Leikskýrsla á ksí.is | Umfjöllun í Feyki (vantar) | Umfjöllun í Húna (vantar)
Kormákur Hvöt – Hvíti Riddarinn 2-0
Hvíti riddarinn hætti sér langt norður á taflborðið og mætti á Blönduósvöll í dag. Þeir höfðu haft nokkurn suðvestan meðbyr yfir heiðina, en þótt það hafi blásið áfram á meðan leik stóð, þá lauk meðbyrnum um leið og leikurinn hófst.
Liðin höfðu mæst alls átta sinnum í deildarkeppni og hvort lið unnið 3 leiki en tvisvar skilið jöfn. Að auki höfðu þau mæst 2var í bikarkeppnum, tölum minna um úrslitin þar.
Ein breyting var gerð á liðinu frá sigrinum í Eyjum, Siggi fyrirliði kom inn og Kristinn fór á bekkinn.
Fyrstu 35 mínúturnar fara seint í sögubækurnar (nema þá bækur sem enginn les), því það gerðist lítið sem ekkert. Stöðubarátta og færaleysi einkenndi þennan bróðurpart fyrri hálfleiks.
EFtir 35 mín kemur loks færi frá okkur, Ismael með góðan skalla sem fór hárfínt framhjá, eftir sendingu frá Papa.
Stuttu seinna komst Goran í dauðafæri eftir undirbúning frá Ismael, en markmaður riddarans varði vel að hætti Gumma Hrafnkels.
Allt útlit fyrir steindauðan 0-0 fyrri hálfleik, en á 44. mínútu geystist Papa upp hægri vænginn, fann þar Viktor sem fann Sigga, sem fann Valla!! Siggi setur’ann með þrumuskoti, óverjandi fyrir markmann hvítra.
MARK – 1 – 0!
Staðan í hálfleik 1-0.
Við byrjum seinni hálfleikinn eins og við enduðum þann fyrri, vorum áræðnir og sóttum nú með vindi.
Fengum við nokkur færi, m.a. fékk Alberto mjög gott skallafæri sem hann setti framhjá.
Hvítir voru þó ekki alveg tannlausir og komust í dauðafæri þar sem Uros átti algjöra heimsklassa markvörslu, líklega sú styrka hönd sem fjallað er um í „laginu“, traustur vinur sem getur gert kraftaverk.
Á 54. mínútu tvöfölduðum við forystuna eftir góða pressu frá Ingva, þar sem boltinn barst yfir á Ismael sem skoraði af miklu öryggi í gegnum klof markmanns hvítra.
MARK – 2 – 0!
Siggi var hér nýbúinn að krækja sér í gult og kom Kristinn inn á fyrir hann á 58. mínútu.
Benni kemur svo inn fyrir Viktor stuttu síðar og Orri inn fyrir Ingva.
Síðustu 10 mínúturnar lágu Riddarar svolítið á okkur, sköpuðu sér þó ekki mikið og vörnin leysti það vel, með vel talandi markmann sér að baki.
Einkunnir
Uros – 7 – Reyndi ekki mikið á hann, fyrir utan eitt dauðafæri þar sem hann sýndi heimsklassa markvörslu. Greip vel inn í og lét vel í sér heyra
Papa – 7 – Átti ótal marga spretti upp hægri vænginn og einn slíkur skilaði fyrsta markinu. Stundum aðeins úr stöðu en leysir það oftast vel með hraða sínum
Alberto – 8 – FLuglæs á leikinn og sterkur í návígjum
Hlynur – 7 – Komst vel frá leiknum, er ekkert að flækja hlutina og hreinsar vel frá
Mateo – 7 – Byrjaði leikinn rólega en var okkar besti maður í lokin þegar Hvítu fóru að sækja
Lazar – 7 – Útsjónarsamur og duglegur á miðjunni. Með góðar sendingar og föst leikatriði
Viktor – 7 – Skilaði boltanum vel á samherja og gerir hlutina einfalt, verður enn betri þegar hann kemst í sitt besta form. Átti stoðsendingu í fyrsta marki
Siggi – 7 – Veiddi nokkrar aukaspyrnur með klókindum, gefur alltaf allt í leikinn. Skoraði gott mark
Ingvi – 7 – Duglegur í návígjum, hélt bolta vel. Góð pressa skilaði marki nr. 2
Goran – 8 – Var lítið inni í leiknum fyrstu 30 mínúturnar, en virkilega góður eftir það. Var mjög skapandi, tapaði varla bolta.
Ismael – 7 – Fékk úr litlu að moða framan af, en alltaf hættulegur. Skoraði gott mark. Gæðaleikmaður sem á bara eftir að verða betri.
Kristinn – 7 – Kom mjög ferskur inn, dugnaður og barátta til fyrirmyndar.
Benni – 7 – Barðist og hjálpaði við að landa þessum sigri.
Orri – 7 – Spilaði síðustu 10 og lét finna fyrir sér og gaf ekki tommu eftir.
Punktar
Dómaratríóið átti góðan dag, Ronnarong og félagar höfðu góða stjórn á leiknum
Héldum haus og vorum ekki að safna óþarfa spjöldum
Vörn og markvörður virkuðu vel saman
Komnir 2 sigurleikir í röð