Komdu og skoðaðu í kistuna mína

Á fallegu Suðurnesjakvöldi lögðu svartklæddir Kormáks Hvatar menn leið sína á landsenda í Sandgerði með þá von í hjarta að fjarlægja sig frá Reynismönnum í neðri hluta 2. deildar. Þessi tvö lið börðust hatrammlega í 3. deildinni í fyrra, þar sem bæði komust upp. Eftirminnileg var þessi sama rimma, þar sem uppúr sauð eftir leik, þegar löglegt jöfnunarmark var tekið af okkur í uppbótartíma. Reynir vann 3. deild og við lentum í öðru sæti.

En nú er 2024 og liðin berjast neðarlega í 2. deild eins og nýliða er oft siður. Í fyrri leik liðanna á „heimavelli“ okkar á Dalvík sigruðu þeir Reynismenn 1-3, svo tími var kominn á tvöfalda hefnd.

Lið okkar var þannig að Uros var á sínum stað í markinu, Sigurður Aadnegard kominn í hægri bak og Papa færðist í miðvörð í bann-fjarveru Sergios. Acai fyrirlið stóð sína plikt og Mateo í vinstri bak. Miðjan var Siggi Pétur, Goran og Ingvi á meðan kantana mönnuðu Kristinn Bjarni og Jón Gísli. Fremstur svo Artur.

Skemmst er frá því að segja að leikurinn var okkar frá fyrstu mínútu. Reynismenn eru í tilraunaeldhúsi staddir virðist vera. Alberto (miðvörðurinn stæðilegi sem lék með okkur í fyrra) var á miðju, bakvörðurinn sterki Hubert kominn á kantinn og miðjumaðurinn Keston George í hafsent. Þetta virkaði í síðasta leik, þar sem Reynir stal sigri af Ægismönnum á 95. mínútu, en í þessum leik nýttum við okkur heimavinnuna og læstum á þá strax.

Miðverðirnir Acai og Papa voru silkirólegir á boltanum og létu hann malla sín á milli, án sýnilegrar hápressu heimamanna, kantmennirnir Jón og Kristinn gerðu aftur og aftur vel í að komast inn fyrir sína bakverði og valda ursla. Ingvi og Artur svissuðu sér í framherjahlutverkið og reyndu að finna glufur til markskota, án umritanlegs árangurs.

Fyrri hálfleikur: Kormákur Hvöt við stýrið, Reynir fengu horn eftir horn án þess að finna glufu á járntjaldinu sem Uros, Siggi, Acai, Papa og Mateo slógu upp.

Í hálfleik kom Ismael inn fyrir Ingva og Artur færði sig í holuna margfrægu. Kormkaur Hvöt herti tökin og Reynismenn áttu stöðugt minna í leiknum. Fóru að einbeita sér að leiklistinni og fiskeríi.

Siggi Pétur setti á svið stórleik í seinni hálfleik. Langt er síðan Aðdáendasíðan varð vitni að annarri eins frammistöðu í einum hálfleik eins og í gær, þar sem akkúrat ekkert fór framhjá honum, en vörn Reynis klofnaði eins og Rauða hafið þegar hann fór fram á við. Maður leiksins að liðsheildinni ólastaðri!

Gústi kom inn fyrir Sigga Aadnegard eftir rúman klukkutíma, en kraftur og drífandi Aadnegards var kærkomin sprauta í leikinn, gott að fá hann til baka úr langvinnum meiðslum og nauðsyn fyrir þá mikilvægu leiki sem framundan eru. Hann var góður í leiknum.

Á 68. mínútu kom svo sigurmarkið. Papa lék listir sínar úti á kanti og setti boltann fyrir. Goran náði þar að vinna úr frákasti og koma boltanum strax á Artur sem var á hinum frægða auða sjó utan teigs og lét vaða á markið. Heppnin var með okkur þar sem boltinn breytti um stefnu af varnarmanni Reynis og lak í hægra hornið á slow motion. 0-1 fyrir Kormák Hvöt og það fyllilega verðskuldað.

Annað sinn í sumar sem Artur skorar á Suðurnesjum, en aðdáendur muna glöggt eftir sigurmarki hans í öðrum 0-1 sigri gegn Þrótti í Vogum fyrir mánuði eða svo.

Þarna vöknuðu Reynismenn örlítið, en gæðin í varnarleik okkar voru það mikil að þeir áttu aldrei mölla.

Leiknum sigldum við heim og ef eitthvað var þá hefðum við getað bætt við. Viktor Ingi kom inn fyrir Kristinn Bjarna þegar um korter af leiktíma var eftir og færði ró yfir miðjusvæðið með réttum sendingum og staðsetningum. Anton Tryggva kom svo og tók uppbótartímann og hefði getað sett mark á lokaandartökunum ef vel hefði verið.

Sigur á svo mikilvægum tímapunkti gefur vel. Næst er það Fjallabyggð á Unglistarleiknum og þá rimmu ÆTLUM við að vinna. Bjóðum hverjum sem er að koma og skoða í kistuna okkar, sem er að eflast með hverjum leiknum og von á mönnum úr meiðslum hvað úr hverju.

Uros steik ekki feilspor í markinu og gerði vel í að róa leikinn þegar þurfti. Vörnin var æðisleg með Acai eins og Paolo Maldini á boltanum og Papa við hans hlið með sennilega besta leik sinn í sumar. Mateo er hægt og bítandi að verða einn af uppáhalds leikmönnum Aðdáendasíðunnar með hraðabreytingum sínum, einföldum leik og ákvörðunum sem leiða til góðra verka. Áður var vikið að krafti og orku Aadnegard í hægri bakverðinum, sem kom á hárréttum tíma í þennan leik.

Á miðjunni var Goran mjög góður. Einfaldari aðgerðir en oft áður og hjartað í uppspili Kormáks Hvatar. Siggi Pétur var eins og áður sagði frábær og lokaði á allt sem þurfti að loka. Ingvi vann vel í fyrri hálfleik og Ismael kom með þennan sprengikraft sem hefur kannski vantað uppá í sumar fram á við. Þegar hann er kominn í takt við leikinn og liðið þá er von á góðu. Kristinn Bjarni var lúsiðinn á kantinum og gaf bakvörðum heimamanna ekki tommu eftir í kósíheit og Jón Gísli gerði oft á tíðum vel hinum megin. Artur átti svo einn af sínum betri leikjum í sumar, sérstaklega í seinni hálfleik þegar hann droppaði í holuna og Ismael fór fram. Hann veit hvernig boltinn rúllar og hvað þarf að gera til að loka leikjum.

Allt í allt – sigur liðsheildarinnar og gríðarlega mikilvæg þrjú stig heim í hérað. Nú er böfferinn niður á hættusvæði orðinn sjö stig, sem er gríðarlega gott eftir að við náðum aðeins í eitt stig í síðustu þremur leikjum gegn þremur efstu liðum deildarinnar.

Áfram og upp!

Leave a Reply