Ef pistlahöfundur væri latari en hann er, sem er talsvert mikið, þá myndi hann geta afgreitt leik dagsins á Blönduósvelli í dag með einni setningu. Hún gæti verið eitthvað í ætt við „Himinn og haf skildi að þegar Kormákur Hvöt malaði Í.H.“ Við skulum þó reyna að gera betur en það.
Ankanalegt gosþokumistur (18 stig í Scrabble) umlauk Blönduós í dag þegar Kormákur Hvöt tók á móti Í.H. í 13. umferð 3. deildar í dag. Hitastigið var þægi- og mollulegt, sem svo breyttist í ágætis regnúða. Algerar topp aðstæður fyrir fótboltaleik, þó svo að aðkomumenn séu vanari að spila inni í sínu þrönga knattspyrnutjaldi í Kaplakrika.
Það voru ferskgrösungar í Kormáki Hvöt sem mættu í leikinn eins og kyrkislöngur sem umluku utangátta Gaflara frá fyrstu minútu og hertu bara takið frá upphafsspyrnu. Eftir fjórar mínútur kom fyrsta höggið, þegar Papa geystist upp kantinn eftir að Lazar var með sinn leikskilning á ON og tók aukaspyrnu hratt. Boltinn fyrir fór og Ismael flikkaði boltanum framhjá markmanni Í.H. á nærstöng með einhverskonar hæl-chippi.
Goran fékk gult fyrir meinta dýfu, sem var rangt. Acai fékk gult fyrir peysutog, sem var rétt. Helsta framlag Í.H. til leiksins á þessum tímapunkti var að breyta Blönduósvelli í einhverskonar Gaflaraleikhús, þar sem einn rak upp harmahvæl þegar Lazar átti að hafa trampað á læri hans. Annar liðsfélagi tók orminn í grasinu þegar hann fékk ímyndað olnbogaskot í fésið. Helsta sóknarbragð nokkurra liða virðist vera að trekkja upp dómarann gegn hinum meintu meinhornum Kormáks Hvatar. Í dag var dómarinn sem betur fer ekki í nokkru skapi fyrir slíkt skúespil.
Næsta mark kom á 28. mínútu þegar Goran ormaðist í gegnum varnir Hafnfirðinga, skaut án árangurs, en kom frákastinu á Ismael sem brást ekki bogalistin fyrir opnu marki heimasætunnar. 2-0 og bara eitt lið á vellinum.
11 mínútum síðar sendi Alberto, sem hefur leikið í stöðu vinstri bakvarðar í síðustu tveimur leikjum, góðan bolta fyrir markið, þar sem Kristinn Bjarni skoraði mjög gott mark í leik þar sem hann var mjög góður allan tímann. Vel gert hjá þessum unga heimamanni í sínum 29 leik fyrir meistaraflokk.
Þarna var nú leikurinn eiginlega allur. Allt líf úr Í.H., en þeim til varnar voru þeir með talsvert veikara lið en í fyrri leik liðanna nú í vor.
Maggi Málari var byrjaður að hita vöfflurnar fyrir hálfleikspásuna þegar Lazar veifaði vendi sínum og teiknaði boltann á Alberto sem hamraði honum í mark með kollspyrnu. 4-0 í hálfleik og stúrnir áhorfendur aðkomumanna voru farnir að kvíða heimferðinni.
Síðari 45 mínútnar snérust um að halda takti í leiknum og sigla sigri heim. Aðeins eitt gult spjald féll okkur í skaut í honum, sem mun vera met hjá liðinu. Í.H. sýndu lífsmark og áttu skot á Uros. Í eintölu. Ekki hefur þetta verið merkileg lífsreynsla hjá honum að standa á milli stanganna og ágætt hjá honum að hreinlega halda sér vakandi. Enda er hann nú með fimm hrein lök í sumar, tveimur meira en næsti markmaður.
Eftir um klukkustund leystu Mateo og Viktor Ingi þá Alberto og Goran af hólmi. Leikurinn var sá 100. hjá Viktori Inga í treyju Kormáks Hvatar – gengur hann því í félagsskap þeirra Hlyns Rikk, Sigga Aadnegard og Ingva Ingvars Magg. Til hamingju Viktor!
Tíu mínútum síðar komu þeir Orri Ara og Nico inn fyrir Lazar og Benna. Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Orri sitt fyrsta mark í bleikum klæðum Kormáks Hvatar, þegar hann gerði vel mjög eftir góða sendingu José Mariano. Mikið var fagnað, enda gleður það áhorfendur mjög að sjá unga heimamenn gera vel. Enn einn af því færibandi kom inn og lék síðasta korterið, en það var Stefán Freyr sem leysti Papa af hólmi með bravúr. Sjötti leikur Stefáns fyrir Kormák Hvöt og sá fyrsti í sumar.
Leikurinn kláraðist og niðurstaðan var yfirburðasigur Kormáks Hvatar á Hafnfirðingum. Það sem áhorfendur sáu í dag var eiginlega aldrei spennandi, en tökum það ekki frá okkar mönnum að þeir tóku gestina þéttingstaki, rotuðu þá og hleyptu þeim aldrei í neina spennu. Leikurinn búinn í hálfleik og fáir hefðu getað kvartað ef hann hefði farið með 8 til 10 mörkum gegn öngvu.
Af öðru í leiknum er vert að minnast á að allir pistlahöfundar Aðdáendasíðunnar stukku fleiri millimetra á loft þegar Hlynur Rikk átti fallegustu tæklingu sem sést hefur á Blönduósvelli frá því að hann var möl, þegar Hlynur Rikk gersamlega át einn Gaflarann og hamraði boltanum og honum í örugga höfn. Kristinn Bjarni átti virkilega góðan leik með gríðarlegri vinnslu, fallegu marki og flottum sóknartilburðum. Vörnin skotheld, miðjan eins og svissneskt klukkuverk og sóknarlínan ógnaði stöðugt með hraða sínum og krafti.
Lokaniðurstaðan Kormákur Hvöt 5 – Í.H. 0. Við siglum með himinskautum, erum í 2. sæti í deildinni og bíðum spenntir eftir KFS á Unglistarleiknum næstu helgi.
Áfram Kormákur Hvöt!