Önnur deild 2024

Nú eru kol leiktíðarinnar 2023 orðin vel grá og fæstir að hugsa um fótbolta sumarið 2024. Fyrir Kormák Hvöt eru nýjar lendur framundan, þar sem C deild á Íslandsmóti er verkefnið sem bíður.

Þar bíða ýmis lið sem hafa aldrei att kappi við sameinað lið Húnvetninga, þó að forverar þeirra hafi ef til vill keppst í gamla daga.

Selfoss, Víkingur Ólafsvík og Haukar hafa öll verið í efstu deild. Flest hin liðanna hafa verið í C-deild og ofar um nokkkra hríð. Kormákur Hvöt mun verða Davíð í baráttunni við Golíat, en við Biblíuunnendur munum hvernig slagur þeirra fór hér í denn. Dökka hross deildarinnar mun væntanlega koma úr rásblokkum nýs árs hvæsandi og hissandi.

En hvað er það sem bíður okkar? Kíkjum á.

Selfoss frá Árborg (11. sæti í Inkasso 2023) – léku síðast í Bestu deildinni árið 2012, en féllu úr B-deild í haust. Sennilega stærsti klúbburinn í deildinni með gríðarlega flotta umgjörð. Einu sinni höfum við leikið við Selfoss, í bikarnum 2017. Sá leikur fór ekki vel.

Ægir úr Þorlákshöfn (12. sæti) – lið sem við eigum marga þræði í, þar sem Aco Pandurovic lék í um áratug áður en hann kom til okkar, Marka-Minguez spilaði þarna áður en hann kom, Goran og Lazar léku einnig með þeim og Ægir stoppaði okkur í að komast upp úr 4. deildinni 2019. Tími kominn á hefnd fyrir það. Tvisvar höfum við leikið við Ægi, í bæði skiptin í téðri úrslitakeppni 2019.

K.F.A. frá Fjarðabyggð (3. sæti í 2. deild 2023)- milljónalið Austfirðinga sem missti af uppferð í Inkassó deild á markamun nú í haust, samsett úr liðum gömlu Fjarðabyggðar og Leikni frá Fáskrúðsfirði. Þeir verða örugglega enn hungraðri í árangur á næsta ári og með enn meira síldarfjármagn á bakvið sig. Aldrei höfum við leikið við K.F.A., en tókum tvo leiki við Leikni Fásk. í futsal 2015.

Þróttur frá Vogum (4. sæti) – alvöru ungmennafélag á jaðri Höfuðborgarsvæðisins. Hafa verið með gott lið í mörg ár og verður gaman að læsa hornum við. Aldrei leikið við þá.

Víkingur frá Ólafsvík (5. sæti) – léku síðast í efstu deild 2017 og eru sennilega stærsta nafnið í deildinni 2024. Með þeim spiluðu tveir fyrrum leikmenn Kormáks Hvatar í sumar, Arnór Siggeirsson og Alfreð Hjaltalín. Hlökkum til að bjóða þá velkomna í Húnaþing 2024. Lékum við þá fyrir 10 árum í futsal með mjög eftirgleymanlegum árangri.

Höttur/Huginn úr Múlaþingi (6. sæti) – sameiginlegt lið Héraðsbúa og Seyðfirðinga, sem hefur stólað vel á leikmenn frá Afram Football umboðsskrifstofunni í gegnum tíðina. Spila á fallegum grasvelli þar sem alltaf er gott veður. Höfum einu sinni leikið við þá, á Kjarnafæðismótinu 2020.

Haukar frá Hafnarfirði (7. sæti) – léku síðast í Bestu deildinni árið 2010, en hafa eftir það að mestu dvalið í Inkassó. Risaklúbbur af Völlunum sem hefur þó aldrei náð að stíga upp í fótbolta eins og þeir eru stórir í hand- og körfubolta. Eigum einn leik við þá, í deildarbikarnum í fyrra. Ekki unnum við þann leik.

KFG úr Garðabæ (8. sæti) – við þá lékum við í 3. deild í fyrra, en að henni lokinni fóru þeir upp í 2. deild sem bónuslið eftir að Kórdrengir geispuðu golunni. Lið með sterkar tengingar við úrvalsdeildarlið Stjörnunnar og þeirra yfirburðagóða 2. flokk. Fyrsta leik í sögu Kormáks Hvatar lékum við gegn forvera KFG (Skínanda) árið 2013, en sjö sinnum höfum við reynt okkur við þá og hlotið úr þeim rimmum samtals eitt stig.

Völsungur frá Húsavík (9. sæti) – afsprengi Garðars Svavarssonar sem eru einskonar West Ham Íslands í uppeldisstarfi sínu. Ótrúlegt hvað kemur endalaust af góðum ungum fótboltamönnum frá þessum þó ekki stærri bæ. Verður gaman að fá að máta sig við nágranna okkar af Norðurlandi. Engir leikir hafa farið fram gegn þeim.

K.F. úr Fjallabyggð (10. sæti) – sameiginlegt lið K.S. og Leifturs slapp við fall annað árið í röð og vilja örugglega rífa sig uppúr þeirri lágdeiðu. Hafa stólað á sterka útlendinga og með þeim í sumar lék okkar gamli félagi Akil DeFreitas. Einu sinni höfum við spilað við K.F. og það var í Kjarnafæðismótinu 2020, tapaðist.

Reynir frá Sandgerði (1. sæti í 3. deild) – þessa þekkjum við. Gerðum markalaust jafntefli við þá heima og töpuðum í epískum leik á Sandgerðisdögum.

Þetta verður geggjað. Risa lið sem bíða og spenntur hópur leikmanna sem mátar sig nú við mun stærra verkefni en áður.

Leave a Reply