Millilending

Menn klæddu sig vel og sumir dugðu út allan leikinn

Leikskýrsla á ksi.is er hér

Það var ekki kyrrlátt kvöld við fjörðinn, né lá ryðgað bárujárn við veginn þegar Kormákur Hvöt lagði land undir fót og lenti þeim báðum í Þróttheimum í Laugardal í 64-liða úrslitum Mjólkurbikarsins laugardaginn 6. apríl 2024. Það var vindur, það var bert. Áhorfendur leituðu skjóls undan köldum vorgarranum vestanmegin við götótta stúku heimamanna í S.R., sem Halli Ara hefði ekki einu sinni getað reykt á bak við. Kalt var það Klara. Napurt.

S.R. voru gestgjafarnir, en þeir leika í 5. deild Íslandsmótsins, á meðan við Húnvetningar stígum dans í 2. deild. Fyrirfram hefðum við því búist við leik kattar að mús, en S.R.-ingar sýndu að þeir geta spilað bolta – stórir og stæðilegir margir hverjir og stóðu vel í okkur. Svo er það nú þannig að við norðanmenn búum sérlega illa aðstöðulega séð og liðið er staðsett í fimm mismunandi byggðarkjörnum. Við erum bara að spila liðið saman á þessum tíma árs og það er bara þannig.

Fyrstu 10 mínúturnar lékum við boltanum á milli, leyfa mönnum að þukla aðeins á honum. Uros er kominn í markið, sem er fagnaðarefni, en hann hefur ekki spilað neitt í vetur. Sama má segja um Papa, sem kom inn í bakvörðinn hægra megin. Hafsentar voru Acai og Pétur, sem er ungur lánsmaður frá Þór á Akureyri og vinstra megin var svo fyrirliðinn Siggi Aadnegard.

Hægri kantur var Jón Gísli, miðjuna skipuðu Anton Mikaels, Goran og Artur fremstur. Vinstra megin Benni og svo uppi á topp var Kristinn Bjarni, sem er búinn að vera okkar besti maður í vormótunum.

Aðdáendasíðan sór það áramótaheit að tuða minna yfir dómurunum, svo við skulum hafa þetta stutt. Þeir voru svakalega slakir, alveg án línu, slepptu tveimur vítum sem við áttum að fá og einu marki. S.R. fengu líka sitt, furðulegir dómar á þvers og kruss, en bæði lið merkilega yfirveguð með það. Sem er góðs viti eftir hræðilegt sumar í spjaldasöfnun í fyrra.

Aftur að leiknum. S.R. fengu dauðafæri eftir korter, en eftir tæpar 30 mínútur skoraði Kristinn Bjarni fyrsta markið eftir hornaspil frá Benna, sem kom boltanum á Artur og hnoðaði honum innar í markteiginn á Kristinn og yfir línuna. Ísinn brotinn. Hann var svo brotinn meira örskömmu síðar þegar Jón Gísli átti gyllta sendingu inn á teig þar sem Artur beið og stýrði boltanum með kollspyrnu í netið. Ekki síðasta skallamarkið sem hann mun skora í sumar, bíðið bara og sjáið.

Eftir þetta fékk leikurinn í dá og leikmenn hugsuðu til hálfleiks með loppnar klær og frosnar tær. Eftir inni í klefa urðu Goran, Siggi og Benni, en í þeirra stað komu Viktor, Anton Tryggva og lánsmaðurinn Theó. Acai tók við fyrirliðabandinu.

Leið og beið, víti komu og fóru ódæmd, sláarskot tvö. Papa fékk hvíld eftir tæpan klukkutíma og Gústi kom inn.

Í raun var leikurinn allur á 67. mínútu þegar Gústi fékk fyrstu snertingar sendingu upp kantinn frá Theó og setti í sinni fyrstu snertingu fyrir markið, þar sem Kristinn Bjarni beið og slúttaði vel, 0-3. Artur skoraði svo tveimur mínútum seinna, alveg eins og í fyrri hálfleik og game over.

Ef þessir tveir herramenn ætla að tengja svona í sumar, þá eigum við von á góðu. Verulega hreyfanlegir, báðir handfylli í háloftunum og með vinnusemi á við Dirk Kuyt á góðum degi.

S.R. kröfluðu einu marki inn þegar 12 mínútur voru eftir, Arnór Guðjóns kom inn fyrir Artur og á síðustu mínútunni lak annað mark inn eftir að vörnin var komin full langt upp völlinn svona á deyjandi mínútum leiksins.

Þegar allt er talið var þetta ágætt á köflum, en á tíðum var of langt á milli þeirra kafla. Þegar spilinu var leyft að vera einfalt var þetta gull á að horfa. Sérstaklega í þriðja markinu, einnar snertingar bolti og rými vallarins látið njóta sín.

Okkar menn eru á sínu undirbúningstímabili, þegar önnur lið hafa æft saman í allan vetur. Það er bara eins og það er og ekkert nýtt. Við munum styrkjast áfram, eigum von á fleiri leikmönnum inn í hópinn, Ingvi þjálfari kom ekkert við sögu og Sigurður Pétur nálgast endurkomu úr meiðslum sínum. Við kjósum að horfa á leik dagsins sem árangursríka millilendingu í langfluginu sem tímabilið 2024 er. Allt í góðu, ekki komnir á áfangastað.

Sprækustu leikmenn dagsins voru

  • Jón Gísli sem fór hamförum á köntunum. Á tímabili var eins og varnarmenn S.R. væru í eltingarleik við hann, en náðu honum aldrei. Hann var hakkaður niður einu sinni og átti að fá víti og átti eina stoðsendingu.
  • Artur Bilecki skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu. Hann skilur leikinn mjög vel og tengdi miðju og sókn vel. Besti skallamaður í húnvetnsku fótboltaliði síðan Bibbi í Eyjanesi? Við vitum það ekki, en setjum þetta í hugsarann.
  • Kristinn Bjarni var stöðugur þyrnir í síðu Skautafélagsins, gaf sig 100% í alla bolta og skoraði þrennu. Bara tvö af mörkunum töldu af því að tríóið í svörtu fötunum voru eins og þeir voru.

Mögnuð staðreynd dagsins: þetta var fyrsti sigurleikur Kormáks Hvatar í bikarkeppninni síðan árið 2017!

Bjart er yfir bæ og sveit og birtir meira næstu vikur. Næstir bíða Augnablikar, Norðurlandsins forni fjandi, en þeim mætum við í næstu umferð bikarins sunnudaginn eftir viku.

Leave a Reply