Bæjarhátíð Sandgerðis stendur yfir þessa dagana og var leikur toppliðanna Reynis og Kormáks Hvatar hluti af stappfullri dagskrá þeirra. Alltaf gaman að spila á bæjarhátíðum, þar sem glatt er á hjalla, stappfullt í stúku og oftast rjómablíða. Það var svo sannarlega check, check og check í þessi box í dag.
Það gleymdist bara eitt. Að fá dómara sem valda verkefninu í leikinn.
Fréttaritarar eru ekki hrifnir af gaspri um gæfulausa dómara, en í kvöld keyrði um þverbak. Lið Kormáks Hvatar spilar fast, það er enginn vafi. Þannig viljum við hafa það, enda margir áhangendur aldir upp á möl og fyrir framan svart/hvítan enskan bolta. Við erum ekki dúkkulísur sem kasta sér í kargann og reyna að gabba yfirvöld. En það sem við sáum á fallegasta velli sumarsins í kvöld var eitthvað annað.
Til að æra ekki óstöðuga þá tökum við bara þrjú dæmi og við setjum þau neðst í leikskýrsluna svo að þeir sem nenna ekki að lesa um slíkt geti sleppt.
Reynir voru betri í fyrri hálfleik. Þeir skoruðu eftir 32. mínútur með einföldum krossi og skalla inn. Svoleiðis mörk eigum við ekki að fá á okkur. Tólf mínútum síðar skora þeir úr víti (sjá „umdeild atvik“ #1 fyrir neðan). Fyrir og eftir þessi mörk vorum við hálf andlausir, lélegar sendingar og óljóst leikplan. Í raun gegn gangi leiksins skoraði Papa gott mark þegar hann lék á marga, ekki í fyrsta sinn, og lúðraði í netið úr þröngu færi. Hans þriðja mark í sumar. Stuttu síðar klúðrar Ismael mesta dauðafæri sumarsins, þegar hann hristi af sér tvær tæklingar og átti bara eftir að ýta á takkann. Framhjá. Bjargað frá Benna á línu skömmu síðar.
Rétt fyrir hálfleiksflaut skora svo Reynismenn aftur. Horn, boltinn kemur fyrir og einhver skallar inn.
Fyrir tæpri viku lékum við gegn Kára og vorum undir 0-2 í hálfleik. Þá var liðið ekki gott í fyrri hálfleik, en sté á stokk sem Þorgeirsboli eftir flaut í seinni hálfleik. Eftir klukkutíma fær Lazar rautt (sjá „umdeild atvik“ #2), en þá gefum við bara meira í.
Þarna eru Reynismenn búnir að slá Suðurnesjametið í leiktöfum. Leikmaður þeirra númer 10 hlýtur að vera tæpur í hnjánum eftir allar dýfurnar sem hann tók, en áhorfendur töldu fjórar slíkar á fyrstu 20 mínútunum og áfram út leikinn. Suðurnesjamenn, sem hér í denn voru taldir hin mestu hörkutól og ólseigir viðureignar, báru þarna ekki af sér þann þokka. Þeim til varnar þá er tían sennilega ekki skírður í Stafneskirkju, heldur eitthvað sunnar við sæinn. Bæði áhorfendur og leikmenn heimtuðu blóðrauð spjöld á harðsnúna Húnvetninga við hvert tækifæri. Hvar hafa dagar lífs míns litum sínum glatað?
Ingvi var tekinn niður í vítateig Reynis á sirka 65. mínútu og réttilega dæmt víti. Kristinn Bjarni gerði verulega vel í aðdragandanum og átti góða innkomu í kvöld. Fyrsta vítið fyrir okkar lið þessa leiktíðina, en við munum svo sem ekki eftir mörgum tilvikum þar sem við höfum froðufellt af vandómum boxi andstæðinganna. Ismael kláraði það víti örugglega með sínu 15 marki sumarsins.
Áfram héldu Reynismenn að tefja og velta sér í iðagrænu grasinu. Við skiljum þá að vissu leyti, grasið er svo fallegt að það líkist gervigrasi úr fjarlægð og lyktin er himneskt. Klukkan tifar. Kormákur Hvöt eina liðið á vellinum, en heimamenn dúndra hátt og langt við hvert tækifæri. Sparka boltanum frá þegar dæmdar eru aukaspyrnur. Tafir.
Í uppbótartíma skorar Kormákur Hvöt 3-3 mark (sjá „umdeild atvik“ #3). Leikurinn fjarar út og sigurinn er heimamanna eftir lífróður þeirra í seinni hálfleik. Slíkur róður er alltaf auðveldari ef þú ert með utanborðsmótor með þér í liði, klæðir hann í dómarabúning og réttir honum flagg og flautu.
Kormákur Hvöt situr þrátt fyrir þetta skúespil í 2. sæti deildarinnar. Draumsýn um bikar var tekin af okkur í kvöld, en enn erum við meistarar okkar örlaga. Þrír leikir eftir og næsti er gegn bronskandídötum Árbæjar á Blönduósvelli. Allir hrekklausir krossleggja nú fingur og tær í von um að Knattspyrnusamband Íslands sendi ekki álíka trúðatríó til leiks þá. Í þeim leik ræðst sennilega hvaða lið fara upp og hvaða lið sitja eftir og þurfa að spila í 3. deild að nýju næsta ár.
Eftir leikinn varð hasar, þar sem Uros Duric fékk rautt spjald. Fréttaritarar voru þá farnir heim, enda annálaðir tapsæringar, svo ekki er hægt að skrifa margt um það.
Umdeild atvik:
1) Á 34. mínútu er staðan 1-0 fyrir Víði og þeir með yfirhöndina. Þeir fá dæmt víti sem er rangur dómur, þegar leikmaður þeirra rekur boltann framhjá Acai og hendir sér niður. Dómarinn og/eða aðstoðardómari 2 falla í gildru og dæma víti. Hlutlausir í stúkunni hafa staðfest að þessi dómur hafi verið rangur.
2) Eftir um 60. mínútna leik, þar sem Kormákur Hvöt eru búnir að koma vel sterkir út úr hálfleiks-te-inu, hangir einn Reynismaður í öxl Gorans. Okkar maður snýr hann af sér, en kauði grípur um andlit sitt og fiskar gult á Goran. Aðstoðardómari 2 flaggar og segir brot á okkur. Rangt. Við það verður æsingur og dómari leiksins gefur Lazar beint rautt fyrir sakir sem enginn (og hann sjálfur sennilega með) skilur ekki enn. Farinn útaf. Þarna er rangur dómur sem leiðir til þess að Goran verður í banni í næsta leik. Og Lazar.
3) Jöfnunarmark Kormáks Hvatar í uppbótartíma. Boltinn kemur inn á teig, Ismael tekur niður og snýr, skýtur og skorar. Hleypur svo alsæll að hliðarlínu, en þegar hann er kominn þangað lyftir hinn margfrægi aðstoðardómari númer 2 upp flaggi sínu til merkis um rangstöðu. Fullum fimm sekúntum eftir markið. Maður veltir forsendum AD2 fyrir sér. Aftur, dómur sem hefur verið staðfestur af hlutlausum sem rangur dómur. Sem kostaði okkur stig í toppbaráttunni.