Greinilegur púls

Leikskýrslan á ksi.is

Þróttur í Vogum á Vatnsleysu var heimsóttur á fallegum sumardegi 23. júní 2024. Fallegur var hann allavega út um glugga landsmanna, þó rysjan væri eilítið meira ótt utandyra. Fyrir leik sátu liðin á svipuðum slóðum um neðanverða miðja deild, bæði þó taplaus í sínum tveimur síðustu leikjum.

Heimamenn eru spjaldahæsta lið 2. deildar í sumar og öll vitum við hversu hart okkar menn leika. Því var von á greinilegum púls hjá heima- og aðkomumönnum. Sem varð og raunin.

Vindur blés glatt úr einhverri áttinni í flas Húnvetninga í fyrri hálfleik. Vatnsleysungar fengu ein 10 horn á fyrsta hálftímanum, en Uros okkar Duric reyndist þeim Þrándur í Götu hinn mesti. Greip allt sem grípa þurfti. Fyrir framan hann stóðu sem fyrr Hvítserkirnir tveir Acai og Sergio. Engum er öfund sem þann múr þarf að þreyta, enda þeir félagarnir búnir að vera eins og ítalskir hafsentar á öndverðum níunda áratugnum það sem af er móti. Í vinstri bak var kominn aftur Mateo og hinum megin Papa. Þessir fimm menn hafa nú staðið þrjá leiki í röð án þess að fá á sig mark.

Vörnin er einfaldlega hrikalega góð.

Veitingarnar á Vogavelli voru ekki upp á marga fiska. Lakkrísinn grár ef elli.

Á miðjunni hömuðust svo Jorge, Siggi og Goran eins og í akkorði. Baráttan var mikil og oft mátti ekki sjá hvort dómarinn hreinlega væri ennþá á svæðinu. Sérstakt rannsóknarefni er svo hversu víðfemt skotleyfið á Goran virðist vera. Andstæðingar mega sparka hann sundur og saman, hvort sem er með bolta eða án. Það er kraftaverki næst að maðurinn geti yfir höfuð gengið eftir at eins og í dag.

Kantmenn voru Jón Gísli og Kristinn Bjarni, óþreytandi að bera boltann upp og skjótast til baka í aðstoð við vörnina. Fremstur stóð Ingvi þjálfari gegn tveimur bergþursum í hinna liði. Án gríns þá voru þeir báðir rétt sunnan við tvo metrana.

Vogamenn lágu á Húnvetningum bróðurpart fyrri hálfleiks. Tvö færi fengum við. Jorge skóflaði bolta yfir markið úr ágætri stöðu og svo var varið á línu frá Sergio eftir horn. Sóknarskeinur heimamanna voru ekki markverðar, en þó varði Uros einu sinni eða tvisvar mjög vel.

Seinni hálfleikur kom eins og vorið á vængjum út yfir flóann. Áfram barist. Áfram tuðað í dómaranum og áfram var það vindurinn sem stýrði leiknum að vissu leiti. Og áfram minntu Þróttarar á þreskivélar þegar þeir óðu í Goran.

Artur kom ferskur inn fyrir Ingva eftir um klukkustund, en rétt þar á undan var Ingvi einu enni frá því að skalla okkur í forystu eftir góðan kross frá Goran. . Hann er gríðarlega vel gefinn þegar kemur að kollspyrnum, sem nýttist vel við að koma liðinu upp völlinn. Kristinn Bjarni vék fyrir Viktori í tilraun til að þétta miðsvæðið og fá hnitmiðaðra spil. Á þessum tímapunkti var áþreifanlegt að Kormáks Hvatar-menn voru með trú. Með vindinn í bakið varð uppspil auðveldara og ekki sýndi vörnin á sér nokkurn einasta feilpunkt.

Sýnið okkur þokkafyllri varamannabekk á Íslandi. Við bíðum.

Jón Gísli og Mateo voru þarna eins og þeir væru að spila fyrstu 10 mínutur leiksins, en ekki þær síðustu. Þustu upp og niður kantinn og voru hinum erfiðir. Jorge óx ásmeginn eftir því leið á leik og barðist eins og ljón. Anton Einar kom inn með ferska fætur í stað útsparkaðra leggja Gorans, sem lagðist örendur á bekkinn. Hafði þó afl til að fá gult spjald af bekknum skömmu síðar.

Á 89. mínútu kom svo rúsínan í pylsuendanum. Mateo hinn þindarlausi óð upp vinstri kant án þess að nokkur mætti honum af viti. Ofar og ofar. Allt í einu kominn inn í teig og enn engar varnir. Fyrir fór ljúfur bolti og við enda hans eins og sýnt í hægri endursýningu beið Artur Bilecki sem stýrði knettinum fumlaust í netið. Staðan 0-1 fyrir Kormák Hvöt og ein mínúta eftir af venjulegum leiktíma!

Það er ljúft yfir lautarferð sem endar á winner á 89. mínútu!

Sá venjulegi leiktími reyndist svo teygjast mjög áfram, allavega í augum áhorfenda á bandi bleikliða. Gott ef aukamínúturnar urðu ekki minnst fimm. Eða meira. Áfram reyndu heimamenn að komast áfram, en því mátti gleyma. Þess í stað voru norðanmenn nær því að bæta við. Anton fann sig allt í einu einn gegn markmanni, en náði ekki að setjann. Jón Gísli teygði á uppbótarmínútunum með því að komast upp í horn og Viktor gerði slíkt hið sama. Í djúpum viðbótartíma fengu Þróttarar svo aukaspyrnu sem ekkert varð úr, leiktíminn úti og stigin þrjú á leiðinni norður!

Margt má taka úr frammistöðu dagsins. Liðið er eins og köggull sem erfitt er að brjóta. Vörnin er gersamlega frábær þessa dagana og höfum við ekki fengið mark á okkur í síðustu þremur leikjum. Í átta leikjum sumarsins erum við búnir að halda hreinu í helmingi leikjanna. Artur Bilecki er laus úr markaþurrðinni sem hefur hrjáð hann í upphafi leiktímabils, eftir að hafa verið mjög öflugur á undirbúningstímabilinu.

Allt þetta er frábært. Einnig að við sitjum nú í efri hluta deildarinnar, með 11 stig úr átta leikjum. Sólin skín á Húnaþing.

Næstir á matseðlinum eru Völsungar frá Húsavík næsta föstudag.

Aðdáandi Kormáks Hvatar fagnar sigrinum fyrir leik. Sá reyndist sannspár!

Leave a Reply