Húnvetningar fagna eftir torveldan sigur á Magna

Kormákur Hvöt – Magni 2-1

Leikskýrsla á ksi.is

Í kvöld fór fram baráttan um Norðurlandið, þegar Magni frá Grenivík kom í heimsókn í Húnaþingið.

Fyrir leikinn voru Kormáks Hvatar-menn í 3. sæti eftir góðan sigur í síðasta leik, á meðan Magna-menn sátu í því 6. Okkar menn búnir að vera á miklu skriði og taplausir í síðustu 6 leikjum.

Það var svo sem engri gestrisni fyrir að fara, því boðið var upp á þoku, klassíska norðanátt og hitastig almennt lágt. Stúkan var þó sæmilega þétt setin, sem sæmir vel í kulda sem þessum. Voru þar bæði heimamenn og stuðningsmenn Magna (sem voru greinilega alfarið á móti sól).

Fyrri hálfleikur

Fyrri hálfleikur fer seint í sögubækur, enda frekar tíðindalítill. Heimamenn léku gegn norðanáttinni og voru sterkari fyrstu 20 mínúturnar, nokkru meira með boltann án þess þó að skapa hættu.

Magni lágu þéttir til baka og reyndu svo að sækja hratt á okkur, en flestar tilraunir þeirra strönduðu á brúarsmiðnum Rikk í vörninni. Gárúngar vildu helst líkja honum við ákveðinn dyravörð á unglingaballi, með fulla stjórn á skrílnum.

Restin af fyrri hálfleik einkenndist af stöðubaráttu og Magni þó ívið betri, án þess að skapa sér færi.

MARK – Á 44. mínútu geystist Papa upp völlinn úr vörninni og finnur Ismael sem brunar upp kantinn og sendir fyrir þar sem Benni kemur og smellir honum í markið. Virkilega góð sókn og afgreiðsla.

Í hálfleik var allt eins og vera ber, Maggi málari og Faðir Aadnegard á vöfflujárninu. Fullt hús stiga þar!

Seinni hálfleikur

Snemma í seinni hálfleik fær Magni ágætt færi en skalla blessunarlega yfir markið.

Og stuttu síðar eiga sér stað skelfileg mistök hjá okkur mönnum á miðjunni, sem verður til þess að Magni kemst í dauðafæri en Uros ver frábærlega. Sannar enn og aftur að hann er langbesti markmaður deildarinnar.

Í næstu sókn gerir Kristinn vel en skot hans fer framhjá. Þokan farin (soldið skrýtin, soldið þvæld, samt ekk’ of mikið, ekk’ útpæld), vind að lægja og leikurinn að lifna við.

Ismael og Kristinn skora báðir en dæmd rangstaða í báðum tilvikum, afar tæpt svo ekki sé meira sagt. Stúkan allavega ekki sammála þessum dómum, en það þarf ekki endilega að endurspegla mat þjóðarinnar. Magni fá svo gott færi en skófla boltanum yfir.

MARK – Á 76. mínútu jafnar Magni, sending af kanti og eitthvað klafs sem endar hjá Magna sem setur hann í markið, 1-1. Alveg magnað.

Við þetta vakna okkar menn og ná betri tökum á leiknum og nálægt því að skora þegar Ismael geysist fram, leikur á einn en skýtur hárfínt framhjá.

MARK – Á 80. mínútu kemur stungusending inn á Ismael sem endar í kapphlaupi við markmann Magna, er á undan í boltann og nær að setja hann í annarri tilraun við vítateigshornið, gott slútt. Staðan 2-1 og stúkan ærist af fögnuði.

Ég er miklu meir’ en spenntur söng Magni hér eitt sinn og þannig leið heimamönnum síðustu 10 mínúturnar, sem urðu tæplega 19, þar sem Magni pressaði stíft en vörnin stóðst áhlaupið.

Sigur í höfn, 2-1!

Með þessum góða sigri komumst við upp í 2. sætið, 2 stigum á eftir Reyni og 1 á undan Víði.

Jákvætt

  • Náum sigri þrátt fyrir að spila ekki vel
  • 7 leikir í röð án taps
  • Notum breiddina vel, fimm varamenn koma inn og veikja ekki liðið
  • Ungu strákarnir Kristinn, Orri og Atli sprækir og nýttu spilatímann vel

Leave a Reply