Bleiki valtarinn rúllar yfir eyjaskeggja

Benni og Ingvi fagna á Unglist

Leikskýrsla á ksi.is

14. umferð þriðju deildar Íslandsmótsins fór fram á Unglistahátíðinni nú á helginni, KFS komu í heimsókn. Grillið var funheitt hjá Offsa sjoppustjóra og liðsvarningurinn rauk út. Gríðarlegt stuð í stúkunni og veðrið með því skársta sem vikan bauð upp á.

Fyrir leik var Viktor okkar Ingi Jónsson heiðraður fyrir 100 leiki fyrir meistaraflokk Kormáks Hvatar, en hann gengur með þessum áfanga í hóp Ingva Ingvars Magg, Sigga Aadnegard og Hlyns Rikk sem hafa hlotið þessa sömu viðurkenningu á síðustu árum.

Leikurinn sjálfur fór fjörlega af stað. Sem köld tuska kom mark frá KFS strax á 4. mínútu og sló þögn á brekkuna með det samme. Fréttaritarar voru of uppteknir við að gera og græja til að sjá hvað gékk á, en hvað um það.

Eftir markið var skipt um takt og Kormáks Hvatarmenn tóku gersamlega öll völd á vellinum. Ef taka ætti upp myndband um hvernig skapa á færi án þess að klára þau, þá hefði þessi leikur verið kjörinn vettvangur til að taka það upp. Alls fóru lauslega talið fimm færi/dauðafæri forgörðum í fyrri hálfleik, þar sem næstum allir leikmenn liðsins fengu tækifæri til að brjóta ísinn margfræga.

Það var svo ekki fyrr en á mínútu 33 að Ismael Sidibe skoraði snyrtilegt jöfnunarmarkið eftir glæsilega stungusendingu frá Lazar, fyllilega verðskuldað eftir sannkallaða orrahríð að Eyjamarkinu. Ekki duttu fleiri mörk í þessum hálfleik, en púlsinn meðal áhorfenda var kominn á þægilegri slóðir.

Meðal annarra framteljanlegra hluta í fyrri hálfleik var að Hlynur Rikk bólgnaði upp á ökkla og þurfti frá að hverfa, en þúsundþjalasmiðurinn Siggi Aadnegard kom inn í hafsentinn fyrir hann. Fékk gult nánast um leið, en spilaði restina óaðfinnanlega. Þá sáum við kostulega dýfu frá bakverði KFS-manna um miðjan hálfleikinn þar sem hann veiddi gult spjald á Papa, sem lék afganginn af leiknum styggur mjög. Að öðru leiti var gaman að horfa á leikinn, þar sem þessar endalausu dýfur og fiskerí sem hafa einkennt undanfarna andstæðinga okkar voru lítið sjáanleg. Props á KFS fyrir að spila alvöru harðan fótbolta.

Seinni hálfleikur fór rólega af stað. Kormákur Hvöt með yfirhöndina, en ekki mikið um að ske. Eftir klukkutíma leik kom svo virkilega góð sending inn fyrir frá Ismael þar sem Benni var kominn á auðan sjó á móti markmanni, en gerði gríðarlega vel í að renna boltanum þvert yfir markteig á Ingva sem var kominn í gegn með honum, eftirleikurinn auðveldur fyrir markahæsta mann í sögu liðsins og staðan orðin 2-1 fyrir heimamenn.

Eftir þetta læstu okkar menn leiknum og héldu KFS í þeim stöðum sem við vildum halda þeim í. Þeir fengu eitt dauðafæri, en eyddu meiri orku í að hvæsa á hvorn annan og reyna að komast í mjúkinn hjá dómurum en að lúðra boltanum í netið. Varamenn okkar komu inn og héldu háu orkustigi til að sigla leiknum heim. Orri Ara lét finna fyrir sér um allan völl og gerði geysilega vel í loka leiknum. Í uppbótartíma tók hann svo góða rispu fyrir framan teig KFS, þar sem enginn náði af honum boltanum og úr varð stoðsending á José Mariano sem kláraði með ljúfri vippu yfir markmanninn – 3-1 og leik lokið. Góður sigur á beittu liði Eyjamanna staðreynd.

Leikurinn kostaði þó það að Papa og Alberto fengu báðir gult og verða því í banni næstkomandi fimmtudag þegar Elliðar eru heimsóttir. Þá meiddist Hlynur Rikk svo líklega verða mörg ný andlit í varnarlínunni. Þó eigum við það inni að Goran kemur til baka úr banni og Acai verður aftur klár í slaginn.

Staðan nú er sú að við erum aðeins þremur stigum frá Reyni á topnnum og þrjú stig í Víði fyrir neðan okkur. Sitjum við því sem fastast í okkar 2. sæti. Næææææs!

Leave a Reply