Á laugardaginn heimsótti Kormákur Hvöt einn af sínum fornu fjéndum í Hvíta Riddaranum, en við þá höfum við spilað mjög reglulega frá upphafi tímans. Liðin komu keik í leik, við hafandi unnið fjóra í röð og þeir búnir að kveikja á sér eftir frekar rólegt gengi framan af sumri með tveimur sigurleikjum í röð.
Úrslit annarra leikja í umferð 16 voru einkennileg. Topplið Reynis frá Sandgerði tapaði fyrir Elliða, sem við mörðum í umferð 15. Bronssætislið Víðis frá Garði tapaði fyrir Árbæ, sem eru nú að gera sig gildandi í röðum efstu liða. Allt í hnút og Kormákur Hvöt með sjans í Mosfellsbæ að jafna á toppnum og mynda gil niður í næstu lið fyrir aftan.
Við erum enn að læra á að vera í toppbaráttu, enda vorum við á sama tíma í fyrra í hægri og sígandi ferð niður töfluna í botnbaráttu sem átti eftir að vara út sumarið. Tækifæri að jafna við lið á toppnum. Sjans að skilja vonbiðla silfursætisins eftir í reykjarmekki. Þetta er enn að venjast.
En að leiknum. Það var vitað fyrir og sást byrjun leiks að Hvíti Riddarinn ætlaði ekki að gefa frí stig. Með tank uppi á topp og enn meiri tank á miðri miðjunni var ljóst að þetta myndi verða ströggl. Fyrstu fimmtán mínúturnar þreifuðu Mosfellingar og Húnvetningar á hvorum öðrum, hvar væri veika bletti að finna og hvar væri hægt að komast í vænlegar stöður. Fátt var um slíkt, svo veðbankar lækkuðu stuðla á 0-0 jafntefli með det samme.
Eftir um 20. mínútna leik fékk Ismael góða sendingu innfyrir, en fyrsta touch var of þungt og Hvítir náðu að stoppa í gatið. Þarna átti hann að skora sitt 10. deildarmark í 3. deild. Þess ber þó að geta að Ismael er þegar orðinn okkar markahæsti leikmaður í sögu deildarinnar, tók fram úr Hilmari Kárasyni þegar hann skoraði um daginn.
Á þessum tímapunkti voru fréttaritarar Aðdáendasíðunnar á því að við værum að mjaka okkur í rétta átt. Viktor var að gera rétta hluti með boltann á miðjunni, Kristinn var að böðlast í varnarmönnum á hægri kanti og Benni sýndi lipra takta á þeim vinstri.
Á 26. mínútu komast Riddarar upp vinstra megin, Acai býður þeim í dans inni í teig og dómarinn dæmir víti númer 34 á okkur á þessari leiktíð. Glámskyggnir fréttaritarar sátu þrír saman en sáu ekki hvort rétt var eður ei. Af viðbrögðum varnarmanna okkar þá var þetta rangt, en vissulega reyna menn að bæta í fláka þegar slík refsing er boðin fram. Ekkert er VAR-ið við Varmá, svo við munum aldrei vita meir. Þeirra lang besti leikmaður, nr. 25, skoraði af öryggi úr vítinu.
Ismael fékk annað færi eftir 37 mínútna leik. Markmaður Hvíta bauð upp á sjónvarpsmarkvörslu. Ekkert mark. Hálfleikur kom og sá seinni í beinu framhaldi.
Kunnuglegt stef var spilað á 50. mínútu þegar sennilega Papa átti mjög góðan bolta innfyrir vörn Mosfellinga og Ismael komst einn á móti markmanni enn á ný. Varið. Þarna var xG okkar skæðasta framherja komið upp yfir pí og með ólíkindum að við værum ekki búnir að jafna. Með hverju færinu í forgarðann lagt virtist trúin minnka og ergelsið aukast. Eftir klukkutíma leik fór taktík Hvíta Riddarans fyrir síðusta hálftímann að skýrast. Boltasækirinn (í eintölu) virtist alltaf var lengst frá aksjóninu, krampaköst tóku hálfa mínútu hér og þar, ásamt hinni nú orðið vel þekktu taktík að reyna að sparka Goran Potkozarac út úr leiknum.
Síðustu fimmtán-tuttugu komu og fóru. Kormákur Hvöt minnti á stóra grimma úlfinn sem blés og blés, en síðasta húsið vildi ekki niður. 90 mínútur liðu og Hvíti Riddarinn sigldi heim þremur stigum. Við söknuðum ákafa Sigga Aadnegard og leikskilnings Lazars á miðjunni. En þetta er svona og leikurinn búinn.
Kormákur Hvöt sigraði svipað lið, Elliða, í síðustu umferð án þess að spila vel. Í þetta skiptið gékk dæmið ekki upp, en Aðdáendasíðan minnir þó á að fæst lið vinna alla leiki. Gengi liðsins í sumar er búið að vera framar vonum og liðið situr í 2. sæti þegar 2/3 hafa verið spilaðir. Við erum fimm stigum á undan næsta liði og eigum í síðustu sex umferðunum eftir að spila fjóra heimaleiki. Einu útileikirnir eru í Sandgerði á móti toppliðinu og á Grenivík við Magna. Engir fleiri gervigrasleikir og engar fleiri andskotans knattspyrnu“hallir“.
Eftir sem áður sitjum við í 2. sæti, en nú erum við fimm stigum á undan liðinu í 3. sæti en ekki sex stigum. Það er allt og sumt. Reynir eru enn efstir, jafn mörgum stigum og þeir voru á undan okkur fyrir umferðina. Önnur lið kroppa stig hvort af öðru hægri vinstri.
Jákvætt teljum við að nú eru bara grasleikir eftir, en við höfum aðeins tapað einum slíkum af átta í sumar. Hlynur Rikk snéri aftur eftir meiðsli sem við óttuðumst að væru alvarlegri og að í næsta leik erum við með engan í banni – sem er ákveðinn stórviðburður hjá Kormáki Hvöt.
Við töpuðum, en það sem skiptir máli er hvað við gerum næst. Á miðvikudaginn koma í heimsókn Ýmismenn úr Kópavogi. Þann leik ætlum við að vinna og ekkert meira er um það að segja.