Loftmynd

Þá er keppnistímabilið 2024 liðið, en það var 12 tímabil Kormáks Hvatar á Íslandsmóti og í fyrsta sinn sem keppt var við stórlaxana í C-deildinni. Það var vitað fyrir mót að þetta væri keppni á öðru leveli en þegar við öttum kappi við Kríu, Skallagrímog fleiri káta kappa í neðri deildum og það kom svo í ljós í sumar.

Björtu punktarnir voru margir. Að venju stigu nokkrir heimamenn upp um level og áhugaverðir erlendir leikmenn heiðruðu okkur með nærveru sinni (og reyndar fjarveru þegar leið á tímabilið). Sætir sigrar komu á milli súrra tapa og allt þetta venjulega sem fylgir því að spila fótbolta.

Ekkert lið á Íslandi skoraði færri mörk en Kormákur Hvöt, aðeins 19 mörk í 22 leikjum. Eitt mark fyrir hvert stig sem við fengum, svo það má segja að við höfum valið sigurmörkin vel! Vörnin var hinsvegar framúrskarandi í sumar og hélt sjó gegn ölduróti oft á tíðum. Markahæstur endaði Artur Balicki, pólski framherjinn sem skoraði fimm mörk, en skemmtilegt er frá því að segja að þrjú þeirra voru sigurmörk og hin tvö skiluðu jafntefli. Talandi um að láta mörkin telja þegar máli skiptir. Næst markahæstir urðu Ingvi Rafn, sem kveikti á hreyflunum í síðustu tveimur umferðunum og skoraði þar sín tvö mörk, Ismael Sidibe sem kom aftur norður í miðsumarsglugganum og setti eitt úr víti og eitt með skalla í átta leikjum og svo Viktor Ingi, sem skoraði í tveimur leikjum í röð og lét svo gott heita um miðjan ágúst.

Stórtöpin komu ekki fyrr en okkar frábæri markmaður Uros Duric yfirgaf liðið um mánaðarmótin júlí/ágúst og annar talsvert síðri kom í hans stað. Reyndar var það svo að Duric fékk á sig mark á 64 mínútna fresti í sínum leikjum í sumar, en sá sem kom í hans stað fékk á sig mark á rúmlega hálftíma fresti. Ekki verður sagt að það sé uppskrift að afrekum, sérlega í deild þar sem markmenn skipta ÖLLU máli. Með Uros í markinu út tímabilið hefðu fréttaritarar ekki þurft að leita á náðir hjartastillandi í sigurlausu hrinunni sem stóð yfir í allan ágúst og allan september. En svona er móðir náttúra og óskum við Duric-fjölskyldunni til hamingju með erfingjann sem kom í heiminnn þarna um miðjan ágúst.

Aðdáendasíðan ætlar að nýta tækifærið og staldra aðeins við og melta það að Húnaþingin hafi í sumar átt lið í þriðju efstu deild og endað tímabilið sem 34. besta lið á Íslandi. Betri árangur en náðist í Sandgerði, Siglufirði, Suðureyri og allskonar bæjarfélögum sem hafa allt til brunns að bera til að ná árangri. Spilandi í sömu deild og lið með alvöru innviði og iðkendafjölda, sem eru svo sannarlega ekki til staðar á Blönduósi og Hvammstanga.

Sýnið okkur þokkafyllri varamannabekk á Íslandi. Við bíðum.

Fyrir mót var liðinu spáð kolfalli og fékk lang fæst stig allra í spá forsvarsmanna liðanna í deildinni. Samt var það svo að Kormákur Hvöt var aldrei í fallsæti frá umferð 1 til umferðar 22 og lengstum sæmilega langt frá því. Eftir eyðimerkurgöngu í lok leiktíðar, þar sem fimm síðustu leikirnir töpuðust (og síðasti sigurleikur kom í júlí), var þetta tæpt. Akkúrat ekkert datt fyrir okkur undir lokin – hvorki í okkar leikjum né öðrum leikjum þar sem við treystum á að andstæðingar okkar skripluðu á skötunni, leikmenn meiddust í bílförmum og aðrir gáfust upp í mótbyrnum. Það voru svo Héraðsbúar í Hetti/Huginn sem skáru okkur úr snúrunni með fræknum sigri á Ólafsfirði og sendu því Fjallbyggðinga niður um deild (þrátt fyrir digurbarkalega spá Aðdáendasíðunnar á héraðsmiðlinum Feyki).

Aðdáendasíðan tekur hatt sinn ofan fyrir þjálfarateyminu Ingva og Aco. Starfsumhverfið sem þeir sigldu skútunni í gegnum væri varla mörgum kollegum þeirra í deildinni bjóðandi. Engin æfingaaðstaða fram á mitt ár. Liðið rétt komið saman í rútunni á leiðinni í fyrsta leik. Tveir til fjórir leikmenn sem heltust úr lestinni í hverjum mánuði, innlendir jafnt sem erlendir. Og svo var það veðrið í sumar, árstíðinni sem aldrei kom. Æfingadýnur frjálsra íþrótta fuku á mörk og beygluðu þau, 80% allra hornspyrna urðu sviptivindum að bráð og tvísýnt var með færð í suma leikina.

Aðdáendasíðan tekur líka hatt sinn ofan fyrir öllum þeim sjálfboðaliðum sem héldu starfinu á lofti. Fjáraflanir, símtöl, samningaviðræðu, reddingar, keyrsla um landið þvert og endilangt, samtöl við bæjarbúa, rökræður um lífsins gagn og nauðsynjar. Allt er þetta partur af því að reka fótboltalið. Svo þarf að elda kvöldmat og skutla og vera til utan þessa umhverfis sem oft krefst vaktarinnar 24 tíma á dag frá áramótum til réttarloka. Húrra fyrir ykkur sjálfboðaliðar!

Þegar horft er í baksýnisspegilinn góða sér Aðdáendasíða Kormáks það sem stórsigur að Kormáki Hvöt hafi tekist að halda sæti sínu í deildinni. Það ætti að vera fyrsta markmið nýliða í hverri deild, en sjá má ef töflur eru skoðaðar að sirka helming þeirra tekst það. Okkur tókst það og á því er hægt að byggja.

Verðlaun ársins:

Leikmaður ársins var valinn af aðdáendum og ritstjórn Aðdáendasíðu Kormáks Sergio Uolu. Þessi tröllvaxni portúgalski leikmaður var brimbrjóturinn sem svo margar sóknir andstæðinganna stoppuðu á fram eftir sumri og ein af aðalástæðum þess að Kormákur Hvöt var með bestu varnarliðum deildarinnar langt frameftir. Hann og Acai Elvira, sem var fyrirliði liðsins í sumar, áttu báðir frábært tímabil.

Besti ungi leikmaðurinn var valinn Sigurður Pétur Stefánsson sem átti einnig frábært tímabil. Hann tók við stöðu Lazar Cordasic sem aftasti miðjumaður og skilaði því framar vonum. Leikmaður sem á svo sannarlega framtíðina fyrir sér og getur spilað á enn hærra leveli.

Ljúfasta móment ársins var sigurmark Arturs Balicki á lokasekúndum leiks í 0-1 útisigri gegn Þrótti Vogum. Það var ljúfara en hægt er að lýsa í prenti, eftir að liðið hafði sýnt fram á einhverja þá mögnuðustu varnarframmistöðu sem sést hefur á Vatnsleysuströnd. Einnig var geysilegt stuð í Unglistarleiknum, þar sem boðið var upp á FanZone fyrir leik og myndaðist magnað stuð.

Besta dómaraframmistaðan var reidd af hendi Óla Njáls Ingólfssonar í heimaleiknum gegn KF á Unglist, þar sem maður varð vart var við hann, nema í hálfleik og eftir leik þar sem hann var allur hinn almennilegasti. Sá allra versti var Ásmundur Þór Sveinsson, sem Aðdáendasíðan vill ekkert af frétta – rétt eins og í fyrra. Með ólíkindum að jafn hörundssár og brothættur einstaklingur skuli sækjast eftir því að dæma knattspyrnuleiki. Nóg um hann.

Besti útivöllurinn var í Sandgerði, þar sem alltaf er stuð og stemning, fáheyrður fjöldi af vallarstarfsmönnum og góður matur og drykkur. Og við unnum þar eftir hrakfarir síðasta árs. Sá versti var frystikistan hjá KFG, þar sem ekkert var hægt að maula, boltasækjarar voru í fríi og furðuleg stemning í stúkunni.

Nú árið er liðið og Aðdáendasíðan dregur sig í vetrarham. Nú tekur væntanlega við umhugsunartímabil forsvarsmanna Umf. Kormáks og Umf. Hvatar varðandi hvort halda á áfram samstarfinu og hvert það er að stefna. Mun vera nóg af skoðunum á því, jafnvel offramboð. Við endum pistilinn á því sem hann byrjaði á – velþóknun á því að við eigum við í C-deild. Fyrir þá sem muna eftir gömlu dögunum þegar bæjarfélögin fóru upp um deildir, þá er vert að benda á að leikurinn í dag er verulega breyttur frá því sem var þá. Meiri kröfur, meiri kostnaður, færri iðkendur sem gefa allt sitt í verkefnið og meiri samkeppni um afþreyingu er allt hluti af starfsumhverfi dagsins í dag. Það kallar á helvítis hellings vinnu frá alltaf fækkandi höndum.

Upp með fjörið, áfram með smjörið. Kýlum á þetta og byggjum á frábærum árangri!

ÁFRAM KORMÁKUR HVÖT!

P.S. við þökkum Megasi fyrir inspirasjón á nöfnum leikpistla sumarins og sérstaklega fyrir að þurfa aldrei að nota „Til hamingju með fallið“.

Leave a Reply