
Í.H. – Kormákur Hvöt 1-2
Laugardaginn 6. maí fór fram opnunarleikur 3. deildar 2023 hjá Kormáki Hvöt, þar sem leitað var á fornar slóðir gegn Íþróttafélagi Hafnarfjarðar (Í.H.). Fyrir daginn höfðu liðin att kappi saman í 3. og 4. deild, leikjubikurum og allskonar níu sinnum. Liðin höfðu unnið fjórum sinnum hvort og eitt jafntefli. Leikjum liðanna í fyrra lauk báðum með sigri Kormáks Hvatar, 2-3 í Hafnarfirði og 4-0 á Blönduósi.
En nóg af sagnfræði, leikurinn í gær var eins og við var að búast. Hart var barist á milli liða sem svokallaðir sérfræðingar hafa spáð klandri í sumar. Í.H. hafa verið duglegir að bæta við sig mannskap á síðustu dögum, þar sem lánsmenn og leiguliðar frá F.H. og Haukum hafa verið að detta inn. Í.H er venslað hinu fyrrnefnda, svo nóg var af mönnum á 2. flokks aldri í byrjunarliði þeirra og bekkjum.
Frá hlutlausum augum síðuhaldara hefur lið Í.H. verið samnefnari þess að tuða allan leikinn. Eins og oft með lið skipuðum yngri leikmönnum er leiðin niður í grasið oft ansi stutt og tilefnið lítið. Dómari leiksins gerði ágætlega í að halda mönnum á línunni, en bróðurlega skipt sjö gul spjöld fóru á loft. Þarna þurfa Kormáks Hvatarmenn að fara varlega, enda hópurinn ekki sá stærsti.
Markaljónið Ismael Sidibe opnaði reikninginn strax á opnunarmínútunum með haganlega plasseruðu marki eftir frábæra fyrirgjöf Sigga Aadnegard. Yfirvegun og fágun voru einkunnarorð þeirrar sóknar, einfaldir þríhyrningar upp að endalínu og gæði okkar fílbeinska framherja sýndu sig þarna mjög vel. Ismael hefur verið á eldi á undirbúningstímabilinu og skorað tvö til þrjú mörk í hverjum leik. Veðmálaþyrstir ættu ekki að setja á móti því að hann myndi enda sem markahæsti leikmaður deildarinnar þegar talið er upp úr pokunum í haust.
Eftir um 20 mínútur fengu heimamenn víti, sem var eftir klafs sem engin leið er að segja til um hvort var rétt eða ekki. Dómarinn var mun nær atvikinu og menntaður í sínu fagi, svo við treystum honum. Fyrirliði Í.H. setti vítið á geysilega öruggan hátt og áfram gakk.
Leikurinn var í járnum eftir þetta, þar sem Í.H. voru meira með boltann, en sóknir okkar hættulegri. Marga pósta vantar í okkar lið um þessar mundir vegna meiðsla og annara ástæðna, svo þúsundþjalasmiðurinn Aadnegard leysti hægri bakvörðinn í þetta sinn. Þeirra hættulegasti maður var vinstri kantur, svo mikið fór þar í gegn og mæddi á. Allt leystist það.
Í upphafi seinni hálfleiks skoraði Goran Potkozarac svo sigurmarkið, en hann gladdi augu áhorfenda oft á tíðum í leiknum með sinn lága þyngdarpunkt og knattspyrnuheila. Eftir það voru Í.H. meira með boltann án þess að skapa mikið. Alberto Montilla fékk tvö góð færi sitt hvoru megin við hálfleik og Ismael Sidibe hefði átt að klára dauðafæri á móti markmanni. En það skiptir ekki máli, þar sem stigin þrjú eru húnvetnsk að þessu sinni og þökkum við fyrir það.
Fjölmargir leikmenn spiluðu sinn fyrsta deildarleik fyrir Kormák Hvöt eins og vani er í fyrsta leik sumarsins. Af erlendum voru það Uros í markinu, Alberto í vörninni, Lazar á miðjunni og Ismael á toppnum. Einnig spilaði hinn 18 ára gamli Orri Arason sinn fyrsta meistaraflokksleik á hægri kanti og á 90. mínútu kom inn 40 ára gamall Hermann Albertsson inn fyrir Ismael í framherjastöðuna í sínum fyrsta leik fyrir Kormák Hvöt. Hlib Horan, sem Aðdáendasíða Kormáks sagði aðeins frá um daginn, kom þá inn undir lok leiks og hjálpaði til við að loka dæminu.
Mark:
Uros Duric stóð sig vel í sínum fyrsta leik fyrir félagið, án þess að hafi reynt sérlega mikið á hann (sem hlýtur að vera góðs viti). Hann er risastór og raddsterkur, sem eru kostir í rammanum.
Vörn:
Siggi Aadnegard – Papa – Alberto – Hlynur Rikk sáu um þetta og leystu vel. Mikið var sótt upp vinstri kant Í.H. þar sem spækur maður var. Engin sérstök vandamál á ferðinni og helstu færi þeirra voru (allavega í sólarhringsgamalli minningunni) langskot sem fæst rötuðu á markið. Vel búum við að því að hægt er að setja Sigga hvar sem er á vellinum, rétt eins og Liverpool höfðu Steve Nicol í gamla daga. Rikkarinn eldist svo eins og gott hvítvín og leysti vinstri bak með sóma.
Miðja:
Lazar – Goran – Ingvi voru góðir. Lazar Cordasic býr yfir mikilli reynslu og það sést í öllu sem hann gerir. Unun var að horfa á hann á lokakafla leiksins, hvernig hann rak þeirra besta mann svo aftarlega á völlinn að hann var farinn að operera eins og leikstjórnandi í amerískum fótbolta, frekar heldur en framliggjandi miðjumaður. Goran kann fótbolta og kann að halda hlutum einföldum. Missti boltann nokkrum sinnum, en hélt honum á lykilstundum og ungir Í.H.-ingar áttu litið í hann þá. Ingvi átti mjög flottan leik, tapaði varla skallabolta og eitthvað segir okkur að hann eigi eftir að eiga nokkrar skalla-stoðsendingar á Ismael í sumar.
Sókn:
Orri – Ismael – Kristinn Bjarni sáu um þetta. Orri í sínum fyrsta leik gerði marga hluti vel og tók sín skot, sem er alltaf gott hjá ungum sóknarmönnum – að þora að skora. Kristinn lokaði vel vinstra megin og átti nokkrar góðar rispur inn í teig Í.H.-inga. Gústi kom inn snemma í seinni hálfleik og gerði mjög vel í að ýta Í.H. aftar á völlinn og hjálpa Sigga í varnarvinnunni. Dýrmætur svissneskur vasahnífur sem við eigum þar.
Ismael er svo eins manns her í framlínunni og gaf hinum engan frið. Hann er með sterkustu læri síðan Höddi Guðbjörns klæddist Kormáks og Hvatarbúningum, feykti mönnum út í húsvegg öxl í öxl og sýndi mýkt í marki sínu. Sá á eftir að reynast okkur dýrmætur í sumar ef tunglin raðast rétt.