Við stjórnum í Kórnum

Leikskýrsla á ksí.is | Umfjöllun í Feyki (vantar) | Umfjöllun í Húna (vantar)

Ýmir – Kormákur Hvöt 0-1

Siglingaklúbburinn Ýmir tók á móti Ungmennafélögunum Kormáki og Hvöt í Kópavogi í gær, miðvikudaginn 7. júní. Leikið var í Kórnum, stórglæsilegri knatthöll uppsveita Kópavogs, en hér var á ferðinni fjórði útileikur okkar manna í fyrstu umferðunum sex.

Leikurinn fór af stað eins og við var búist. Tvö lið sem spáð var af sérfróðum í botnbaráttunni trönuðu sér temmilega fram í sóknarleik og þreifuðu á hvoru öðru til að byrja með. Bleikliðar (sem reyndar spiluðu í svörtu á þessum útivelli) virkuðu eitthvað tens til að byrja með, þar sem þeir töpuðu boltanum trekk í trekk á miðsvæðinu, án þess að Ýmismenn næðu að nýta sér það.

Eftir þennan shaky kafla, sem varði í sirka korter, var allt með felldu. Lazar Čordašić, gæðastjórinn á miðjunni, steig ekki feilspor það sem eftir var leiksins. Sté lipur spor og gabbaði unga miðjumenn Ýmis upp úr skónum með fintum og fléttum að balkönskum sið. Við hlið hans var Viktor Ingi, alltaf leikmaður sem þekkir réttu sendinguna á rétta tímanum. Síðari 30 mínúturnar í fyrri hálfleik var eign Kormáks Hvatar, án þess að boltinn færi inn. Næst því voru sóknarmenn okkar þegar Ingvi fékk sendingu inn fyrir en skallaði beint í greipar markmanns heimamanna, þegar ögn til hliðar hefði skilað tuðrunni í mark og ögn til hinnar hliðar hefði skilað honum á Ismael á opnum sjó. En svona er boltinn stundum, stöngin út.

Hálfleikur kom og fór. Áfram var barist, bitist, klórað og kjaftað. Goran Potkozarac var allt í öllu í leik okkar manna. Sama hvað þeir reyndu að klukka hann, þá komst hann undan. Togað í hendur, treyju og tær. Ekkert gékk hjá Ými. Goran eins og hann var í gær er einfaldlega langbesti leikmaðurinn á vellinum hverju sinni. Hann var farinn að vinna miðjumenn hinna í skallaboltum, þó svo að einhverjir þeirra væru þrjátíu þumlungum honum hærri. Goran virðist búa yfir þeim hæfileika að geta svifið í loftinu lengur en margur, húkt í háloftunum þar til aðrir einfaldlega lenda – og skallað þá boltann þar sem hann þarf á honum að halda.

En inn fór boltinn ekki. Lang besta tækifæri seinni hálfleiksins kom eftir um 80. mínútna leik, þegar Goran braust í gegn eins og Maradona og átti aðeins eftir að reka smiðshöggið á, nú eða gefa á Ismael sem aldrei er langt undan þegar taka skal til kostanna. Eitthvað klikkaði og fætur Gorans gáfu eftir, boltinn skvaldraði út af og boppaði gott ef ekki þrisvar á leiðinni þangað. Salurinn tók andköf. Sannarlega var hér síðasta færi aðkomumanna farið í holræsið, enda voru heimamenn farnir að taka sér verulega langan tíma í öll útspörk og innköst. Boltasækjar farnir í háttinn.

Á mínútu 84 tók Lazar enn eitt hornið (sem voru öðru hvoru megin við 10 í leiknum) og á fjær lúrði miðvörðurinn hávaxni Don Alberto Sanchez Montilla. Inn fór boltinn með kollspyrnu og Húnvetningar í stúkunni ærðust af gleði. Það sem eftir lifði leiks hertum við enn varnarleikinn, þar sem Ýmismönnum lá nú á. Boltasækjar vaknaðir af lúrnum og mikið havarí. Í einni skyndisókninni komst Goran einn í gegn, reyndar með Ismael sér við hlið og miðvörð andstæðinganna á hælunum. Það má lesa bókstaflega, þar sem miðvörðurinn atarna klippti Goran niður aftanfrá svo stúkan tók andköf. Einhverra gersamlega óskiljanlegra hluta vegna ákvað dómarinn að hér væri ekkert á ferð. Ekki rautt spjald, sem hver einasta kerling hló að. Ekki heldur gult fyrir leikaraskap, svo sá í svörtu klæðunum hlýtur að hafa ályktað að Goran hafi dottið. Hvernig sem hann fékk það út. Þess er þó vert að minnast að dómarinn var mjög góður í leiknum og lét ekki gabba sig í að hleypa leiknum upp í vitleysu, þrátt fyrir þespísk tilþrif á köflum, þar sem menn jöfnuðu sig á ætluðum svöðusárum á mettíma hvað eftir hvað.

Allt kom fyrir ekki og leiknum lauk eftir full margar uppbótarmínútur. Niðurstaðan gríðarlega sanngjarn sigur Kormáks Hvatar, 0-1.

Varamenn sem komu við sögu voru þeir Nico De Vito, nýr leikmaður sem leysti Viktor Inga af hólmi í hálfleik; Kristinn Bjarni kom inn fyrir Benna á 61. mínútu og djöflaðist vel í Ýmrum; Gústi okkar kom og leyfði Ingva þjálfara að klára leikinn af bekknum síðustu 18 mínúturnar og svo kom Ísak Sigurjónsson, sem fyrr um daginn hafði fengið félagaskipti aftur til okkar eftir nokkur ár annarstaðar, og gaf Lazar kærkomið frí á 84. mínútu. Á bekknum sátu án þess að koma til leiks þeir Hlib, Finnur Karl og svo nýliðinn úr Vestursýslunni hann Egill Þór sem var að klæðast treyjunni í fyrsta sinn.

Kormákur Hvöt hefur nú sigrað síðustu þrjá andstæðinga sína. Í síðustu tveimur leikjum hefur liðið haldið hreinu. Í þremur af fjórum útileikjum hefur liðið borið sigur úr býtum. Kormákur Hvöt er í þriðja sæti, aðeins stigi á eftir toppliðinu, en heldur nú upp á Skaga þar sem næsti andstæðingur er lið Kára.

Leiklýsingunni má ekki slútta án þess að minnast á varnarleikinn í gær. Goran er verðskuldað maður leiksins, en þessi varnarmúr sem við erum að mynda þar yfir aftan er ógnvænlegur. Siggi steig inn í hægri bak, Papa og Alberto hafsentar og Mateo vinstri bak. Allir áttu þeir mjög góðan leik, en sérstaklega verður að minnast á Papa Tecagne, sem var frábær í leiknum. Sóknarmaður Ýmis mun ekki minnast þessa leiks með hlýju, enda var vart að sjá að hann hefði spilað hann.

Áfram Kormákur Hvöt!

Leave a Reply