(Hugboð um) vandræði

Leikskýrslan á ksi.is

Sunnudaginn 14. apríl lagði lið Kormáks Hvatar leið sína á sinn minnst uppáhalds völl í heiminum. Fífan í Breiðablikshverfi var áfangastaðurinn, völlur sem lyktar illa, lýsingin óþægileg og alltaf svívirðilega heitt. Enda rekur okkur ekki minni að hafa unnið þarna ever. Já vínberin geta verið súr í Mjólkurbikarnum.

En fótbolti er spilaður þarna og ellefu manns í hvoru liði. Áfram gakk.

Uros var á sínum stað í markinu, en varnarlega voru fáir á sínum stað. Hægri bakvörður var Ísak, honum við hlið Ingvi í fyrsta sinn á ævinni í hafsenti og Papa tók vinstri bakvörðinn. Sumsé Acai á sínum stað, Papa öfugu megin og tveir sem vanari eru að vera í þjálfaraúlpunum skipuðu restina af vörninni.

Á 9. mínútu gerðu okkar menn vel og prjónuðu sig einfalt í gegn. Artur fann Papa með frábærri sendingu inn fyrir flata vörn heimamanna og Papa kláraði vel í fjærhornið. Staðan 0-1 og ljúft að vera til.

Fljótlega dró þó ský fyrir sólu, ef einhver ský væru sjáanleg í Fífunni. Goran missti boltann hátt upp á vellinum og Augnablikar voru leifturfljótir að koma sér í sókn og skoruðu örugglega. Augnablikar óðu í færum næstu mínúturnar en inn fór knötturinn eigi. Á rúmlega 30. mínútu skoruðu þeir svo aftur þar sem illa var farið með haltan Ísak í hægri bak. Upp vöknuðu hugboð um vandræði

Það sem eftir lifði hálfleiks vorum við heppnir að fá ekki á okkur fleiri mörk. Uros varði, Acai barðist eins og ljón í vörninni og það voru helst okkar yngstu menn sem sýndu tennurnar fram á við.

Í hálfleik kom Theodór inn fyrir Ísak í bakvörðinn.

Afar fljótlega í seinni hálfleik skoruðu Augnablikar 3-1 eftir fast leikatriði sem hefði svo auðveldlega verið hægt að koma í veg fyrir. Allir og amma þeirra sáu að boltinn var að fara á fjær, en þangað fór hann og í gegnum lúffur Urosar. Allt liðið átti þarna að gera betur.

Enn þyngdust norðlenskar brúnir á 53. mínútu. Þá gaufuðu varnarmenn okkar í teignum og einn Augnarinn lúðraði boltanum í bláhornið. Vel gert hjá honum, en illa gert hjá okkur.

Þá féllu öll vötn til Dýrafjarðar. Kormákur Hvöt tók yfir allt á vellinum og gáfu Augnablikum leik. Kristinn Bjarni skoraði enn og aftur, en nú var það eftir snyrtilega vippu frá Benna. Nóg var eftir þá sendingu að gera, en Kristinn hristi af sér varnarmann og kláraði eins og honum einum er lagið.

Game on!

Artur komst í hættulegt færi, sem varnarmenn þeirra vörðu á línu og sennilega fengum við eitt í viðbót. En lengra komumst við ekki. Uros reyndi að sóla sóknarmann á 90. mínútu og það tókst. Þá tók hann annan á og það tókst. En þegar sá þriðji átti að falla, þá var komið gott. Augnablik náði boltanum og skoraði.

Óþarfi og endaði leikurinn þarna, þó nægur væri uppbótartíminn.

Kormákur Hvöt úr leik í bikarnum þetta árið eftir stutt ævintýri. Tækifærið á að fá upp andstæðing úr Pepsí-deildinni úr sögunni og nú snúum við augum okkar að deildinni, sem hefst eftir þrjár vikur.

Sérstaklega vill Aðdáendasíðan hrósa okkar yngri leikmönnum í dag. Jón Gísli var líflegur annan leikinn í röð, Anton Einar barðist frá fyrstu til síðustu mínútu á miðjusvæðinu og Kristinn Bjarni er að verða einn okkar albesti leikmaður. Artur og Kristinn eiga eftir að verða skemmtilegir saman þegar á líður sumar.

Acai var góður í vörninni, sem hljómar einkennilega eftir að hafa fengið á sig fimm mörk. Það var nú samt þannig.

Helst var það okkur til falls að við erum að gera hlutina of flókna. Sendum of seint, skiljum eftir of langt á milli lína og tökum ekki hlaupin inn fyrir.

Örvæntum eigi. Í leikinn vantaði heilan helvítis helling af leikmönnu. Þeir skila sér og þá lítum við vel út.

Leave a Reply