Kormákur Hvöt – Árbær 3-2
Hljómar kannski eins og titill á nýrri ævintýrabók sem væntanleg er í næsta jólabókaflóði. En ævintýrin gerast enn í Húnavatnssýslum og má ætla að hvorki leikmenn né áhorfendur séu enn komnir niður úr himnunum sjö eftir leik dagsins.
Eftir hinn æði farsakennda leik suður með sjó í síðustu umferð var nokkuð ljóst að lokaleikirnir yrðu ansi hreint mikið snúnari en ella. Uros í fjögurra leikja bann, Lazar í þriggja leikja bann og Goran í einn leik eftir uppsöfnuð gul. Ýmislegt hefur verið sagt og ritað um þann leik og dveljum við ekki meir við hann.
Ekki náðist að fanga varamarkmann fyrir þennan leik og því er andskoti gott að eiga einn Aadnegard allsstaðar. Hann hefur nú leikið hverja einustu stöðu sem í boði er í fótbolta, stígur alltaf fram fyrir liðið sitt þegar þörfin er mest, eins og sönnum fyrirliða sæmir.
Liðið var því Siggi í marki. Papa, Acai, Hlynur og Alberto í vörn. Mateo, Viktor og Ingvi á miðju. Benni og Kristinn á köntum og Ismael uppi á topp.
Veðurskeytin? Já, veðrið var almennt bara frekar vont, sérstaklega í fyrri hálfleik. Sunnan strekkingur sem Árbæingarnir höfðu með í farteskinu og svo fór að rigna ofan í það í þokkabót.
Í stúkunni voru nokkrir glaðreyfir Árbæingar, tilbúnir að sjá liðið sitt kjöldraga vængbrotna Húnvetninga og svo að sjálfsögðu tólfti maðurinn, aðdáendur stórveldis Norðvesturlands, sem reyndar velflestir (þó ekki allir) húktu inni í bíl framan af leik.
Fyrri hálfleikur
Það mátti greina einhvern smá skjálfta í heimamönnum í upphafi leiks. Hvort það hafi verið vegna veðurs (hæpið) eða vegna þess að þrír afar mikilvægir leikmenn liðsins sátu uppi í stúku að horfa á leikinn, það mátti geta sér til um það. Gestirnir byrjuðu betur í leiknum og náðu upp talsvert betra spili fyrstu 15 mínúturnar eða svo, við höfðum vindinn í bakið en hann hirti yfirleitt boltann af okkur svo ekki var gott að segja til um hversu heppilegt það var. Við þekkjum líka norðanáttina betur en þetta sunnan garg.
Við náum þó að stinga einum bolta í gegn á Ismael, sem hafði úr ansi litlu að moða mestallan fyrri hálfleikinn og mátti alveg greina það á hans látbragði. Ekkert varð þó úr þessu færi, því hendi var dæmd á hann, líklega nokkuð réttilega. Í enska tuðrusparkinu virðist orðið ómögulegt að fá dæmda hendi, en reglurnar eitthvað aðeins skýrari í hinum fjörugu ástríðudeildum á Íslandi.
Enn bætti í vind og höfðu boltasækjar í nógu að snúast, því við minnstu snertingu endaði boltinn langt utanvallar. Mörg voru því innköstin og á báða bóga. Verst var að KormáksHvatarmenn höfðu gert þetta að leikskipulagi fyrri hálfleiks, að gluða boltanum hátt og langt fram, en vindurinn greip flestar þær sendingar og neitaði oftar en ekki að skila boltanum aftur. Allar þessar háloftasendingar virðast eitthvað hafa ruglað Súpermann markmann í ríminu, því eftir eina slíka reyndi hann að hlaupa í gegnum markstöngina. Hraustur strákur þó og gat haldið leik áfram.
Það var því ekki beint gegn gangi leiksins þegar Árbæingar náðu að brjóta annars ágætan varnarmúr heimamanna. Við höfðum staðið af okkur árásir Árbæinga hingað til, en á 31. mínútu kemur sending utan af vinstri kanti inn að marki, Siggi kemur á móti og ætlar að grípa blautan boltann en heldur honum ekki nógu vel og endar boltinn beint fyrir fótum sóknarmanns Árbæinga sem fylgir vel á eftir. Staðan 0-1.
Við reynum að hrista af okkur slenið og það gengur upp og ofan. Innkast fáum við seint í fyrri hálfleik og Papa að gera sig kláran að kasta inn í teig. Þá skyndilega hnígur einn Árbæingurinn niður og heimta gestirnir rautt á Ismael fyrir olnbogaskot. Góðir dómarar leiksins sáu þó í gegnum þennan leik, enda bara um venjulega stöðubaráttu í teignum að ræða. Ekkert varð svo úr þessu hálffæri og í raun steingeldur sóknarleikur af okkar hálfu í þessum lítið skemmtilega fyrri hálfleik.
Seinni hálfleikur
Við gerum skiptingu í hálfleik. Tökum 17 ára Kristin út af og setjum 17 ára Atla inn á. Við byrjum þennan seinni hálfleik af mun meiri krafti en við lékum allan fyrri hálfleikinn. Jafnræði með liðum fyrstu 20 mínútur seinni hálfleiks. Við fáum nokkur hálffæri, sem við náum þó ekki að nýta okkur. Atli hefur þó komið virkilega frískur inn í sóknarleik liðsins. Gestirnir fá einnig sín færi en vörnin stendur það af sér. Alberto á eina klassa tæklingu, sem Rikk sjálfur hefði verið stoltur af.
Við gerum frekari breytingar, Viktor og Benni út, Orri og Aco inn. Við færum hér Atla yfir á vinstri kant, Papa fer ofar á völlinn og Aco fer niður í hægri bakvörðinn. Þjálfarateymi heimamanna greinilega séð hér leik á borði. Það þurfti svo ekki að bíða lengi eftir að þessar breytingar skiluðu sér. Á 73. mínútu ber Atli boltann upp, leikur á einn og tvo og lætur svo skotið ríða af. Markmaður gesta ver en nær ekki að halda boltanum og mættur er Papa til að hirða þann bolta upp og setur boltann framhjá Súpermanni. Staðan 1-1 og á ný glæðast vonir heimamanna um að halda öðru sætinu í deildinni.
Árbæingar láta í tvígang reyna á Sigga í markinu, þrumuskot af löngu færi sem Siggi ver glæsilega í slána og í horn. Stuttu síðar annað skot sem Siggi slær yfir markið. Þetta var á svokölluðu Uros-leveli, slíkar voru þessar vörslur. En úr seinna horninu skora Árbæingar og aftur sígur brúnin á heimamönnum. Staðan 1-2 eftir 79 mínútur.
Það stóð þó ekki lengi. Aco kemst inn í sendingu, kemur honum yfir á Papa sem geysist með hann upp hægri vænginn. Finnur þar Ingva inn í teig, sem stígur út varnarmann gestanna og stingur honum síðan á fjær þar sem Atli lúrir. Hann tekur vel á móti boltanum og setur hann af stuttu færi. Staðan aftur jöfn, 2-2 eftir 81 mínútna leik.
Dramatískar mínútur áttu aðeins eftir að verða enn dramatískari. Aco sækir upp hægri kantinn og fíflar tvo varnarmenn og kemur boltanum fyrir á Atla sem er nærri því að setja sitt annað mark. Árbæingar eiga virkilega hættulega sendingu inn í teig stuttu síðar og er þar fyrirliðinn mættur enn og aftur, stekkur hæst manna og grípur þann bolta örugglega áður en hann og sóknarmaður lenda saman. Þeir fá svo aukaspyrnu á hættulegum stað og setja fastan bolta rétt yfir. Hjartastuðtækin hefðu þurft að vera við höndina hér.
Það er svo í uppbótartíma (90+5) að við fáum einn lokaséns. Miðfirðingurinn knái, Ofur-Orri kemst þá í góða stöðu fyrir utan teig gestanna (e. sendingu frá Aco) og lúðrar á markið. Og sá small í netinu! Frábært mark hjá Orra og mátti sjá stuðningsmenn hlaupa bæði úr stúku og úr bílum niður að hornfána til að fagna með okkar manni. Svakalegar lokamínútur og einhver stórbrotnasti sigur sem Mentality Monsters úr Húnavatnssýslum hafa unnið.
Leik lokið! 3-2 sigur Kormáks Hvatar staðreynd, þrír punktar í kladdann og annað sætið er enn okkar!
Dettur mér þá í hug þessi staka:
Í rammanum sáum við Súpermann
síðar hann þó á rassinn rann
er að leikslokum spurt
snöktandi Árbærinn burt
því það var Kormákur Hvöt sem vann
Punktar:
- Frammistaða fyrirliðans í markinu var sérlega eftirtektarverð. Siggi hefði kannski mátt gera betur í fyrsta markinu, en nokkrar frábærar markvörslur hefðu sæmt topp markmanni í þessari deild. Það er fátt sem þessi drengur gerir ekki fyrir klúbbinn sinn. Sannur fyrirliði!
- Sparkspekingar (sunnan heiða) hafa á stundum rennt augum yfir liðið og ýmist talað um útlendingahersveit, gáminn sem sendur hefur verið norður og annað í þeim dúr. Það var því afar sætt að sjá tvo unga heimamenn slökkva í Árbæjarliðinu í dag. Þetta er þó ekkert nýtt, því ungu strákarnir okkar hafa verið flottir í allt sumar og nýtt tækifærin sín vel.
- Samstaðan í hópnum er til fyrirmyndar. Menn stíga upp og fylla í þau skörð sem þarf að fylla í hverju sinni. Stundum beygðir, en aldrei brotnir.
- Dómaratríóið var virkilega gott í dag. Ef leikurinn gegn Reyni var mikilvægur fyrir bæði liðin, þá var þessi engu síðri. Hér fengum við mun meiri gæði inn en fulloft hefur sést í sumar. Þessir þrír voru síður en svo í aðalhlutverki og er það góðs viti.
- Þjálfarateymið þarf og fær sérstakt hrós fyrir þeirra inngrip í leiknum í dag. Skiptingarnar skiluðu allar betra flæði og skópu þennan glæsta sigur. Tvö góð mörk af bekknum. Það má í raun segja að hér hafi feðgarnir og þeirra teymi outcoachað sparkspeking úr setti.
Þessi sigur gerði það að verkum að við höldum öðru sætinu og erum nú 5 stigum fyrir ofan Árbæ. Reynir tapaði naumlega gegn Kára og eru nú þremur stigum á undan okkur. Næsti leikur okkar er gegn Magna á Grenivík á meðan Ástríðuspjallmennin mætast í stórleik Árbæjar og Kára.
Allir á Grenivík og klárum þetta! Áfram Kormákur Hvöt!