Reynir þetta ekki aftur!

Kormákur Hvöt – Reynir 0-0

Leikskýrsla á ksi.is

Það var fallegt sumarkvöld á Blönduósi í kvöld er heimamenn (já eða „við“) tóku á móti Reynismönnum frá Sandgerði. 20 stiga hiti og logn er klárlega eitthvað sem hvorugt þessara liða hafa vanist í gegnum tíðina, en hvorki mátti heyra leikmenn né aðdáendur þó kvarta eitthvað sérstaklega yfir því. Stúkan var vel mönnuð af stuðningsmönnum úr gervöllu Húnaþingi og slöttungi af Suðurnesjamönnum einnig.

Helstu breytingar á liði heimamanna frá útileik sínum í Akraneshreppi á sunnudag voru þær að út fóru Alberto, Mateo, Aadnegard fyrirliði og Ismael (fengu allir „frí“ í kvöld). Í stað þeirra komu inn í liðið Acai, Jose Mariano, Benni og Kristinn. Acai var að spila sínu fyrstu mínútur á tímabilinu í kvöld, eftir að hafa skroppið suður í kortér og fengið nóg af rigningunni þar. Jose (sem spilaði með liðinu þegar það fór upp) var einnig að spila sinn fyrsta leik á tímabilinu, nýkominn úr flugi og blessunarlega á frívakt á hótelinu í kvöld.

Uros bar fyrirliðabandið að þessu sinni. Fyrir framan sig hafði hann Papa í vinstri, Hlyn Rikk og Acai í miðvörðum og Jose hægra megin. Á miðju voru Lazar, Viktor og Benni. Og á köntum og frammi voru Goran, Kristinn og Ingvi. Já eða Goran var reyndar bara allsstaðar, svo það sé haft á hreinu.

Getspakir menn sunnan heiða voru svartsýnir fyrir hönd hins „vængbrotna“ liðs Kormáks Hvatar og spáðu jafnvel handboltaúrslitum Suðurnesjamönnum í vil. En oft kemur maður í manns stað og sú var jú raunin í kvöld.

Leikar hófust ekki með neinu offorsi. Reynismenn byrjuðu þó betur og áttu m.a. hættulítið langskot í byrjun leiks. Þeir skapa sér meira en við á þessum upphafsmínútum, en við náum þó að skapa smá hættu eftir rúmlega 10 mínútna leik. Eftir um kortérs leik er svo að myndast jafnræði með liðunum og bæði að fá færi sem þó lítið verður úr. Kristinn og Goran ná vel saman og við fáum tvö fín færi, sem við náum þó ekki að nýta.

Reynismenn sækja þá hratt á okkur og hættuleg sending fyrir. Boltinn endar að lokum í horni, sem ekkert verður úr. Stuttu síðar leggja þeir aftur af stað í sókn, en Lazar tekur alvöru tæklingu og við vinnum boltann, eða það héldu menn í fyrstu. Dómarinn virtist ekki alveg viss, hugsaði sig svo aðeins um og dæmdi að lokum brot. Og gult á Lazar. Goran fékk svo gult fyrir að malda aðeins í móinn. Stúkan virtist ekki alveg viss um ágæti þessa dóms, en heilt yfir hélt þó dómarinn línunni nokkuð vel í leiknum.

Aftur komast Suðurnesjamenn í góða sókn og eiga annað langskot, sem Uros ver með glæsibrag.

Við svörum þessu með einu af mörgum frábærum hlaupum Papa upp vinstri kantinn. Vinstri, hægri, miðverði? Alltaf fáum við reglulega að sjá þessi mögnuðu hlaup hans, þar sem leikmenn andstæðingsins eru sem keilur eða jafnvel blaktandi fánar í stórsvigi. Í tví- eða þrígang í leiknum endar hlaup Papa inni í boxinu og hann einn á móti markmanni. En það er eins og frelsarinn sagði, úr vörn ertu kominn og að varnarmanni skaltu aftur verða, því skot hans enduðu nokkuð örugglega í hönskum markmanns Reynis. En við fáum aldrei nóg af áætlunarferðum Papa upp kantana.

Reynismenn fá þá stuttu síðar horn, en Uros kemur af miklu öryggi út og kýlir boltann vel út úr teignum. Lazar kemst í ákjósanlegt skotfæri en skýtur vel framhjá. Stuttu síðar fær Viktor svo boltann rétt fyrir utan teig og setur hann hárfínt framhjá, við sáum þennan inni.

Heimamenn halda áfram að sækja og enn eru það Kristinn og Goran sem bera hitann þar, þó Ingvi þjálfari sé ótt og títt nýttur sem batti í kantspili okkar. Hann kemst þá sjálfur í tvígang í færi, en við náum ekki að klára dæmið. Reynismenn fá þó algjört dauðafæri á markamínútunni frægu en setja hann rétt framhjá.

Hálfleikur – 0-0.

Reynir eiga fyrsta færi seinni hálfleiks, en það er hættulaust með öllu. Við fáum þá horn, en Lazar á svo skot yfir markið. Annað gott hlaup frá Papa upp kant og inn í teig, en aftur vantar aðeins meiri kraft í skotið. Ingvi á þá gott skot fyrir utan teig sem er varið naumlega í horn. Benni á svo skot upp úr horninu sem siglir yfir markið.

Uros reddar okkur svo í tvígang, grípur fyrst inn í góða fyrirgjöf og ver svo annan þrumufleyg yfir markið. Goran tekur þá á rás enn eina ferðina og skapar nokkurn usla, færir boltann yfir á Benna sem nær ágætis skoti, en varið. Benni og Viktor fara útaf á 55. mínútu og inn koma Argentínumaðurinn Nico og hinn 17 ára gamli Atli Þór Sindrason, enn einn ungi heimamaðurinn, nýkominn til baka frá Þór AK. Hann átti afar spræka innkomu og lét strax finna fyrir sér úti á vinstri kantinum.

Við höldum áfram að sækja og fáum gott skallafæri sem fer framhjá markinu. Nico með góða sendingu í gegnum pakkann og inn á Andra, hvar boltinn berst svo til Kristins, sem nær þó ekki nógu góðu skoti á markið.

Reynismenn fá einnig færi, sending fyrir og Uros slær boltann út. Þeir eiga svo skalla ofan á slána stuttu síðar. Goran heldur áfram að stríða þeim með hlaupum sínum og sækir á þá aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Lazar með skot, sem endar í horni. Papa á svo „trademark“-hlaup stuttu síðar, sem endar í aukaspyrnu við vítateigshornið.

Ingvi fer þá útaf og inn á kemur Anton Einar Mikaelsson, einnig 17 ára að spila sinn fyrsta leik fyrir meistarflokk.

Í lokin kemst svo Reynir í góða sókn en aftur er Uros vel á verði og bjargar í horn.

Lokatölur – 0-0.

Heilt yfir góður leikur og hefði léttilega geta endað með nokkrum mörkum, á báða bóga. Reynismenn byrjuðu leikinn aðeins betur, en við náðum svo að vinna okkur inn í leikinn og nokkuð jafnræði með liðum í fyrri hálfleik. Í þeim seinni náðum við enn meira valdi á leiknum, án þess þó að ná að nýta okkur það almennilega. Reynir átti þó sín færi en Uros gjörsamlega lokaði rammanum. Jafntefli líklega sanngjörn niðurstaða, þótt miðað við gang leiksins í seinni hafi það verið hálffúlt að hirða ekki öll þrjú stigin.

Punktar

  • Mikill karakter í liðinu að fá efsta liðið í heimsókn, verandi með 4 lykilmenn í banni og eiga þetta mikið í leiknum.
  • Uros er nú kominn með 3 hrein lök í deild, sem er besta frammistaða markmanns það sem af er tímabils. Hann er að taka klassavörslur í nánast hverjum leik og er að skila punktum í hús.
  • 3 leikmenn fæddir 2006 spiluðu leikinn í dag, einn þeirra spilaði allan leikinn. Ungu strákarnir eru að koma virkilega flottir inn í þetta og gefa ekkert eftir.
  • Virkilega gaman að sjá þá Acai og Jose aftur í bleiku. Stigu vart feilspor í leiknum, þrátt fyrir að vera nýmættir til leiks.
  • Það eru komin 14 stig á töfluna eftir 8 umferðir. Það er mjög vel. Í næsta leik mætum við aftur efsta liðinu, en Árbær komst upp fyrir Reyni með sigri sínum í kvöld.

Leave a Reply