Hjá Aðdáendasíðu Kormáks fer árið 2023 í sögunnar rann sem eitt það ótrúlegasta í húnvetnskri íþróttasögu. Liðið okkar, Kormákur Hvöt, byrjaði árið eins og oft áður með því að ná varla í lið á sparkvelli fyrstu mánuði ársins enda aðstaðan þannig að ekki er auðvelt að lokka menn á æfingar. Þó var farin ný leið þetta árið þegar hinum senegalspánska Ismael var sjippað á Blönduós á mótum þorra og góu, enda fremstur í skotmarkaröð þjálfarans Aco og mikið lá á að klófesta. Þegar leið á vor komu fleiri erlendir leikmenn, svo hægt var að leika fjóra æfingaleiki að vori áður en bikarkeppnin fór fram á frosnum Ásvöllum. Engum af þessum fimm leikjum töpuðum við, þó svo að sá síðastnefndi hefði glatast í vítakeppni.
Íslandsmót fór sí svona af stað, sigruðum okkar fornu féndur í Í.H. á þeirra hrútleiðinlega heimavelli, sem staðsettur er inni í einhverskonar iðnaðarbili með dúk strengdum yfir steyptan grunn í úthverfi Hafnarfjarðar. Úr því þrotabúi hélt liðið á sennilega besta völl landsins í Garði, þar sem Víðismenn bundu á okkur hnút. Þarna var mikið um meiðsl, án þess að afsaka tapið, og liðið enn að spila sig saman. Utan frá var eins og einhver kurr væri í mannskapnum.
Hinn árlegi „heimaleikur“ á Sauðárkróksvelli fór fram gegn eitilhörðum Elliðamönnum í ömurðarkulda. Hann tapaðist og eftir leik sagði Aco þjálfari sig frá stjórnun liðsins.
Upp steig, og það ekki í fyrsta sinn, Ingvi Rafn Ingvarsson – markahæsti leikmaður liðsins frá upphafi og þjálfari liðsins á uppferðartímabilinu 2021. Sumir erlendu leikmanna liðsins höfðu aldrei heyrt annað eins, að leikmaður væri einnig þjálfari. En það er margt í íslenskum bolta sem tíðkast ekki í daglegu lífi Íberíu og Balkanskaganna, eins og margur hefur lært.
Áfram var gengið og þrjú stig sótt í næstu leikjum í Vestmannaeyjum, á Blönduósi og í Kórnum gegn liðum sem eftir á að hyggja voru skildusigruð (tvö þeirra féllu að hausti). Níu stig af níu mögulegum hjá nýjum þjálfara og suðrið sæla andaði vindum þýðum.
Um miðjan júní var haldið í kæliskápinn á Skipaskaga. Búið er að koma fyrir hitalömpum fyrir ofan áhorfendabekkina, svo að öllu jöfnu ætti mannskapurinn ekki að krókna. Hitinn reyndist full mikill og leiksins ekki minnst fyrir margt annað en aðferðir Alberto Sanchez í varnarleik, sem margt var skrifað og meira rætt um. Í stað þess að stela dálksentímetrum um málið kaus Kormákur Hvöt að ræða málið beint við KSÍ og Knattspyrnufélagið Kára og lendingin varð langt bann og að téður Sanchez var sendur í frí heim til Spánar.
Í leiknum settu liðsmenn okkar nýtt met í refsistigasöfnun, þar sem þrír fengu að fjúka útaf, téður Alberto, áðurnefndur Ismael fyrir tvö gul og svo séntilmennið Mateo fyrir að tala of hátt í uppbótartíma. Skondnasta spjaldið í þeim leik fékk þó markmaðurinn Uros Duric fyrir að tefja leikinn, þegar lið Kára var að framkvæma skiptingu.
Reynir frá Sandgerði komu í heimsókn og úr varð eini 0-0 leikur sumarsins. Þá var haldið í Árbæ, þar sem Benni Gunnlaugar steig upp og skoraði þrennu í góðum sigri á Árbæ – þar sem öll mörkin komu til greina sem mark umferðarinnar (ef einhver væri að velja þau). Magna var sópað til hliðar í baráttuleik á Blönduósi, en svo kom árlegi tapleikurinn í Fífunni á móti Augnablik.
Þegar þarna var komið sat lið Kormáks Hvatar í 4. sæti deildarinnar, sem var verulega fram úr nokkrum væntingum forsvarsmanna, aðdáenda og sennilega leikmanna sjálfra. Liðið var með svipað mörg stig og það endaði með allt árið á undan, enda fór það tímabil í leiðinda fallbaráttu og áföll innan vallar sem utan.
Seinni umferðinn bauð upp á áframhaldandi veislu. Víði var goldinn rauður belgur fyrir gráan úr fyrri leiknum og þeir sendir nestislausir heim. Hinn ungi heimamaður Atli Sindrason með sigurmarkið. Með sigrinum komst Kormákur Hvöt í 2. sæti deildarinnar og lét það ekki af hend út sumarið. Í.H. voru rassskelltir 5-0 í framhaldinu og KFS fóru sömu leið á Unglist.
Leikmenn Kormáks Hvatar hafa oft verið kallaðir hugarfarsskrýmsli fyrir þá eitilhörku sem liðið sýnir á ögurstund, og ein þeirra kom gegn Elliða í byrjun ágúst. Liðið spilaði illa nánast allan leikinn og Elliðar leiddu verðskuldað þegar 10 mínútur voru til leiksloka. Þá sté lið okkar upp og með tveimur mörkum á fjórum mínútum, þar sem Goran skoraði sigurmarkið.
Þarna voru aðstandendur farnir að klóra sér í hausnum. Liðið var í 2. sæti og bara þremur stigum á eftir leiðurunum í Reyni frá Sandgerði. Heil sex stig voru niður í næsta lið. Var liðið virkilega að fara upp?
Sennilega slakasti leikur sumarsins kom þá í fésið á mönnum og tosaði bleikliða aftur niður á jörðina. Hvíti Riddarinn hefur oft reynst okkur erfiður, en nú vorum við á slíku flugi að mát átti sennilega að vera formsatriði. Dramb er falli næst og þessum leik töpuðum við nokkuð sannfærandi 1-0. Gott ef allir leikmenn liðsins áttu ekki sinn slakasta leik sumarsins á meðan Hvíti Riddarinn var með einhverskonar Patrick Viera endurfæddan á miðjunni.
Hvernig myndi liðið ranka við sér eftir þetta? Jú, með stærsta sigri sumarsins, 7-0, á móti fall-kandídötum Ýmis. Svo voru Káramenn teknir í apótekið 4-2 áður en haldið var í næsta hreinan úrslitaleik gegn Reyni í Sandgerði.
Þeim leik tapaði okkar lið með miklum látum. Lazar Cordasic, sem spilað hafði eins og engillinn sem við vonuðum að hann væri allt sumarið, uxu horn og var sendur í sturtu fyrir orðbragð (hann hann reyndar sór af sér) og kom ekki meira við sögu þetta sumarið. Sama átti við um markmanninn Uros Duric, sem missti allt sem hægt er að kalla stjórn á skapi sínu eftir leikinn og gerði aðsúg mikinn að öllu sem fyrir honum varð. Skömmustulegir máttu þeir Balkanbræður fylgjast með afgangi móts af hliðarlínunni.
Þegar þarna var komið lifðu aðeins þrjár umferðar eftir af sumrinu. Reynismenn komnir með gott forskot á toppnum, við þar næstir og í hælana nörtuðu Árbæingar og Víðismenn. Næsti leikur; Árbær á heimavelli.
Liðið sem færi með sigur af hólmi væri með pálmann í höndunum, jafntefli vel ásættanlegt fyrir Kormák Hvöt. Fyrir leik glottu forsvarsmenn Árbæjar og töldu sigurinn sinn, þar sem þrír af jafnbestu leikmönnum okkar, Serbneska tríóið Uros, Lazar og Goran, voru allir í leikbanni. Hr. Kormákur Hvöt – Sigurður Bjarni Aadnegard – tók sér hanska í hönd og lék sem markmaður.
Glottin hertust á aðkomumönnum þegar þeir komust yfir og leiddu í hálfleik. Papa okkar Diounkou jafnaði en þeir skora annað jafn harðan. Aftur stigu okkar ungu heimamenn upp og sögðu stopp. Fyrst jafnar Atli Þór Sindrason metin með lítið eftir á klukkunni. En meira vildum við og móment ársins kom þegar Orri Arason skoraði gull af marki á 95. mínútu og allt keyrði um koll á vellinum, 3-2 sigur og lið Kormáks Hvatar svo sannarlega í bílstjórasætinu. Fimm stiga munur á liðunum og tvær umferðir eftir.
Eitthvað voru vínberin súr eftir leik og forsvarsmenn Árbæjar brugðu á það ráð að kæra úrslit leiksins fyrir bæði litlar og lognar sakir. Þeim hefur verið það þungt að tapa fyrir vængbrotnu liði Húnvetninga án markmanns. Kæran var enda send af KSÍ þangað sem hún átti heima, út í hafsjó. Þessu óíþróttamannslega bragði, sem átti sjálfsagt ekkert annað líf en að reyna að koma róti á leikmenn Kormáks Hvatar fyrir lokasprettinn, hafnað með öllu.
Í næst síðustu umferð mættum við Magnamönnum á útivelli í eina leik sumarsins sem Aðdáendasíðan man eftir að hitt liðið hafi verið grófara í. Magnamenn enduðu leik með 11 gul spjöld í pokanum og tveimur færri, þegar við sóttum stig af harðfylgi.
Lokaumferðin kom svo á Blönduósi þegar Augnablikar komu í heimsókn. Staðan var þá sú að hinir tapsáru Árbæingar áttu möguleika á að ná okkur, en þá þyrfti fjögurra marka sveiflu. Ef við myndum tapa með tveggja marka mun og þeir vinna með þeim sama í Sandgerði, þá myndu þeir fara upp.
Þrátt fyrir vel spilandi Augnablikslið, þá var þetta aldrei að fara að gerast. Með Sigurð Aadnegard í markinu héldum við hreinu og heimamennirnir Viktor Ingi og Kristinn Bjarni settu kirsuberið á sumarið með því að koma okkur í 2-0 á fyrsta korterinu. Leikurinn var aldrei að fara neitt annað eftir það, þrátt fyrir að dómarinn hafi slegið í flautukonsert sem var víst í skoðun að fá á Jólahúna þetta árið.
Kormákur Hvöt vann sér því verðskuldað sæti í 2. deild árið 2024, aðeins tveimur stigum frá 3. deildarmeisturum Reynis. Ismael varð markahæstur, Uros vann gullna hanskann fyrir flest hrein lök og flestir áhorfendur að meðaltali í deildinni kom á heimaleiki Kormáks Hvatar. Ekkert lið fékk á sig færri mörk, Ingvi Rafn var valinn þjálfari ársins og enginn heimaleikur á Blönduósi eða Hvammstanga tapaðist.
Fá lið í 2. og 3. deildinni tefldu fram eins mörgum heimamönnum og Kormákur Hvöt gerði í sumar. Það er sérstakt fagnaðarefni, þar sem tilgangur starfsins er að mynda vettvang fyrir þessa leikmenn. Kjarni heimamanna hefur haldist saman, þar sem gríðarleg leikreynsla er komin í hús hjá mönnum eins og Ingva, Hlyn Rikk, Sigga, Viktori, Benna og svo eigum við Gúddí alveg inni. Aco neitar að hætta að spila og Ísak Sigurjóns yngist bara með hverju árinu.
Við eigum fullt af yngri strákum sem hafa tekið risastór skref síðustu ár og sérstaklega í sumar og næsta holl bíður eftir að fá tækifæri. Okkar aðkomumenn koma og munu koma frá útlöndum, þar sem allt eins væri hægt að biðja unga menn af Höfuðborgarsvæðinu að flytjast til Lapplands yfir veturinn eins og fá þá norður í fótboltasumar. Það er af sem áður var.
Eini leikmaður liðsins sem kom við sögu í öllum leikjum sumarsins var Kristinn Bjarni Andrason (fæddur 2006), en aðrir heimaldir leikmenn fæddir á þessari öld sem komu við sögu voru Atli Þór Sindrason (2006), Orri Arason (2005), Anton Einar Mikaelsson (2006), Stefán Freyr Jónsson (2006), Sigurjón Bjarni Guðmundsson (2008), Haukur Ingi Ólafsson (2007), auk þess sem í kringum liðið voru Eyjólfur Örn Þorgilsson (2009), Egill Þór Guðnason (2008) og Þröstur Már Magnússon (2007). Við viljum sjá alla þessa stráka sterka inn á næsta ári!
Útlendingahlutaveltan heppnaðist allt-í-allt vel þetta árið. Aftarlega á velli átti Uros framúrskarandi tímabil þegar hann var ekki í leikbanni, varði svo mörg víti að við misstum töluna. Í vörninni átti Papa frábært tímabil og mikið gleðiefni að hann muni snúa aftur árið 2024. Annað gleðiefni er að Acai tók fram skóna að nýju eftir að hafa fundið neistann. Hann er gríðarlega mikilvægur fyrir þetta lið, leiðtoginn sem hann er. Mateo var spútnikleikmaður ársins, þindarlaus og eins og grenjaskytta í vinstri bak. Þá var Alberto var öflugur innan vallar.
Lazar var gæðastjórinn á miðjunni og þrátt fyrir að hlaupa kannski ekki marga menn uppi, þá veit hann nákvæmlega hvernig boltinn er í laginu og veit hvert hann á að fara. Goran sýndi enn og aftur hversu öflugur hann er, en sú vernd sem hann fær frá hakkavélum neðri deildanna er ekkert annað en grín. Innkoma Jose Mariano, sem kom óvænt sem ferðalangur um mitt sumar, var svo góð vítamínsprauta á hárrréttum tíma. Vonandi á hann leið um Húnaþing sem oftast í framtíðinni!
Frammi var Ismael öflugur og endaði markahæstur í deildinni.
Framtíðin er björt og Aðdáendasíða Kormáks þakkar fyrir sumarið. Til að næsta sumar verði jafn skemmtilegt þurfa að haldast í hendur þeir aðilar sem stýra félaginu, þeir sem leika fyrir það, áhorfendur sem mynda einn sterkasta heimavöll landsins og bakhjarlar sem gera allt þetta kleift.
Áfram knattspyrna á Norðurlandi vestra og áfram Kormákur Hvöt!