Kormákur Hvöt leikur í sumar í fyrsta sinn í C-deild íslensks fótbolta eins og margumtalað og tíðrætt er orðið. Liðið hefur skotist upp metorðastiga fótboltans og vakið gríðarlega athygli. Umsjónarmenn annarra liða skilja einfaldlega ekki hvernig við förum að þessu. Án innviða, án undirbúningstímabils, án mannfjölda á borð við liðin sem við erum að keppa við. Formaður KSÍ hváði þegar hann heyrði af því hvernig við værum að keyra þetta áfram. Formenn hinna liðanna klóra sér í hausunum.
Aðdáendasíðan hefur verið með eindæmum pistlalöt undanfarið og verið meira í jóga. Hluti af ástæðunni er að leikirnir hafa verið svo spennandi að fréttaritarar hafa verið sprungnir á limminu þegar heim er komið. En nú er kominn hálfleikur í 2. deildinni 2024 og því vert að rýna í spilin.
Fyrir mót fréttist frá hinum svokölluðu sérfræðingum að okkar lið væri nú ekki til brúks og undantekningarlaust var því spáð í botnleðjuna. Þjálfarar liðanna í deildinn fengu að góna í kristalskúluna og af þeim 11 sem heita ekki Ingvi Rafn Ingvarsson spáðu níu þjálfarar okkur neðstum. Hinir tveir sögðu að við myndum lenda í 11. sæti.
Við ljúkum fyrri umferð 2. deildar í ár sjö sigum og þremur sætum frá þeirri bölsýn sem borin var okkur á höfuð fyrir mót – neðsta sætinu. Höfum samkvæmt sömu spádómum komið næst mest allra liða á óvart, utan Völsunga sem sitja í 4. sæti en spáð því 9.
Þeir einu sem Kormákur Hvöt hefur ekki komið á óvart er Kormákur Hvöt, leikmenn, aðdáendur liðsins og umráðamenn. Við vitum alveg hvað við getum og við vitum hvað við eigum inni. Ekkert lið rúllar yfir okkur. Jú, höfum tapað leikjum eins og flest lið gera, en enginn tepleikur hjá okkur þeirra er meðal stærstu tapa sumarsins í 2. deildinni.
Lið í deildinni hafa tapað 4-0 og 5-0 og 7-3 og allskonar. Sjö leikir í deildinni allri hafa tapast liðum með fleiri en þremur mörkum. Hversu marga af þeim eigum við? Engan, því við látum ekki rassskella okkur.
Vörnin okkar er frábær. Bara uppferðarliðin tvö hafa fengið á sig færri mörk en við.
Uros hefur fjórum sinnum í 11 leikjum haldið hreinu, sem er einum leik færra en allt árið í fyrra. Sergio hefur komið inn eins og brimbrjótur í norðursjó og betri skallamann er erfitt að finna í deildinni. Acai fyrirliði eldist eins og rauðvín og ræðst á allt í landhelgi á meðan Mateo er að spila enn betur en í fyrra – ef það var þá hægt.
Sóknarleikurinn hefur verið stífari en vörnin, en Aðdáendasíðan hefur fulla trú á að það lagist. Þegar allir eru heilir og bannlausir þá erum við með álitlegan hóp. Það að okkar markahæsti maður sé með tvö mörk segir margt, en ekkert lið hefur skorað færri mörk. Okkur vantar bara einn þriggja marka leik og þá eru þeir hlekkir brotnir!
Við höfum notað 26 leikmenn í sumar. Af þeim eru 13 sem hófu sína ferla í Kormáki eða Hvöt sem pjakkar. Bætum þar við Gústa sem hefur spilað með okkur í fimm ár, Ingva sem er á sínu TÓLFTA tímabili með Kormáki Hvöt. Acai fyrirliði er svo kominn með húnvetnska kennitölu og þessa teljum við með sem heimamenn. Það er ansi vel gert verðum við að segja.
Þegar öllu er á botnin hvolft þá er Kormákur Hvöt að standa sig drullu vel. Þumalputtareglan í deildarkeppninni hefur verið að krækja í eitt stig í hverjum leik og þá ertu safe. Kormákur Hvöt er með 12 stig eftir 11 leiki og á pari. Framundan eru gríðarlega spennandi og mikilvægir leikir í júlí og þá sérlega á móti Reyni frá Rosmhvalsnesi á útivelli og svo K.S./Leiftri á Unglistarleiknum. Tökum þá og þá leggjum við Karþagó í eyði.
12 stig í 11 leikjum Kormáks Hvatar er á pari árangur K.R. í Bestu deildinni eftir jafn marga leiki í ár og Reykjavíkur Þróttar og Keflavíkur í Inkassó deildinni. Hefðum við tekið því fyrir mót? Já er svarið. En svarið er líka að við eigum helling inni. Við erum að sigla inn í seinni hálfleik deildarinnar hafandi sýnt að við getum gert öllum skráveifu. Við erum ekki botnfóður deildarinnar og erum ekki að fara að enda með 9 stig eftir leiktíðina eins og botnlið síðasta árs.
Við eigum fimm heimaleiki eftir og við ætlum að gera allt vitlaust á þeim öllum. Blönduós og Hvammstangi eru beðin um að skipta upp um gír og minna landsmenn og knattspyrnusamfélagið á að þangað koma engin lið og keyra hlæjandi burt með þrjú stig í skottinu, frekar heldur með öngulinn í rassinum.
Áfram Kormákur Hvöt – nú hefst seinni
hálfleikur tímabilsins – allir saman nú!