Kári – Kormákur Hvöt 1-1
Það hlýtur að vera snúið að vera Skagamaður. Bæði hefur náðst árangur hjá aðalliðinu sem ætti heima í Heimsmetabók Guinness, en á sama tíma er umgjörð Knattspyrnufélagsins Kára eins lítil bæjarprýði og arfðleifð Í.A. er frábær. Jeckyll & Hyde er kannski full langt gengið, því Í.A. hafa aldrei gefið neitt eftir. Þeir hafa bara oftast verið svo ótrúlega góðir að þeir hafa bakkað kjaftinn og hörkuna upp með hæfileikum. Kári hinsvegar er orðið eitthvað sem enginn nennir. Djöfulgangur og dómarapressa.
Knattspyrnulið Kára hafa fengið rauð spjöld í fimm af sjö leikjum sínum. Þeirra nálgun á knattspyrnu, hið minnsta þegar þeir leika á heimavelli, er að hita upp Akraneshöllina frá fyrsta sparki. Fulltrúar á bekknum gelta á dómaratríóið frá fyrstu mínútu. Endurómurinn á vellinum er fullkominn, þar sem sígeltandi fyrirliði þeirra fer fremstur í flokki, alsaklaus af brotum en svæsinn þolandi alls sem á hann er blásið. Áhorfendur taka undir, úa og púa. Allir í póstnúmerinu eru með fullkomna sýn á minnstu smáatriði sem gerast inni á vellinum, hvort sem þau eru í sjónlínu eða ekki. Þó aðeins í þeirra átt.
Þetta er ekkert ólíkt því að spila við Galatasaray fyrir 30 árum eða svo. Dómarar og aðstoðarmenn þurfa að hafa sterk bein til að þola þessa orrahríð frá bekk til bekkjar. Í dag hafði sá með flautuna þau ekki. Niðurstaðan var þrjú rauð spjöld á okkar lið, tvö rauð spjöld á þeirra lið. Alberto fauk útaf snemma í leiknum eftir deilur, þar sem héraðstannlæknir Hvalfjarðarsveitar tók sér bólfestu í Káramönnum og kýtingur braust út. Mateo fékk rautt eftir vítaspyrnuna þar sem litla snjókornið með flautuna fannst að sér vegið. Sem er ákveðið afrek í ljósi þess að Mateo talar vart orð í ensku, hvað þá íslensku. Ismael fékk að fara sömu leið eftir leik, þar sem dómaranum fannst orðbragðið ekki við hæfi. Þar fór sú regla að seinna gula spjald skuli vera stærra brot en það fyrra. En gott og vel. Káramenn fengu sömu örlög þegar bestían í liðsstjórninni var búinn með alla sína sénsa og var beðinn um að fara og gera eitthvað annað, ásamt því að einn þeirra glímdi við Alberto í því atviki fyrr í leiknum.
Við getum alveg sagt það strax; leikurinn var hundleiðinlegur. Barningur á milli tveggja liða sem (eðlilega) hvorugt vildu tapa. Við skoruðum fyrst, skalli frá Papa eftir aukaspyrnu frá Lazar. Sá kann að taka aukaspyrnur. Fyrsta mark Papa í litum Kormáks Hvatar. Þeir skoruðu í uppbótartíma þegar við hreinsuðum ekki nægilega vel frá.
Þeir áttu að skora skömmu á undan þegar þeir settu boltann í stangirnar báðar, en frá fór hann. Við áttum að klára leikinn þegar Gústi setti gullbolta á platta fyrir Ismael, en hann hélt áfram markaþurrð sinni úr síðustu leikjum áfram þegar auðveldara hefði verið að skora en ekki.
Víti var réttilega dæmt djúpt í uppbótartíma þegar einn Kárinn féll innan teigs. Það skiptir bara engu, af því að við erum með Uros Duric í markinu. Hann varði vítið, eins og búist var við. Fjórða eða fimmta varða vítið hjá honum, við erum hætt að telja.
Björtu punktarnir eru að við þurfum ekki að fara í þessa höll aftur á árinu 2023 og fórum norður með eitt stig. Við tökum alveg 10 stig í þeim fimm útileikjum sem búnir eru.
Dekkri punktarnir eru að í næsta leik, við efsta lið deildarinnar Reyni frá Sandgerði, erum við með fjóra menn í banni. En við trompum dökkan með ljósum og bendum þeim sem hafa verið á bekk að hér er komið þeirra tækifæri til að láta ljós sitt skína.
Áfram gakk takk.