Laugardaginn 16. september mættu Augnablikar á Blönduós í síðustu umferð 3. deildarinnar 2023. Fyrir leikinn var ljóst að við heimamenn myndum tryggja okkur upp með stigi, hvað svo sem gerðist annarstaðar. Augnablikar höfðu ekki að neinu að keppa, þar sem þeir sátu í sæti númer sex, en gætu með stigi færst upp í það fimmta. Þeir hafa jafnan verið okkur erfiðir og við aðeins unnið þá einu sinni í sex leikjum í sögunni fyrir þennan. Í fyrra unnu þeir báða leikina á móti okkur og einnig nú í júní. Frægastur er sennilega 17-0 sigurinn í apríl 2018, sem varð til þess að við Húnvetningar áttuðum okkur á að sennilega þyrftum við að fara að skoða erlenda leikmenn til að styrkja okkar lið. The rest is history.
Veðrið var leiðinlegt. Hvasst úr suðri og hráslagalegt. Kunnuglegar aðstæður fyrir okkur, en Augnablik sem leikur sína leiki innanhúss í Kópavogi ekki alveg eins mikir góðkunningar hreyfanlega lognsins í Húnaþingi.
Fyrir leiktíð minnir Aðdáendasíðunni að hún hafi spáð þeim upp. Þeir eru fantagóðir fótboltamenn, sem kunna að spila og eru með uppleggið á hreinu frá markmanni og framúr. Það sást oft í leiknum, hraðar og flottar færslur sem byrjar með stuttri sendingu frá markmanni á aftasta menn og svo spinna þeir sig fram á við.
Mörg slík léttleikandi ballerínulið hafa komið norður og lotið svo oft í gras að halda mætti að ekki væru takkaskór undir þeim heldur rúlluskautar. Svo var ekki með Augnablik, þar sem þeir stóðu að mestu leiti af sér harðar varnir heimamanna. Kúdos á það.
Leikurinn spilaðist sumsé þannig að Augnablik voru meira með boltann og leituðu að götum í vörn Kormáks Hvatar. Skemmst er frá því að segja að götin fundu þeir ekki.
Hlynur Rikk var kominn aftur inn í miðja vörn eftir að hafa farið í göngur og réttir, Alberto færðist yfir í vinstri bak og Mateo upp á miðju. Þetta er kokteillinn sem hefur virkað svo vel undanfarnar vikur. Eftir nokkrar mínútur kom fyrsta markið, þegar Viktor Ingi skoraði sitt árlega mark. Þvílík tímasetning á því. Boltann var hann með í uppáhaldsstöðu allra skotmanna, rétt fyrir utan teig. Lét vaða og boltinn sveif í fallegum boga undan vindinum á norðurmark Blönduósvallar. 1-0 og níu mínútur á klukkunni. Áhorfendur ærðust af gleði, enda mikið undir.
Ekki nema átta mínútum síðar var það svo Ismael með atgang í teignum, skaut og varið, en Kristinn Bjarni var vel á verði og setti boltann í netið með ís í æðum. 17 mínútur á klukku og staðan orðin æði vænleg. Nokkrum mínútum síðar vildi Hlynur Rikk koma í partýið og skeiðaði svo langt upp völlinn að hann ætti með réttu að hafa pakkað landakorti með sér. Markið í augsýn, vel þéttur vindur í bakið, en hann ákvað að feika og taka eitt Hlyns-skref í viðbót (sem eru þá sirka tveir metrar), en fyrir honum varð Augnabliki. Þeir sem þekkja til vita að enginn vill verða fyrir Hlyni þegar hann er kominn á ferðina og það á við þennan óheppna einstakling. Gult spjald réttilega á okkar mann.
Vert er að minnast á tvö mörk sem voru tekin af okkur. Eitthvað hefur Aðdáendasíðunni borist til eyrna að hlaðvarpsriddurunum sem fjalla um deildina þyki Kormákur Hvöt hafa verið með dómarana í vasanum og fengið ölmusur hér og þar. Það tengist að sjálfsögðu ekki því að við höfum farið illa með lið þeirra beggja í sumar og ýtt þeim frá. Alls ekkert. Ef hlutlaus augu hefðu verið á vellinum þá hefðu þau borið vitni um að Kormákur Hvöt fékk akkúrat ekki neitt í þessum leik, þó svo að vottað og þinglýst sé að svo ætti að vera.
Atvik 1: Ismael Sidibe gerir það sem hann gerir best. Djöflast í gegnum vörnina og tekur vart eftir þegar varnarmenn hanga í honum. Línuvörður gefur dómara til kynna brot, en dómari lætur leikinn réttilega halda áfram. Þegar Ismael er búinn að hrista þessa tvo hælbíta af sér skorar hann. En nei, hæstvirtur dómarinn dæmir þá brot á okkar mann. Þarna göptu menn, bæði í stúku og í varamannaskýli Augnabliks. Mest göptu leikmenn okkar.
Atvik 2: Á síðustu mínútu fyrri hálfleiks skorar Alberto eftir hornspyrnu frá Goran. 3-0. Nema að línuvörður ákveður að boltinn hafi ekki farið inn. Ekki er nóg með að hann fari inn (sjá ÞúSkjás klippu fyrir neðan), heldur bregður útileikmaður Augnabliks sér í hlutverk blakspilara og mokar boltanum út úr markinu. Myndir segja þúsund orð, en myndbandið fyrir neðan segir bara eitt. „Ha?“
Seinni hálfleikur fór af stað og nú spiluðum við á móti vindi. Goran fær seinna gula spjald sitt í leiknum á þeirri 59., en honum hafði ekki farið skap saman með dómaranum frá upphafi. Merkilegt nokk fékk hann spjaldið fyrir að fá boltann í höndina þar sem hann stóð í varnarvegg. Kannski er það bara rétt í reglubók þessa dómara, sem Aðdáendasíða Kormáks hefur ekki undir höndum né skilur hvað í stendur.
Rétt á undan eða eftir hafði nefnilega Ismael Sidibe verið hakkaður niður aftan frá kominn einn í gegn, en dómari þessi spjaldaði hann fyrir dýfu. Á sama tíma galaði línuvörðurinn í samskiptatæki sín að hér væri borðleggjandi víti. Af hverju dómarinn ákvað að hlusta ekki á mann sem var í beinni línu og sá þetta jafn skýrt og stillimynd á fimmtudegi er ómögulegt að segja. Eigi hann það við sig.
Augnablik hélt áfram að rúlla boltanum án færa. Eitt skot áttu þeir í slá og það var svo fast að Sigurður markmaður Aadnegard hefði aldrei átt séns í boltann hefði hann verið þumlungi neðar. Ein af stærri ástæðum þess að Kópavogsbúar komust ekki í álnir var Mateo Climent. Fenginn til liðsins sem bakvörður, en hefur spilað síðustu leiki á miðjunni. Hann var stórkostlegur í leiknum. Stoppaði 10 sóknir eða svo í fyrri hálfleik og ekki minna í þeim seinni. 100% heppnaðar sendingar eða svo, þindarlaus smalahundur sem gerir allt einfalt og fallegt.
Ismael Sidibe fékk svo loksins á 90. mínútu að eiga mark og hefði með réttu átt að vera að loka þrennunni þarna. Hans 18. mark í deildinni þetta árið í 19 leikjum, en 21 í 20 leikjum ef allt er talið. Ismael endar því markahæstur í deildinni.
Lokatölur Kormákur Hvöt 3 Augnablik 0 í leik þar sem annað liðið var með boltann en hitt liðið setti hann inn í markið. Verðskuldaður sigur sem þýddi að okkar lið endar í 2. sæti deildarinnar og vann sér því sæti í 2. deild árið 2024. Við þökkum Augnablik komuna og kvöddum þá með köldum bjór. Gaman að spila við þá.
Kormákur Hvöt var sannlega annað tveggju besta liða 3. deildarinnar 2023. Fékk á sig fæst mörk, átti markahæsta leikmanninn, Uros Duric vann gullhanskann með flest hrein lök, ekkert lið vann fleiri leiki eftir að hafa byrjað á því að lenda undir og liðið var það eina í deildinni sem tapaði ekki leik á sínum heimavelli. Á næstu leiktíð erum við ekki að keppa við B-lið stærri klúbba, heldur alvöru lið með alvöru budget og bæjarfélög á bak við sig. Þar má nefna til dæmis Víking frá Ólafsvík, Hauka og Völsung frá Húsavík. Tvö þeirra fyrrnefndu voru í efstu deild fyrir ekki svo löngu, svo hér eru ekki nein firmalið á ferðinni.
Gleðiefni verður að við fáum að spila meira á grasi en í sumar. Í 3. deild voru grös á fimm völlum, en átta lið af tólf hafa aðgang að slíku í 2. deild komandi. Best er þó sennilega að við losnum við að spila í skrattans knattspyrnuhúsunum, sem hafa ekkert gott til brunns að bera. Þó er ein slík í deildinni, en hver veit nema að hún verði ryðguð í sundur þegar komið er að okkur.
Nóg um það. Þetta tókst og allt kredit fer á þetta magnaða lið sem aldrei gefst upp. Þó að við fáum ekki að hafa markvörð í marki og andstreymið komi úr allskonar áttum þá er það alltaf áfram gakk. Hendið eldhúsvaskinum í okkur og við sköllum hann frá, djöflist í okkur á lyklaborðunum og við heyrum ekki í okkur. VIÐ GEFUMST ALDREI UPP!