fjórða gula spjald í sumar, svo hann verður í banni í næsta leik sama hvað líður. Ánægjulegr frá því að segja að ekki höfum við enn fengið rautt á þessu tímabili, eftir að hafa hreinlega mokað þeim upp eins og snjóstikum á síðasta keppnistímabili.
Þegar um 10 mínútur lifðu leiks varð slysalegt rugl í öftustu víglínu. Sóknarmaður þeirra var allt of lauslega dekkaður og náði að vippa saklausum bolta inn á miðjan teig. Þar misreiknaði Acai eitthvað og slæsaði boltann í markið framhjá sínum eigin markmanni. Alger djöfulsins óþarfi og klaufalegra en orð fá lýst. Engin markverð hætta á ferð, en við náðum að gera þetta að henni.
Fátt markvert gerði það sem eftir lifði leiks annað en tafir og leiklist. Í uppbótartíma skotuðu þeir svo annað mark, þegar boltinn stökk af einum okkar manna og þeirra kláraði örugglega. Annan leikinn í röð fáum við minna en við teljum okkur hafa átt skilið, en knattspyrnuguðunum er skítsama um það, þó svo að við höfum ferðast á fimmta hundruð kílómetra til að ná í stig í pokann.