Kormákur Hvöt – Ýmir 7-0
Eftir þungan útileik gegn Hvíta riddaranum, þar sem bleikum var heldur betur brugðið, þá mætti Kormákur Hvöt mun beittara til leiks í kvöld. Lazar var mættur á miðjuna aftur, en hvergi var Papa að finna, sem varð fyrir smá hnjaski í Mosfellsbænum. Það var gott að fá herforingjann aftur á miðjuna, en fjarvera Papa kallaði á hrókeringar í vörn. Siggi fyrirliði sté inn í hægri bakvörðinn eins og hann hefur áður gert með ágætum, Acai og Hlynur Rikk í miðverði og Alberto í vinstri. Mateo mætti upp á miðju með Lazar og Ingva, Benni og Goran á köntum og markamaskínan Ismael uppi á topp að vanda.
Fyrri hálfleikur
Eins og áður segir, þá mættu bleikir einbeittir til leiks og greinilega staðráðnir í að dvelja ekki lengi við þennan riddaraleik. Leikurinn var tæplega átta mínútna gamall þegar Goran kemur upp hægri kantinn, reynir sendingu fyrir sem varnarmaður nær að komast fyrir, fær þó aftur boltann og setur hann beint á pönnuna á Ismael sem stýrir honum í netið. 1-0.
Aðeins átta mínútum síðar var staðan orðin 2-0, Kormáki Hvöt í vil. Við náum boltanum og sendum Ismael inn fyrir, hann á fínt skot sem markmaður ver, Goran er þá mættur í frákastið og smellir honum í slá og inn. Fótbolti getur verið hin undarlegasta íþrótt, einn daginn er ramminn lokaður og þann næsta sogast boltinn inn.
Það er algjör einstefna áfram í þessum leik, Ýmismenn rislitlir með þjálfarann uppi í stúku að gelta á dómarann og niðurlúta leikmenn með munnsöfnuð við glaðbeytta áhorfendur og aðra þá sem vildu heyra. Ismael kemst aftur í gegn og skorar eftir flottan undirbúning, en er flaggaður rangur. Stuttu síðar kemst Goran einn í gegn og er tæklaður niður af markmanni úti við vítateigslínuna. Snerting á bolta mjög lítil ef einhver, en ekkert dæmt. Goran eðlilega lítið skemmt.
Það þurfti þó ekki að bíða mjög lengi eftir næsta færi. Benni rekur boltann upp, finnur Ingva í úrvalsstöðu inni í vítateig, hann velur að skjóta ekki og leggur hann utar í teiginn þar sem Ismael er mættur. Heitasti framherji norðan og sunnan allra heiða þakkaði pent fyrir það og smurð’ann í bláhornið. 3-0 eftir 34 mínútur og leikurinn í raun bara búinn.
Goran þurfti hér frá að víkja, eftir að hafa í raun verið sparkaður úr leiknum, bæði af markmanni og öðrum leikmönnum gestanna. Kristinn leysti hann af á hægri kantinum og hans fyrsta snerting endaði næstum með marki, kominn einn í gegn og setti hann hárfínt framhjá. Ismael stuttu síðar í dauðafæri, eftir himnasendingu frá Urosi, en setti hann yfir markið.
Undir lok fyrri hálfleiks fá svo lánlitlir Ýmismenn tvö dauðafæri en nýta þau með eindæmum illa. Mjög góður fyrri hálfleikur hjá okkar mönnum.
Seinni hálfleikur
Við byrjum seinni hálfleikinn afar rólega og lítið í gangi. Bleikir kannski saddir eftir 3 góð mörk? Aldeilis ekki! Á 53. mínútu fullkomnar Ismael þrennuna, Mateo vinnur boltann glæsilega á miðjunni og sendir Ismael inn fyrir. Með Ismael í þessu formi var aldrei spurning hvernig þetta myndi enda. 4-0 og Ismael með þrjú þeirra.
Á 61. mínútu kemur mark númer fimm. Við fáum aukaspyrnu úti á kanti og Lazar stígur að sjálfsögðu fram. Hann svingar boltanum inn í teig og þar stekkur Alberto langhæst og stangar boltann inn. Ekki flókin uppskrift og markið hið glæsilegasta, 5-0.
Flóðgáttir höfðu hér algjörlega opnast, en aðeins 3 mínútum síðar kemur mark nr. 6. Benni geysist fram og sendir vel tímasetta sendingu inn á Ismael, sem sendir varnarmanninn suðrí sjoppu og smellir svo tuðrunni í netið. 6-0 eftir 64 mínútur.
Ekki var þetta þó alveg búið, því á 81. mínútu á Viktor frábæra sendingu inn fyrir og var þar mættur fyrirliði vor, Aadnegard, úr hægri bakverðinum. Kláraði hann færið með bravör og kórónaði þar frábæran leik sinn. Staðan 7-0 og þar við loksins sat.
Punktar
- Alvöru svar eftir súran tapleik sunnan heiða
- Eitt gult spjald í leiknum og það var ekki einu sinni á okkur!
- Allt liðið átti mjög góðan dag. Vörnin virkilega solid þar sem Hlynur Rikk setti mönnum ansi oft stól fyrir dyr og Siggi með einn sinn besta leik á tímabilinu. Á miðju var frábært að fá Lazar aftur inn, hvar hann stjórnaði leik liðsins með glæsibrag. Mateo í óhefðbundinni stöðu á miðju en vann bæði vel til baka og tengdi vel við sókn þegar svo bar undir.
- Þá þarf að fjalla sérstaklega um mann leiksins, en Ismael skaut sig á toppinn í markahrókskeppninni með fernu.
Önnur lið
Reynir, Víðir og Árbær unnu öll sína leiki og tryggðu að baráttan um toppsætin muni verða áfram mjög hörð. Elliði virtist ætla að skáka nágrönnum sínum, en tvö mörk á 2 mínútum kláruðu leikinn. Heiti riddarinn skellti svo Káramönnum, sem eru einmitt okkar næstu mótherjar.
Næsti leikur
Leikurinn sem margur aðdáandi Kormáks Hvatar (og eflaust Kára líka) hefur beðið eftir. Seinni viðureignin gegn Kára er næstkomandi sunnudag, kl. 14:00. Á hann ætlum við öll að mæta og styðja bleika til sigurs.
Áfram Kormákur Hvöt!