Pældu í því sem pælandi er í

Þá eru fyrstu haustlaufin farin að láta sjá sig á þeim trjám sem þó brumuðu í ár og lægðaraðir farnar að hita sig upp. Þegar það gerist er ofurtölvan jafnan ræst og tarotspilin sem Aðdáendasíðan fékk að gjöf frá Rósu Birnu hér um árið tekin fram.

Viðfangsefnið er fallbaráttan í 2. deild karla árið 2024. Þar eigast við fimm lið. Þau eru (í stigaröð eins og staðan er á þessum fagra mánudegi): Kormákur Hvöt, Ægir frá Þorlákshöfn, KFG frá Garðabæ, KF frá Siglufirði og Ólafsfirði og svo Reynir frá Sandgerði.

Öll þessi lið eiga aðeins fimm leiki eftir óspilaða af þessu tímabili, en í lok vikunnar verða þessir fimm aðeins orðnir þrír – því bæði er leikið nú á miðvikudaginn og svo aftur á sunnudaginn. Í margt þarf að líta þegar spáð er. Fjölda heimaleikja, ástand leikmannahóps, stuðið á liðinu og hvort spilað er á grasi, plastgrasi eða fúamýri eins og KF hafa boðið liðum í deildinni upp á þegar lið mæta á Ólafsfjörð.

Í ljósi sögunnar
Horfum fyrst í baksýnisspegil, því þar leynast lærdómar. Ef staðan eftir 17 umferðir síðustu fimm ár er skoðuð, þá er reglan að neðstu tvö liðin á þeim punkti enda með að falla. Þetta hefur alltaf gengið eftir, ef Covid-árið 2020 er tekið frá, þar sem Völsungar björguðu sér með ótrúlegum endaspretti og síðustu tveimur umferðunum í mótinu var slaufað.

Meðalstigafjöldi stiga neðsta liðsins síðustu fimm ár eru tæplega átta. Reynir er reyndar með 11 stig, en sagan segir að þeir séu fallnir. Næst neðsta liðið hefur að meðaltali verið með 12 stig, en KF eru með 15 nú. Þó að þessi 15 stig Fjallbyggðinga væru færð á önnur ár, þá væru þeir samt í fallsætinu. Það mesta sem fall-lið hefur verið með eftir 17 umferðir er þegar Víðir féll 2021 og voru búnir að safna 16 stigum á þessum tímapunkti. Deildin í ár er jafnari en fyrri ár, bæði á toppi og við botninn. Það þarf enga tölfræði til að segja okkur það, leikirnir eru nánast allir fáránlega jafnir.

Áhugavert er að taka stigin 19 sem Kormákur Hvöt er með nú og færa þau á fyrri ár. Völsungur, sem í dag eru 2. sæti deildarinnar, voru með 19 stig eftir 17 umferðir í fyrra. ÍR, sem í dag spila í Lengjudeildinni, voru með 20 stig eftir 17 umferðir í hitteðfyrra. Bæði lið byggðu á þessari stigasöfnun til að eiga mikið betra tímabil árið eftir, svo þetta segir okkur að Kormákur Hvöt þarf bara að ákveða hvað á að gera næst.

Staðan nú er svona:
Kormákur Hvöt er með 19 stig, Ægir er með 18 stig, KFG er með 17 stig. Svo líða tvö niður í KF sem eru þá með 15 stig. Neðstir og í verstu stöðunni eru þá Reynir með 11 stig, sem gerir þá sex stigum frá því að bjarga sér og með afar slaka markatölu.

Þumalfingurregla upp- og niðurferða úr deildum hefur oft verið að ef fjöldi leikja sem eftir eru og stigamunur á milli liða er jafn, þá sé bilið ekki brúað. Reynir er nú sex stigum frá öruggu sæti og fimm leikir eftir. Lokum þeirri möppu og snúum okkur að næsta.

Við ætlum að dæma Reyni Sandgerði niður í 3. deild þaðan sem þeir komu með okkur í fyrra. Sem er synd, því að þetta lið ætti að hafa allt til að bera í bardagann á þessu leveli. En það hafa svo sem mörg önnur lið og einhverjir þurfa að falla.
Spá: Þeir vinna einn heimaleik og ekki meir – 12. sæti

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar hefur gert grín að íslensku knattspyrnusamfélagi í sumar með því að bjóða upp á óleikhæfan völl, sem KSÍ hefur ekki þorað/nennt/getað/viljað taka á. Ólafsfjörður bauð eitt sinn upp á lið í Evrópukeppni, en það sem undir þess fótum var á ekkert skylt við sífrerann sem þarna er í dag. Þessi barbabrella hefur skilað KF líflínu í baráttunni. Í síðustu fimm heimaleikjum hafa þeir sigrað fjóra og jafnteflt í einum. Þrettán stig af þeirra 15 í sumar hafa sumsé komið í síðustu fimm leikjum á ónýtum velli út við ysta sæ. Okkar lukka var að mæta þeim í fyrsta heimaleik þar sem þeir voru nauðbeygðir til að spila á Dalvík. Við unnum þá 0-3.

Sem betur fer eiga þeir bara tvo heimaleiki eftir í sumar og ekki er útivallagengi þeirra upp á nokkurn fisk. Engin sigur í átta leikjum.
Spá: Þeir vinna báða leikina sem þeir eiga eftir á leirvellinum á Ólafsfirði – 9. sæti

KFG hafa orðið fyrir einhverjum skakkaföllum, misst menn á sjó og fyrirliðinn fór í ÍBV í glugganum. Við þá lékum við liðna helgi og má segja að þetta sé mesta gervigraslið landsins, eða allavega deildarinnar. Gögnin styðja það. KFG hafa leikið fimm leiki á alvöru grasi í sumar og unnið engan. Eitt jafntefli.

Leikirnir sem þeir eiga eftir eru þrír á útivöllum, tveir af þeim á grasi. Þar af annar gegn sennilega föllnum Reynismönnum í lokaumferðinni. KFG er erfiðasta liðið að lesa af þessum fimm. Þeir spila góðan bolta, en einhvern veginn snýst hann svolítið um að senda hingað og þangað og leiðin að markinu er eitthvað flækt. Það var gríðarlega gaman að fá þá í heimsókn á Blönduós, skemmtilegir fírar í kringum liðsstjórn – en sennilega eru þeir með leiðinlegustu áhangendur deildarinnar. Fúkyrðaflaumandi fauskar og fúlmenni.
Spá: KFG fá eitt stig í viðbót í þessum fimm leikjum og markatala ræður hvort þeir falli – 10. sæti

Ægir féllu úr Lengjudeildinni í fyrra eftir að hafa eiginlega ekki átt að fara þangað árið áður. Í ár eru þeir í hættu á að fara aftur niður ef þeir ná ekki að raða spilunum sínum í rétta röð. Þeir hafa tapað átta af síðustu níu leikjum sínum. Þeir koma á Blönduós á miðvikudaginn þar sem þeir VERÐA að ná úrslitum, enda bíða þeirra í síðustu þremur leikjunum liðin sem í dag eru í 1., 2., 3. og 5. sæti deildarinnar. Eiga eftir að fara austur á firði og klára mótið á nágrannaslag gegn toppliði Selfoss.
Spá: Ægir fá ekkert stig í viðbót og falla á markatölu. – 11. sæti

Ofurtölvan skilaði nákvæmum stigafjölda liða í botnbaráttunni og úrslitum allra leikja. Henni höldum við þétt að okkur í bili í samstarfi við Lengjuna, en hér fyrir ofan má sjá rauðu þræðina. Um Kormák Hvöt má það segja að við erum á þeim stað sem við viljum vera, þó að úrslit hér og úrslit þar hefðu mátt fara öðruvísi. En örlög okkar hvíla í húnvetnskum höndum, sem er nákvæmlega eins og í fyrra þegar við sýndum okkar andlega styrk og káruðum málið. Það ætlum við og ætlumst til að við endurtökum í ár!

Leave a Reply