Leikskýrsla á KSI.is | Myndasafn frá fotbolti.net | Leikurinn á YouTube
Húnvetningar gerðu sér ferð yfir fjöll og dali laugardaginn 9. september til að læsa hornum við Magna frá Grenivík. Þeirra lið hefur verið á ferðalagi á milli B, C og nú D deilda undanfarin ár, en oft hafa forverar okkar liðs keppt við þá í gegnum tíðina í gömlu 3. deild C, þegar knattspyrnuumhverfið var þess megnugt að halda úti fleiri liðum á landsbyggðinni.
Grenivíkurvöllur leit geysilega vel út í hausnepjunni og heimamenn voru höfðingar heim að sækja. Aðdáendasíðan, sem sendi þrjá af fréttariturum sínum á svæðið, þakkar Grenvíkingum sérstaklega móttökurnar og er því komið hér á framfæri (ef svo ólíklega vildi til að Grenvíkingar séu í áskrifendahópi þessarra pistla). Formaður knattspyrnudeildar gékk okkur í föðurstað á meðan við vorum á svæðinu, veitingastaðurinn var með allt upp á 10 og lýsendurnir á YouTube voru hressir með eindæmum. Hægt er að horfa á leikinn hér fyrir þá sem vilja rifja hann upp og niður blindgötuna.
Að leiknum. Hann var harður og skemmtilegur, alveg eins og við viljum hafa þá. Netverjar hafa jafnvel spurt hvort spjaldafjöldinn hafi verið met, en sjá má nokkur skemmtileg atvik úr leiknum hér. Magnamenn gáfu ekki tommu og við erum ekki þekktir fyrir slíkar gjafir heldur. Talsverðar hrókeringar hafa verið á liði Kormáks Hvatar síðustu vikur vegna leikbanna lykilmanna og forfalla, en áfram höldum við. Í leiknum voru það Ingvi og Goran sem færðu sig inn á miðja miðjuna með Viktori. Atli kom inn á hægri kant og Mateo droppaði niður í sína náttúrulegu vinstri-baks stöðu. Hlynur var vant við látinn, svo Alberto fór inn í miðja vörn. Annað var með hefðbundnum hætti meira og minna.
Til að byrja með vorum við sterkari. Atli átti auðvelt með að skapa ursla en án þess þó að hægt sé að telja upp einhver teljandi færi. Flestar okkar ógnanir voru eftir einstaklingsframtök upp kantana, en í baráttunni á miðjunni voru það Magnamenn sem voru sterkari.
Á 19. mínútu skoruðu heimamenn eftir að full langt var á milli hafsenta okkar og góður bolti fann einn sóknarmann þeirra á auðum sjó. Reyndar var hann svo auður að tala hefði mátt um rúmsjó. Aðdáendasíðan ræsti VAR hugbúnað sinn (Microsoft Paint) og teiknaði rauða línu til að reyna að telja sér trú um að hann hafi verið rangstæður í markinu, en komst ekki að niðurstöðu. Sjálfsagt segja þeirra menn að hann hafi ekki verið rangstæður, en okkar að hann hafi verið það. Ekki verður markið tekið af þeim eða leikurinn endurtekinn, svo látum kyrrt liggja þar.
Tveimur mínútum seinna átti Ingvi góða sendingu inn á vítateig Magnamanna, þar sem Ismael beið átekta. Lék hann framhjá hálfri vörninni og hótaði skoti nokkrum sinnum, svo að varnarlaus markmaður þeirra lá eins og eldislax í dauðakippunum á iðagrænum vellinum. Hjartalínurit áhorfenda á okkar bandi fórum um víðan völl þegar þriðja feikið kom en ekkert skot. Það kom þó að lokum og inn fór boltinn. 1 gegn 1 eftir um 20 mínútna leik.
Þegar hálftími var á klukkunni klikkaði vörn bleikra aftur á talningu í vörninni og einn Magninn frír á fjær. Óvenjulegt að sjá frá besta varnarliði deildarinnar. 2-1 fyrir Magna í hálfleik, en staðan í gulum spjöldum var þarna einnig 2-1 fyrir heimamenn.
Eftir að áhorfendur höfðu farið inn í bíla sína og lagt lúffurnar á miðstöðvar hófst sá seinni eins og vera ber. Hlutlaust mat var að okkar menn hefðu verið ögn betri, en ekki er hægt að rifja upp mörg færi í forgarða. Grenvíkingar héldu áfram að safna spjöldum, nokkuð sem við höfum verið leiðandi í hingað til sumars. Mest var það fyrir munnsöfnuð, tafir og svo klikkuðu þeir út með hörku tæklingum í lokin. Þegar öll atkvæði höfðu verið talin sigruðu Magnamenn í spjöldum með heil 11 gul spjöld gegn okkar fjórum. Ekki algengt það.
Eins og úlfurinn í sögunni um grísina þrjá héldu Húnvetningar áfram að blása og blása, en ekki vildi strákofi Eyfirðinga niður. Ólíkt úlfinum þá gáfumst við ekki upp og á 93. mínútu kom markið sem við þurftum í leikinn, og hafði það þá verið vel lengi á leiðinni. Aftur var það markahrókurinn Ismael Sidibe sem sá um verkið, nú eftir góða sendingu inn fyrir frá Alberto.
Hægt er að tala um víti hér og annað þar, en þessi leikur er búinn að við eyðum ekki dálksentímetrum í það. Næsta verkefni er Augnablik heima, lokaleikur tímabilsins þar sem við getum tryggt okkur upp um deild. Og það ætlum við að gera.