Spáðu í mig

Leikskýrslan á ksi.is | Textalýsing á fotbolti.net | Leikurinn á YouTube

Kormákur Hvöt þreytti frumraun sína í 2. deild karla á sólríkum laugardegi á Selfossi í dag. Fyrir leik voru væntingar heimamanna sennilega í þá átt að hér væri þægilegasta byrjun á móti sem þeir hefðu getað óskað sér – en annað átti eftir að koma á daginn.

Selfoss er ekki beint sofandi risi í íslenskri knattspyrnu, en hafa sett sitt mark á hana með uppeldri góðra leikmanna. Viðar Örn, Jón Daði Bö og Dagga Brynjars eru öll landsliðsmenn fyrrverandi/núverandi, en meistaraflokkslið klúbbsins hafa bæði leikið í efstu deild í ekki svo fjarlægri fortíð. Í fyrra féllu þau reyndar bæði úr sínum deildum á óvenjulega slöku knattspyrnusumri fyrir Sunnlendinga. Karlalið Selfoss féll á markamun á síðasta degi síðasta keppnistímabils úr næst efstu deild.

Eins og flestir muna þá fór lið Kormáks Hvatar upp um deild á sama degi og því voru hér að mætast liðin sem fóru upp og niður.

Upplegg okkar manna var ljóst frá fyrstu mínútu. Leyfum Selfossi að vera með boltann og verjumst þétt. Í markinu var hinn ungi Snorri Þór, en þrír af varnarmönnunum fyrir framan hann eru leikmenn sem léku í fyrra. Papa í hægri bak, Mateo í vinstri bak og Acai bar fyrirliðabandið sem hægri miðvörður. Nýr með honum í hafsent var hinn portúgalski Serginho.

Á miðju voru Sigurður Pétur og Jorge Garcia, báðir nýjir í bleiku þó að Siggi hafi leikið með okkur áður. Á köntum voru Jón Gísli og Atli Þór og svo skiptu þeir Kristinn Bjarni og Artur með sér sóknarleiknum.

Í allt sex ný andlit í byrjunarliði frá í fyrra.

Kormákur Hvöt sat, eins og áður sagði, þétt aftarlega á vellinum og gáfu engin færi á sér. Bókstaflega, því Selfyssingar fengu núll stykki af færum í fyrri hálfleik. Í raun var það svo að eina færi fyrri hálfleiks féll okkur í skaut þegar Ingvi Rafn tók boltann smekklega niður og kom á Jón Gísla sem þræddi boltann á Atla. Því miður þá fór skot hans í arma markmanns Selfyssinga.

Jorge Garcia og Siggi Pétur voru að tengja mjög vel á miðjunni og ljóst að samvinna þeirra í sumar á eftir að verða blómleg ef spilast rétt úr. Fyrir aftan þá áttu miðverðirnir Acai og Sergino nær óaðfinnanlegan leik. Acai kastaði sér fyrir allt sem hreyfðist og Sergino er naut að vexti, en þó með lipra tá. Sá á eftir að reynast Kormáki Hvöt vel í bardögum sumarsins. Mateo hélt einnig upp sama dampi of frá í fyrra, spilaði stórvel í leiknum.

Í síðari hálfleik spilaðist leikurinn svipað og sá fyrri. Við fengum nokkrar vænlegar stöður sem ekki spilaðist rétt úr, en Selfoss fékk eitt færi þar sem Gonzalo Zamorano gerði vel, snéri af Papa og setti boltann í netið.

Eftir þennan leik höfum við aðdáendur ekkert annað að segja en að við getum borið höfuðið hátt. Liðið stóð sig frábærlega, en vantaði slagkraft fram á við til að klára dæmið. Við reyndum stöðugt að sækja á Selfoss, ekki síður í seinni hálfleik en þeim fyrri. Atli var margoft tekinn niður en fékk sjaldnast eitthvað fyrir sinn snúð. Eins virtust bakhrindingar vera orðið þjóðarsport Ölfuss á tímabili, en dómarinn var ekki að tengja jafn sterkt við að þetta væru jú leikbrot eins og aðdáendasveit norðanmanna.

Mótið hvorki vinnst né tapast í þessum leik. Það sem þessi leikur sýnir hins vegar er að Kormákur Hvöt er alvöru og lætur ekki hrakspár utanfrá hafa áhrif á sig. Endilega spáið bara í okkur, við munum gefa öllum leik og verðum bara sterkari þegar liðið er búið að ná að spila sig saman. Skemmst er þess að minnast að þrír af okkar erlendu leikmönnum komu til landsins á síðustu tveimur vikum, Siggi Aadnegard og Benni voru ónotaðir varamenn, Goran og Uros að afplána síðustu leiki sína úr leikbönnum árins 2023 og okkar vopnabúr á bara eftir að þenjast út.

Næsti leikur er gegn Reyni frá Sandgerði fyrir norðan. Þeir töpuðu sínum fyrsta leik og verða eflaust með blod på tænderne þar.

Áfram Kormákur Hvöt!

Leave a Reply