Eftir rigningu, myrkur og meinlega skugga undanfarinnar viku rofaði til í Húnaþingi í dag. Gular og dökkgular veðurviðvaranir véku, sól sást. Geðslag okkar alþjóðlegu leikmanna sömuleiðis, enda hefur ekki verið til borðs bjóðandi framboð lægða og hnjúkaþeys undanfarið.
En nóg af veðri, eða næstum. Þegar vallarvísindamenn Húnaþings mættu til útgás í morgun var ekki eins og 8. júní væri kominn á dagatalið. Pollar tengdust pollum á Blönduósvelli og þeirra á milli minnti hann á mýri. Tíðin hefur vissulega verið rysjótt, en þegar gamli góði Kári tók að blása þá þornaði fljótt í þessu.
Alltént þá gengu bæði lið Kormáks Hvatar og KFG frá Garðabæ inn á völlinn á slaginu 14:00 og dómaratríó fylgdi þeim. Leikur á!
Þó ekki hafi verið mikið fjallað um það, þá er KFG síðasta lið sem sótti á Húnvetninga og náði þremur stigum með sér af okkar heimavöllum. Það var í september fyrir tveimur árum, en Aðdáendasíða Kormáks hefur farið hljótt með þá staðreynd í aðdraganda leiksins í ótta við að jinxa leikinn. Nú má tala um það og jafnframt erum við ósigrað lið í 13 heimaleikjum í röð.
KFG er mjög gott lið, en það mátti sjá snemmdægurs að þeirra er ekki að spila á þungum norðlenskum grasvelli. Háar og gylltar gervigrashallir Garðabæjar eru þeirra forte. Liðið er vel spilandi og lá á okkar liði löngum í dag, en til að sigra í knattspyrnuleik þarf að skora mörk. Það var ekki í boði í dag, þar sem varnarmúr Norðurlands vestra var mættur. Í gegnum hann fer ekki margt og það fáa sem það gerir stoppar á Uros Duric. Í dag var það hann sem sigldi sigrinum heim, þó að við getum talið upp 10 manns úr byrjunarliðinu sem áttu næstum jafn góðan dag og hann. Í þrígang varði Urosinn einn gegn sóknarmanni (eða tvígang, munum það ekki) og svo má á það minnast að hann varði víti í fyrri hálfleik. Ekki í fyrsta sinn sem Uros ver víti og ekki það síðasta. Sannkallaður gullkálfur.
Varnarlínan var örlítið breytt, þar sem Mateo var fyrstur okkar manna til að koma sér í gulspjaldrabann þetta sumarið. Papa færði sig yfir í vinstri bak og Gústi hinn þindarlausi kom í hægri bakvörðinn og spilaði eins og engill. Sennilega hefur hann hlaupið yfir Þverárfjall og heim á Krókinn eftir leikinn til að bæta aðeins í þá sirka 15 kílómetra sem hann lagði undir fót á 90 mínútum. Hafsentar voru sem fyrr þeir Acai fyrirliði sem heldur áfram að eiga frábært tímabil og svo Sergio sem við ætlum að segja að sé besti hafsentinn í deildinni.
Miðjan var eins og í undanförnum leikjum. Jorge með Goran og Sigga Pétri höfðu hemil á sköpunartilburðum gestanna og börðust allir vel. Goran játaði í stuttu viðtali við Aðdáendasíðuna eftir leik að hann hefði ekki verið jafn þreyttur í langan langan tíma og eftir þennan leðjuslag. Hann var góður í dag og sá munaður sem liðið hefur með hans leikreynslu og knattspyrnuheila verður seint vanmetinn. Kantmennirnir knáu Atli og Jón Gísli voru líflegir og ollu bakvörðum Garðbæinga hugarangri lon og don.
Frammi barðist svo Kristinn Bjarni og hélt bolta vel í uppspili bleikra.
Mark heimamanna kom eftir horn. Í leiknum voru sennilega um 30 horn, sem skiptust næsta jafnt á milli. 28 þeirra urðu vindinum að bráð, annað hvort á of stuttan veg eða of langan. Á leikmínútu 28 kom horn frá Húnaflóasíðu vallarins, þegar Jorge Garcia flengdi boltanum á fjær. Gott ef hann small ekki í slá en þaðan fór hann niður og Acai fyrirliði mannhöndlaði varnarmann KFG yfir línuna og boltann með. Markið skráð sem sjálfsmark, en það var kraftur og elja kanaríska kraftsentsins Acai sem skapaði þetta. Verðskuldað og gott.
Nokkrum mínútum seinna var dæmt víti á Gústa fyrir handleiðslu knattarins. Við það tilefni kvað hirðskáld Aðdáendasíðunnar, Óli frá Tóftum eftirfarandi;
Bolti í hönd og hönd í bolta.
Hvenær er skýrt hjá dómara stolta?
Er fært alla helgina um heiðina holta?
Hann Uros ver eins og áin Volta.
Óla rataði þarna réttir ljóðstafir á munn, þar sem Uros breiddi úr sér eins og áin Volta, sem eins og lesendum er kunnt í vestur Afríku, og ekkert varð úr vítspyrnunni. Miðað við skort á mótmælum – sem þó er oftast ekki meðal leikmanna Kormáks Hvatar – þá var þetta sennilega bara rétt. Skoðanakönnun í heita pottinum endaði 1 atkvæði með víti og 2 á móti. En í enda dags skipti það öngvu, enda unnum við.
Leikurinn var vel upp settur, við vörðumst djúpt og nýttum okkur hraða kantmenn þegar færi gafst. Ef eitthvað má setja út á er það að fótbolti á að vera hin einföldu og tæru vísindi, þar sem boltinn talar sitt móðurmál best þegar hann er sendur hratt á milli manna. Jú, völlurinn var þungur, en á köflum var of mikið dúllerí og fintusýningar. Senda boltann eins fljótt og auðið er takk.
Dómarinn var frábær. Hann dæmdi andskotann ekki neitt og þannig á að hafa það. Menn hentu sér í tæklingar hér og þar og ekkert dæmt sama hvort það voru bleikir heimaskór eða hvítir aðkomu.
Nú er Kormákur Hvöt klæddur og kominn á ról. Stöngin inn í dag og við fjarlægjumst hægt og rólega kviksyndi fallbaráttunnar. Þó má lítið útaf bera, en það eru sigrar í svona sex stiga leikjum sem öllu máli skipta. Næst á dagskrá er heimsókn í Þottlákshöfn í leik gegn Ægi sem sennilega mun fara fram föstudaginn 14. júní.