Þrenna frá Benna kemur Kormáki Hvöt á toppinn!

Það var boðið upp á frábært veður í Árbærnum í dag þegar Árbær og Kormákur Hvöt áttust við
í mildu og góðu veðri og svo til logni.

Fyrri hálfleikur var í ágætis jafnræði,  Kormákur Hvöt kannski örlítið betri færalega séð og uppskáru mark rétt fyrir hálfleik. Goran að ég held komst inn í sendingu og var allt í einu kominn einn í gegn og hefði getað slúttað þessu sjálfur, en ákvað að senda boltann á 3enna sem setti boltann í tómt markið á 39. mínutu.

Staðan í hálfleik 0-1 fyrir okkar menn.

Í seinni hálfleik byrjuðu Árbæingar af ágætis krafti og náðu að jafna leika með góðu föstu skoti á nærstöngina á 49. mínutu. En það stóð ekki lengi því stuttu eftir jöfnunarmarkið þá komast Kormáks Hvatar-menn yfir aftur á 56. mínutu, innkast beint á pönnuna á Ingva Rafni sem nær að flikka honum á 3enna úti við jaðar vítateigs, sem tók boltann yfirvegað niður og smellti honum þéttingsfast framhjá Superman markverju Árbæinga sem kom engum vörnum við, stóð frosinn rétt eins og hann hafi fengið Kryptonite í morgunmat.

1-2 fyrir okkur.

Árbæingar fengu 2 fín færi til að jafna leika í seinni hálfleik, en allir í liðinu vörðust feykilega vel hvort sem það var miðja eða vörn. En leikurinn var drepinn á lokamínutunum, eða öllu heldur á 86. mínutu þegar 3enni fékk sendingu út á kant, geystist fram, ætlaði að lúðra boltanum á fjær þar sem okkar maður beið eftir honum en varnarmaður þeirra var eitthvað að vesenast fyrir boltanum og 3enni fékk boltann aftur. 3enni ákvað þá að galdra fram eitthvað, fyrst sú sending heppnaðist ekki og ákvað að setja boltann með hægri þéttingsfast af 35 metrunum yfir Superman markverju þeirra sem reyndi að hlaupa aftur og reyna að koma sér til lofts en Superman náði ekki til knattarins sem söng í netinu ofarlega rétt undir þverslánni nálægt skeytunum fjær (Google Maps hnit væntanlegt). Geysilega fallegt mark og líklega mark ársins sem af er.

Lokatölur í Árbænum 1-3, Kormáki Hvöt í vil!


Ef einhver er ekki að kveikja á perunni þá er 3enni okkar maður enginn annar en Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson sem er jafnframt útnefndur maður leiksins. Alvöru frammistaða frá honum í dag. Benni var geysilega líflegur og átti alveg afbragðs góðan leik. Allt liðið var mjög gott, mikil barátta og game-planið greinilega heppnaðist fullkomnlega að vera þéttir og sækja fast á þá þegar færi á því gafst.

Nokkur voru þau gulu spjöldin eins og vanalega eða alls 6 stk í dag á okkur og 4 á hina.

Frábær útisigur og sennilega fallegustu úrslitin hingað til í sumar. Liðið virðist vera alveg með dúndrandi sjálfstraust og þetta lið getur unnið hvaða lið sem er í deildinni. Kormákur Hvöt er akkúrat þegar þetta er skrifað á toppnum í 3. deildinni. Næsti leikur er heima á móti Magna.

Áfram með smjerið!

Leave a Reply