Með ánægju út að eyrum, hver einasta kerling hló

Sunnudaginn 20. ágúst tók Kormákur Hvöt á móti Kára frá Akranesi í skítakulda og norðanþéttingi. Fyrir leik var ljóst að bæði lið ætluðu sér sigur í leiknum (eins og eðlilegt má telja), þar sem heimamenn eru á fullu gasi í spennandi toppbaráttu, en tímabil Káramanna í raun búið þar sem liðið vomir um miðja deild með litlu að keppa.

Gestirnir voru sterkari til að byrja með og létu boltann ganga hratt og vel á rennandi blautum Blönduósvelli. Spennustig bleikliða var að virtist nokkuð hátt og lítið gékk eftir. Tvö gul litu dagsins ljós fyrir tuð, sennilega bæði tengd vítaspyrnu sem dæmd var Kára í vil strax á 6. mínútu. Aðdáendasíðan er löngu hætt að telja vítin sem liðið hefur fengið á sig í sumar, en þessi var samkvæmt gárungum réttilega dæmd á Hlyn Rikk.

Að sama skapi eru fréttaritarar búnir að tapa tölunni á hversu mörg þeirra Stóri-Uros Duric er búinn að verja, sem er nákvæmlega það sem hann gerði í þessu tilviki. Öllum til ólukku þá féll boltinn beint til vítaskyttunnar sem slottaði heim. Marthraðarbyrjun strax í byrjun og ekki blés byrlega.

Vítabaninn Uros Duric

Áfram héldu leikmenn Kormáks Hvatar að reyna en með nær engum árangri. Leikmenn Kára vissu sem var, að okkar menn myndu vilja jafna hratt og fóru að kenna sér höfuðmeins við hverja tæklingu þó svo að engin (já eða lítil) væri snertingin. Ekki var þörf á að hringja í vakthafandi lækni fyrir nein af þeim tilvikum.

Mateo mátti teljast heppinn að annars ágætur dómari leiksins hefði ekki sent hann í sturtu með seinna gula spjald sitt, en það fyrra var það mjúkt að samanlagt hefði hann átt að vera kominn með appelsínugult sennilega þarna ef það væri hægt í fótbolta. En áfram gakk. Kári lék með allþéttan vindinn í bakið og áttu hættulegri sóknir. Í raun munum við bara eftir einu hálffæri í fyrri hálfleik, sem þó var eiginlega ekki neitt. Geldur sóknarleikur það.

Til að bæta gráu ofan á svart skoruðu Káramenn mark númer tvö rétt áður en dómari leiksins blés í flautu sína til hálfleiks. Þá var eitthvað dafl í gangi á miðjum velli, boltanum flengt yfir á kantinn nær flóanum og glæsileg sending fyrir endaði með góðum skalla sem Stóri-Uros átti ekkert í. Hinir margfrægu gárungar voru reyndar á því að maðurinn hefði verið svo rangstæður að um héraðsmet hefði verið að ræða. Jafnvel sýslumet.

En ekkert við því að gera og stöðunni ekki breytt. Lið Kormáks Hvatar lauk þarna sennilega sínum slakasta hálfleik á heimavelli í sumar, en við höfum verið að sjá í nokkrum leikjum að liðið er að bíða með að byrja leikina í góðan hálftíma eða svo og leyfir andstæðingunum að tuskast með sig. Fréttaritari fékk sig ekki einu sinni til að taka slátur, heldur fór á rúntinn og var jafnvel á því að fara bara heim. Sokkarnir blautir, kominn með kvef og allt í ólukku að síga.

En það er ekki í boði. Leikmenn Kormáks Hvatar hafa sýnt það í sumar að við gefumst ekki upp. Eins og hefur verið reifað þá er ekkert lið í deildinni sem hefur snúið tapstöðu sér í vil oftar. Fjórum sinnum fyrir þennan leik hefur liðið fengið á sig fyrsta mark, en snúið því við í sigur. En aldrei hafa mörkin verið tvö. Verðugt verkefni það fyrir hugarfarsskrímslin úr Húnavatnssýslum.

Ingvi og hans menn ákváðu í búningsklefanum að ná marki strax og koma hrolli í gestina. Sjálfur sté Ingvi af velli og Papa kom inn í hans stað. Það átti eftir að hleypa lífi í tuskurnar. Ef tólfti maður vallarins eru áhorfendur þá má segja að þrettándi maðurinn á Blönduósvelli sé norðanáttin margumtalaða. Blautur völlur og þéttur andvari inn flóann var með okkur í liði í seinni hálfleik, enda skoruðust öll mörkin sundlaugarmegin í leiknum.

Eftir þriggja mínútna leik skoraði Alberto Sanchez, sem lék að þessu sinni í vinstri bakverði, mark eftir frábæra sendingu frá Benna. Fjórða mark Albertos í sumar. Fréttaritari var í sjoppunni þegar markið kom, svo ekki er meira um það að segja.

Þumlaskrúfunar voru komnar á Kára og aðeins eitt lið á vellinum. Á 58. mínútu var varnarmanni Kára réttilega vikið af velli, þar sem hann klippti Ismael niður þegar hann var að fara einn í gegn í eltingaleik við fullkomna sendingu innfyrir. Káramenn voru ósáttir við þetta, kannski af því að þeir vildu fá brot á okkur ofar á vellinum í aðdragandanum, sem var sennilega rétt krafa. Úr aukaspyrnunni kom enn ein fullkomna sendingin frá gæðastjóranum Lazar Cordasic, beint á pönnuna á Alberto var dekkaður af tveimur Kárum (enda einn albesti skallamaður deildarinnar). Alberto átti ekki í vanda með að stýra boltanum yfir markmanninn og inn með sínu fimmta marki á leiktíðinni og staðan orðin 2-2 eftir 14 mínútna leik í seinni hálfleik og við manni fleiri.

Besti skallamaður deildarinnar?

Þjálfari Kára fékk eftir þetta gult spjald fyrir munnsöfnuð, hans fjórða slíkt í sumar og hann því kominn í gulraspjaldabann – sem er nokkuð sem Aðdáendasíða Kormáks hefur aldrei heyrt um frá manni í brú knattspyrnufélags. Óskum við næsta andstæðingi Kára til hamingju með að þurfa ekki að þjást undir fúkyrðunum hans af bekknum í næsta leik.

Skömmu síðar átti Lazar skot úr aukaspyrnu sem sleikti stöngina ofanverða, Acai átti þá skalla sem var verulega vel varið af Káramarkmanni. Áfram gakk og þá var komið að Benna, sem var algerlega frábær í seinni hálfleik í leiknum. Goran setti boltann í kanal fyrir Benna, sem spretti upp eins og varnarmennirir væru hreinlega ekki til staðar og slúttaði frábærlega í fjær. Stúkan og leikmenn ærðust af gleði, enda við búnir að snúa leiknum okkur í vil á 25 mínútum.

Leikurinn hélt áfram að vera líflegur og Papa að hleypa fjöri á miðsvæðið með leikni sinni og hraða. Fáir leikmenn í deildinni sem hlaupa hraðar með boltann á tánum. Nokkrum sinnum komumst við í gegn, en fleiri virtust mörkin ekki ætla að verða að þessu sinni. Það var þó tími fyrir eitt í viðbót þegar Ismael böðlaðist í gegn á 90. mínútu, lék á markmann og fíflaði varnarmann áður en hann lagði boltann í netið. Ekki fyrir hjartveika, en þarna var leik lokið og sigurvegararnir voru bleikir.

Fyrri hálfleikur var agalega slakur og áhorfendur hefðu getað gert kröfu á endurgreiðslu aðgangseyris ef ekki hefði verið frítt inn í boði GN Hópferða. Allir komu þó aftur í seinni hálfleik og með ánægju út að eyrum mátti sjá að hver einasta kerling hló í leikslok (og flestir karlar líka), enda blússandi sóknarleikur á borðum. Niðurstaðan 4-2, sem var hið besta mál í ljósi þess að andstæðingar okkar í toppbaráttunni unni sína leiki örugglega. Nú eru aðeins fjórar umferðir eftir og lið Kormáks Hvatar situr í 2. sæti, þremur stigum á eftir Reyni Sandgerði og fimm stigum á undan nýliðum Árbæjar.

Þessi toppbarátta er hnífjöfn og efstu þrjú liðin eiga öll eftir að leika innbyrðis. Við byrjum þann dans með heimsókn í Sandgerði á fimmtudaginn, en í umferðinni þar á eftir koma Árbæjarmenn í heimsókn norður.

Leave a Reply