Árbæjar-Elliði tók á móti Kormáki Hvöt í kvöld í afbragðs knattspyrnuveðri. Eðal síðsumarsveður var saltað og piprað með úrhelli fimm mínútum fyrir leik, svo völlurinn varð eins iðagrænn og alvöru grasvöllur. Byrja ekki annars allir pistlar á því að taka veðurskeytin?
Heimamenn eru með gott lið sem kann fótbolta. Þeir hengja boltann aftur fyrir bakverðina og keyra á vörnina með góðu kantspili. Fyrir lið Kormáks Hvatar, þar sem vantaði tvo lykilmenn í vörninni, var þetta hörku helvítis bardagi sem kom að miklu leiti niður á fótboltalegum gæðum.
Við áttum frumkvæði í byrjun leiks og biðu menn bara eftir okkar fyrsta marki. Ismael kom sér í góðar stöður á vellinum með styrk sínum, enda þarf oft tvo menn til að næstum því jafna við hann. En ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið, því snerting númer tvö sveik hann tvisvar eða þrisvar þarna í fyrri hálfleik. Þó verður að nóterast að sennilega var hafsent Elliðamanna sá varnarmaður sem hefur verið honum næst í kröftum, sannkallað naut þar á ferð sem átti góðan leik.
Um miðbik fyrri hálfleiks voru Elliðar búnir að kvarta sirka 10 sinnum yfir handalögmálum í vítateig sínum, en Kormákur Hvöt átti sex hornspyrnur í hálfleiknum og oft var æðibunugangur í boxinu. Jafn oft, 10 sinnum, hömruðu þeir okkar menn niður og góluðu á leikaraskap. Var þar Goran oftar en ekki fyrir ljám Árbæjarmanna.
Elliði átti seinni part hálfleiksins, þar sem bleikir voru oft sjálfum sér verstir í sóknarleiknum. Allt of oft voru of margir í sama lit á sama blettinum, þegar nær hefði verið að draga sig í svæði eða úr þeim. Að hluta má sennilega segja að bönn og meiðsli í þessum leik, sem kölluðu á að margir voru að spila í stöðum sem þeir hafa ekki verið að spila undanfarið, hafi komið óbalans á liðið.
Núll á hvort lið í hálfleik, sanngjarnt verður að segjast, þó að Ismael hefði mátt hafa sett eitt eða tvö.
Elliðamenn komu sterkari út í síðari hálfleikinn. Þeir toguðu okkur og teygðu um allan völl og lúðruðu svo boltanum inn fyrir vörnina okkar trekk í trekk. Við sáum við flestu. Eftir um 50 mínútna leik tóku heimamenn að hópast að dómaranum látlaust og báðu um eitt og ýmislegt. Til dæmis vildu þeir fá José Mariano útaf með annað gult eftir tannhvassa en löglega tæklingu inni í sínum teig. Í næstu sókn reyndu þeir svo aftur að veiða gæðablóðið José út þegar hann var hvergi nærri réttilega gullituðu broti.
Þarna skitu þeir sig smátt og smátt í fótinn, enda er karma tík.
Þegar 17 mínútur lifðu leiks svússuðu Elliðamenn svo boltanum enn einu sinni inn fyrir eftir að við höfðum farið full hátt með varnarlínuna. Sóknarmaður þeirra gerði gríðar vel og hélt ró sinni þó að hinn víðfaðma Uros Duric í markinu hafi næstum komið óklipptum klónum í boltann, 1-0 fyrir Elliða og ekki margir bleikir í stúkunni sem gátu svo sem kvartað.
En liðsmenn Kormáks Hvatar eru ekki búnir til úr franskbrauði, eins og margoft hefur sýnt sig í sumar. Í níundu tilraun annars sparkviss Lazars kom hann með teiknaðan bolta úr leikkerfisspjalli hálfleiksins beint á pönnuna á Ismael sem hamraði knöttinn með kollspyrnu í netið svo söng í. Níunda mark hans í sumar og sjötta stoðsending Lazars.
Bleikir í stúkunni önduðu léttar. Úrslit umferðarinnar hjá öðrum liðum þýddu að fyrir leikinn vorum við með þriggja stiga forskot á næsta lið, svo eitt til var af hinu góða.
Þremur mínútum síðar fóru Húnvetningar niður þjóðveg númer eitt. Uros í markinu sparkaði eins hátt upp í loftið og hann dreif, Ingvi gerði það sem enginn í deildinni gerir betur og nikkaði þessu bananaútsparki áfram upp völlinn, en þar beið Goran og gerði það sem hann gerir best. Tók boltann niður, lék á einn og þá kominn á móti markmanni einsamall. Lék á hann og lagði boltann í markið. Elliði 1 – Kormákur Hvöt 2.
Restin af leiknum var tímasóun, enginn gerði neitt og það þjónaði okkar liði vel. Bleikir sigldu heim þremur stigum í viðbót og eru nú þremur á eftir Reyni frá Sandgerði í fyrsta sætinu, en sex stigum neðar lúra Víðismenn frá Garði.
Leikurinn var kveðjuspil Jose Mariano, sem hefur komið eins og vítamínsprauta í leik liðsins og andann í klefanum frá því hann mætti óvænt norður í lok júní. Eins og minnugir vita, þá spilaði José með okkur tímabilið góða 2021, þegar Kormákur Hvöt fór upp úr 4. deild, en hann kunni svo vel við sig nyrðra að hann réði sig á vertíð á Hótel Blönduósi nú sumarpart, en hverfur til náms í Bandaríkjunum á sunnudaginn. Þökkum þessum mikla snillingi fyrir sinn hlut í þessu eftirminnilega tímabili sem er að tveimur þriðju hlutum liðið.
Áfram Kormákur Hvöt!